17.12.1957
Efri deild: 44. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (2155)

90. mál, skipun prestakalla

Flm. (Karl Kristjánsson) :

Herra forseti. Í Vatnsendaprestakalli í Suður-Þingeyjarprófastsdæmi eru 3 kirkjusóknir, Þóroddsstaðasókn, Ljósavatnssókn og Lundarbrekkusókn í Bárðardal, en ákveðið er, að prestssetur skuli vera að Vatnsenda, og svo hefur verið um alllangt skeið.

Fyrir 3 eða 4 árum var þetta prestakall veitt ungum presti, sem enn hefur ekki tekið sér þar aðsetur. Fyrst hafði hann aðsetur að Fremstafelli í Ljósavatnssókn, nú hefur hann aðsetur í Laugaskóla og stundar þar kennslu með prestsstörfum sínum. Þessi prestur er að vísu einhleypur. En þó mundi hann hafa gerzt bóndi að Vatnsenda, ef honum hefði ekki litizt jörðin svo óhentug, að hann hikar við að fara þangað.

Ýmsir menn í þessum sóknum viðurkenna, að þetta sé rétt, og hafa fengið áhuga á því að fá breytt um prestssetur.

Presturinn, Stefán Lárusson, skrifaði mér bréf, dags, 29. nóv., um þetta mál og óskaði þess, að ég færi fram á það við Alþ., að það heimilaði að breyta um prestssetur. Ég hafði frétt um þessi mál í haust og gerði mér þess vegna ferð að Vatnsenda til að líta á aðstæður þar og gekk þá úr skugga um, að allt væri rétt, sem presturinn heldur fram um óhentugleika staðarins.

Presturinn segir í þessu bréfi, sem ég nefndi áðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Orsök þess, að ég tel nauðsynlegt að breyta um prestssetur, er fyrst og fremst sú, hversu Vatnsendi er orðinn óheppilegur sem prestssetur og þá ekki sízt á síðustu tímum. Skal nú í stuttu máli lýst helztu göllum Vatnsenda sem prestsseturs til rökstuðnings ofannefndu:

1) Byggingar eru yfirleitt mjög ófullkomnar. Íbúðarhúsið er orðið gamalt, og þyrfti að kosta stórfé til aðgerðar á því, en þó gæti það aldrei fullnægt nútíma kröfum. Skepnuhús eru gersamlega óhæf, og þyrfti að byggja öll útihús að nýju. Hjá því yrði alls ekki komizt, ef um búskap ætti að vera að ræða á jörðinni.

2) Girða þyrfti tún og engjar alveg að nýju.

3) Lega Vatnsenda er og að því leyti óhagstæð, að prestssetrið liggur í ca. 2 km fjarlægð frá þjóðvegi, og er enginn upphlaðinn vegur heim að prestssetrinu. Verður því oft og tíðum illfært bifreiðum og stundum alveg ófært mikinn hluta vetrar. Er þetta augljóst mál, því að hér er um mikið snjóapláss að ræða.

Loks skal þess getið, að það verður að teljast til galla á Vatnsenda, að þar nýtur ekki sólar í þrjá til fjóra mánuði yfir veturinn.“

Það er nú vitanlega ekki ný ástæða. Þetta prestssetur stendur við suðausturhorn Ljósavatns, sem allir kannast við, sem hafa farið þarna um þjóðveginn, undir háu fjalli, sem skyggir á sól, þegar hún gengur lágt í skammdeginu.

Nú hefur sérstaklega komið til mála, og ég tel rétt að skýra frá því, að flytja prestssetrið í nýbýlahverfi, sem ríkið er að koma upp við Fremstafell. Þar er kostur á mjög fallegum stað og hentugum fyrir prestssetur, vel í sveit settum og að öðru leyti fögrum stað og góðum undir hæfilegt bú fyrir prest að reka. Og sá staður hefur það fram yfir Vatnsenda, að þangað verður leidd samveita, héraðsrafveita frá Laxárvirkjuninni, mjög fljótlega, en ekki er gert ráð fyrir því, að Vatnsendi geti komizt í slíkt samband vegna legu sinnar, og er það mikill ókostur.

