25.02.1958
Efri deild: 56. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2160)

127. mál, skipun innflutnings og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl.

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. þm, Ak. (FS) og hv. 1. þm. Eyf. (BSt) frv. það, sem hér liggur fyrir til 1. umr. og fjallar um breyt. á l. nr. 88 frá 24. des. 1953, um skipan gjaldeyris- og innflutningsmála, fjárfestingarmála o. fl. Breyting sú, sem frv. gerir ráð fyrir, er sú, að settar verði á stofn allt að þrjár innflutnings- og gjaldeyrisafgreiðslur utan Reykjavíkur. Skipi ríkisstj. að fengnum till. innflutningsskrifstofunnar forstöðumenn þessara stofnana, en þeir taki síðan ákvarðanir samkv. l., eftir nánari starfsreglum, sem ríkisstj. setji.

Með frv. þessu er á engan hátt hreyft við tilgangi gildandi l. um þessi efni, heldur eingöngu fjallað um framkvæmdaratriði. Sú skipan þessara mála, að sækja verði öll mál, sem varða innflutningsleyfi, gjaldeyrisleyfi og fjárfestingarleyfi, til yfirvalda í Reykjavík, hefur lengi sætt gagnrýni og kröfur verið settar fram í blöðum og á mannfundum viða um land um breytingar í svipaða átt og frv. þetta gerir ráð fyrir. Sérstaklega hefur eindreginn áhugi skapazt í þessu efni í byggðarlögum, sem eiga stórar og vel settar verzlunar- eða iðnrekstrarmiðstöðvar. Er þar skemmst að minnast þess, að þrír stjórnmálaflokkar á Akureyri, þeir sem nú fara með stjórn kaupstaðarins, birtu í málefnasamningi sínum nú fyrir skömmu viljayfirlýsingu um þessi mál og ákváðu að beita sér fyrir því, að innflutningsskrifstofa verði sett upp á Akureyri fyrir kaupstaðinn og aðrar byggðir norðanlands. Er það von manna norður þar, að slík ráðstöfun mundi hafa verulega hagnýta þýðingu til hagræðis verzlun fyrir fjölmenn byggðarlög og ýmsum framkvæmdum og atvinnurekstri öðrum þar um slóðir.

Ekki mun mörgum betur kunnugt um það óhagræði, sem það er miklum hluta landsmanna að þurfa að sækja afgreiðslu allra þessara mála til Reykjavíkur, en hv. alþingismönnum, svo mjög sem hvers konar fyrirgreiðsla í þeim efnum mæðir á þeim í mörgum tilfellum. Þeim mun því ljósara en svo, að þörf sé að orðlengja um, að þessi skipan bakar einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum mjög veruleg útgjöld og fyrirhöfn og oft og tíðum einnig óþarfar tafir á framkvæmdum, jafnvel þótt viðunandi úrlausnir fáist að lyktum í þeim málum, sem um er að ræða.

Hitt gefur svo líka auga leið, að ýmsar ákvarðanir í þessum málum hljóta, hversu grandvarir embættismenn sem að þeim standa, að verða teknar af takmarkaðri eða lítilli staðarlegri þekkingu á þörfum og aðstæðum, sem máli skipta, og er því jafnan veruleg hætta á, að þær verði tilviljunum háðar eða mótist af þeim aðstæðum, sem málsaðilar hafa til þess að reka erindi sín. Mætti rekja ýmis dæmi um þetta, bæði gömul og ný, þó að ég sleppi því að sinni.

Ég ætla, að því verði ekki andmælt með rökum, að ýmsar atvinnugreinar og þá alveg sérstaklega verzlun og iðnrekstur búi að ýmsu leyti við lakari aðstöðu viðast um land, en hér í höfuðborginni og það í svo ríkum mæli, að það hamli oft og tíðum eðlilegri og æskilegri þróun þeirra. Innflutningsverzlunin er svo til öll rekin hér, og verzlunarfyrirtæki úti um land verða að sækja hingað nálega allar sínar þarfir, sem henni við koma. Vitanlega skapar þetta mikil útgjöld fyrir fyrirtæki úti um land, útgjöld, sem fyrirtæki í höfuðborginni hafa ekki af að segja.

