21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2143)

8. mál, vegalög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að ég hefði haldið því fram, að sum héruð væru búin að fá alla vegi, sem þau þyrftu á að halda. Það getur vel verið, að ég hafi sagt þetta ónákvæmt, en ég ætlaði þó a. m. k. að segja, að sum héruð væru búin að fá svo að segja alla vegi, og ég er ekki viss um, nema til séu héruð, þar sem allir vegir, sem vegir eru nú, eru í þjóðvegatölu, — svo að þetta er nú líklega ekki fjarri sanni hvað snertir sum héruð. Hitt, að ég hafi þessar fregnir frá fyrirrennara mínum, þá þarf það ekki til að koma.

Ég ætlaði mér alls ekki að bera hv. 1. þm. Eyf. það á brýn, að hann sé búinn að koma vegi heim á hvern einasta bæ, hvað sem um það kann að hafa verið sagt áður, (BBt: Væri það eitthvert ódæði?) Nei, ég segi það ekki, en við Gísli Jónsson erum báðir Barðstrendingar, þekkjum sýsluna út og inn og þurfum hvorugur annan að bera fyrir því, hvernig háttað er vegum í Barðastrandarsýslu, eða fá upplýsingar í þeim efnum hvað það kjördæmi snertir, en ég hef engar upplýsingar um Eyjafjörð sérstaklega.

Mér virtist það koma fram í ræðu hv. 1, þm. Eyf., að hann teldi jafnvel, að ég væri á móti því að fylgja þarna einhverri reglu í vegagerð. En það er alls ekki svo. Það er allt annað að fylgja einhverri reglu eða fara að flokka vegina niður, og það var það, sem ég var að vara við. Það var sú flokkun, sem hv. 1. þm. N-M. nefndi. Ég get ekki fallizt á slíka flokkun. En það er allt annað mál að skapa sér einhverjar reglur um það, hvar vegir og hvernig vegir eru lagðir og hvað skuli kostað af ríki og hvað skuli kostað af sýslusjóðum eða hreppum eða bændum. Hann aftur á móti setti fram sína hugmynd um ákveðnar reglur. Og í síðari ræðu sinni virtist reglan vera fyrst og fremst sú hjá honum, hvað margir bílar færu um vegina á dag, m. ö. o., hvað notkunin á vegum væri mikil. Og það var þessi hugmynd, sem ég hef oft heyrt hann halda fram áður, en ég vildi mótmæla, af því að út af því gæti orðið mikið ósamræmi á milli landshluta og einstakra héraða. Og um það verður varla deilt, að það yrði afleiðingin af því. Hann sagði í seinni ræðu sinni, að ef þetta væri gert af skynsemi, þá þyrfti þetta misræmi ekki að koma fram. Það getur vel verið, að það megi með skynsemi skapa einhverja reglu, en þá má ekki flokka vegina eftir þessu lögmáli, sem hann lauslega benti á.

Ég held, að það væri ákaflega hæpið að fara alveg eftir bílatölunni eða notkuninni, hve mikil hún væri, um það, hvort ríkið ætti að kosta að öllu leyti veginn eða heimahérað að einhverju leyti. Og hv. 1. hm. Eyf. nefndi fleira, sem hann vildi láta taka í þessar hugsanlegu reglur, t. d. þá vegi, sem væru notaðir daglega til mjólkurflutninga. Þarna rekum við okkur strax á þá staðreynd, að vegur, sem samkv. hugmynd hv. 1. þm. N-M. mundi tvímælalaust lenda í 3. fl., er vegur, sem flutt er mjólk eftir á hverjum einasta degi árið um kring. Það vill svo til, að það er slíkur vegur heima í minni fæðingarsveit. Það eru ekki margir bílarnir, sem fara hann á dag, og á veturna fer ekki einn einasti bíll þennan veg nema sá, sem flytur mjólkina. Ja, í hvaða flokki ætli hann lenti nú, ef hann lenti þá í nokkrum? — Nei, það yrði áreiðanlega margs að gæta. En hitt vildi ég leggja áherzlu á, að sú athugun fari fram, sem hv. 1. þm.

N-M. benti réttilega á, þ. e. að fá nákvæmar skýrslur um vegina í landinu og sundurliða, hvað eru fullgerðir vegir og hvað eru hálfgerðir vegir, því að svo fylgir það líka sums staðar í dreifbýlinu, að þó að vegur sé kominn að nafninu til, þá er það ekki nema hálfgerður vegur.

Það er því fjarri því, að ég vilji mæla gegn því, að regla sé upp tekin í þessum málum, en ég mæli gegn því, að farið sé nú að flokka vegina eftir því, hversu mikið þeir eru notaðir, hvort þeir eru á milli einhverra ákveðinna höfuðhéraða, því að úr því gæti skapazt og hlyti að skapast mjög mikið misræmi.