Presturinn segir í áðurnefndu bréfi:

„Staður sá í Kinnarfelli, er einna hagstæðastur virðist vera fyrir nýtt prestssetur, hefur ýmsa ótvíræða kosti fram yfir Vatnsenda, og skal nú til samanburðar getið hinna helztu:

1) Staðurinn er nálægt þjóðvegi í hæfilegri fjarlægð, rétt við akbrautina að Fremstafelli.

2) Ræktunaraðstaða er mjög góð og landrými, er hentar presti.

3) Gert er ráð fyrir, að áður en langt um líður verði rafmagn frá Laxárvirkjuninni leitt í nýbýlahverfið og nærliggjandi svæði.“

Þá segir enn fremur í bréfinu:

„Prófasturinn í Þingeyjarsýsluprófastsdæmi hefur látið sér mjög annt um þetta mál, og í byrjun þessa árs ritaði hann kirkjustjórninni og biskupi bréf, þar sem hann gerði ýtarlega grein fyrir aðstæðum varðandi prestssetursmálið. Felldi hann inn í bréf þetta ályktun sóknarnefnda hinna 3 sókna prestakallsins.“ — En þær hafa fjallað um þetta mál, þó að ég hafi ekki ályktanir þeirra hér við höndina. — „Í árslok 1956 sótti ég,“ segir presturinn, „til landnáms ríkisins um land á umræddum stað og fékk svarbréf frá landnámsstjóra, herra Pálma Einarssyni, dags. hinn 22. marz þ. á.“ Það hljóðar svo:

„Á fundi nýbýlastjórnar ríkisins 14. þ. m. var lagt fram erindi yðar, herra sóknarprestur, ásamt meðmælum hreppsnefndar Ljósavatnshrepps, dags. 28/11, og er í erindinu farið fram á að fá land fyrir prestssetur í landi landnáms ríkisins í Kinnarfelli.

Nýbýlastjórn samþykkti viðkomandi þessu eftirfarandi:

Nýbýlastjórn heimilar afhendingu eins þeirra býla, er skipulögð hafa verið í hverfi þessu á þeim stað, sem óskað er eftir í erindinu, og mun samþykkja prest sem ábúanda á því og mundi, að því er tekur til ræktunar, veita stuðning sem til annarra nýbýla, enda verði séð fyrir byggingu íbúðarhúss með sama hætti og gert er á öðrum prestssetrum.

Það skal fram tekið, að staðsetning húsakosts og stærð og gerð peningshúsa yerða að vera ákveðin í samráði við landnám ríkisins. Að sjálfsögðu fer afhending lands fyrst fram, er fyrir liggur samþykki biskups og kirkjumálastjórnar fyrir færslu prestssetursins á þennan stað.“

Þannig er svar nýbýlastjórnar.

Nú er það auðvitað mál, að prestssetur verður ekki flutt, nema heimilt sé að lögum um skipun prestakalla. Ég flyt ekki till. um það, að ákveðið verði í þeim l., að prestssetrið skuli flutt. Hins vegar er till. mín með þessu frv. sú, að Alþ. veiti heimild til þess að flytja prestssetrið, ef kirkjustjórninni lízt það ráðlegt að athuguðum öllum þeim atriðum, er til greina koma, þegar slíka ákvörðun á að taka.

Fyrir í prestakallalögunum er heimild nákvæmlega eins og þessi að því er snertir Hvítanes í Ögurþingum í Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi, svo að hér er ekki um að ræða, að farið sé fram á það, sem ekki er fordæmi fyrir.

Mér skilst, að málum eins og þessum hafi hér á Alþ. jafnan verið vísað til menntmn, til athugunar, og ég vil þess vegna leggja til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til menntmn. deildarinnar.