12.12.1957
Efri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (2151)

87. mál, hlutur sveitarfélaga af söluskatti

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Efni þessa frv. er það, að meðan söluskattur er á lagður að lögum, skuli fjórðungur hans renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þaðan skuli þeirri upphæð skipt milli allra sveitarfélaga á landinu eftir íbúatölu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu mjög skortir á, að sveitarfélögin á Íslandi hafi næga tekjustofna til að standa undir margháttuðum útgjöldum. Eini tekjustofn þeirra, sem nokkru nemur, er útsvörin. En þó að ríkisvaldið hafi lagt sífellt aukin útgjöld á sveitarfélögin, hefur hin hliðin verið vanrækt, að afla þeim nýrra tekjustofna, því að takmörk eru fyrir því, hversu hátt er hægt að fara með útsvörin og langt þar að ganga.

Samtök sveitarfélaganna og fundir þeirra hafa hvað eftir annað á undanförnum árum bent á nauðsyn þess að fá að lögum heimild til nýrra tekjustofna. Vil ég nefna þar bæði fulltrúafundi og landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga, bæjarstjórafundi, sem haldnir hafa verið, og nú síðast fundi bæjarstjóranna af Vestur-, Norður og Austurlandi. Allar þessar samþykktir og áskoranir ganga í þá átt að skora á Alþ. og ríkisstj., að afla nýrra tekjustofna. Í þessum ályktunum hefur oft verið minnzt á þá leið, sem hér er nefnd í frv., að sveitarfélögin fái hluta af söluskattinum. Held ég, að óhætt sé að fullyrða, að Samband ísl. sveitarfélaga og yfirleitt allar sveitarstjórnir standi einhuga að baki því máli, sem hér er flutt.

Ég vil vísa til grg., sem fylgir frv., og umr., sem urðu um þetta sama mál á síðasta þingi, tel ekki ástæðu til að orðlengja það frekar að sinni, en vænti þess, að málið fái góðar undirtektir á Alþingi. Ég legg til, að frv. sé vísað til 2. umr. og hv. fjhn.