Fullkomlega er eðlilegt af hagkvæmisástæðum, að mikill hluti innflutnings fari fram í gegnum Reykjavík, en það haggar ekki því, að nokkrir aðrir staðir í landinu gætu líka verið hlutgengir í þessu efni, t. d. Akureyri með sína 8 þús. íbúa, miðsvæðis í fjölmennum byggðarlögum, með greiðar samgöngur á alla vegu. Sýnast engar ástæður mæla gegn því, að hið opinbera veiti íbúum slíkra byggða svipaða þjónustu og íbúum höfuðstaðarins hvað þessi mál snertir og stuðli þannig að æskilegu jafnvægi.

Svipað mætti um iðnaðinn segja, einkum þann, sem rekinn er fyrir innlendan markað. Að því leyti sem hann þarfnast erlendra hráefna, þarf hann oftast að sækja þau til innflutningsfyrirtækja í Reykjavík og öll leyfi til þess hið sama. Í höfuðborginni og nærliggjandi byggðum er tíðast allt að helmingur markaðarins fyrir hina unnu vöru. Flutningskostnaður til þessa markaðssvæðis er því jafnan stór liður í rekstrarkostnaði, kostnaðarliður, sem fyrirtæki höfuðborgarinnar hafa miklum mun minna af að segja. Ber hér allt að sama brunni, að í engu er á bætandi þann aðstöðumun til margs konar atvinnurekstrar, sem þegar er fyrir hendi, heldur beri að draga úr honum, ef ekki á að vera vaxandi hætta á, að atvinnuþróunin bíði hnekki og framkvæmdaþrek og framkvæmdavilji lamist víða, þar sem öll skilyrði ættu þó að vera til staðar, ef rétt væri á haldið.

Í seinni tíð hafa ýmsar ráðstafanir verði gerðar af hendi ríkisstj. til þess að efla atvinnulíf í þeim landshlutum, sem harðast hafa orðið úti hvað snertir fólksflutninga til Reykjavíkur, oftast af atvinnuástæðum, og flutninga til nálægari kaupstaða, og vantar þó víða mikið á, að nægilega mikið sé að gert. Þessar aðgerðir flestar horfa til aukinnar framleiðslu og hagsbóta fyrir þjóðarheildina, en sjálfsagðasta ráðstöfun ríkisvaldsins til þess að skapa landsmönnum jafnrétti til atvinnu og afkomu ætti þó að vera í því fólgin að veita þeim sem jafnasta almenna þjónustu í hverri grein. Slíkar ráðstafanir ættu raunar ekki að koma á eftir beinum styrkveitingum af ríkisfé.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að settar verði á stofn allt að þrjár innflutnings- og gjaldeyrisafgreiðslur utan Reykjavíkur. Vel mætti hugsa sér, að þetta yrði framkvæmt á þá lund, að fyrsta skrefið yrði að setja slíka stofnun á fót á Akureyri, en það er án alls vafa kjörnasti staður til þess af augljósum ástæðum. Ef reynslan þar yrði góð, sem réttmætt virðist að vona, mætti halda áfram á sama hátt annars staðar, þar sem aðstæður krefðust helzt.

Því kynni að verða haldið fram, að slík breyting sem hér er til ætlazt að gerð verði, mundi verða kostnaðarsöm og ekki sé á bætandi nýjum skrifstofubáknum hins opinbera. Vafalaust er það rétt, að þetta hefur nokkurn kostnað í för með sér, en fullvíst er líka, að sá kostnaður borgaðist aftur margfaldlega fyrir þjóðina í heild í minni útgjöldum, minni fyrirhöfn og minni töfum mikils fjölda af einstaklingum og fyrirtækjum. Ekki verður heldur gengið fram hjá þeirri staðreynd, að allir þeir, sem leyfi hljóta til innflutnings eða gjaldeyriskaupa, greiða hlutfallslega jafnt kostnað þann, sem af framkvæmd laganna um þessi efni stafar, og er því um engar kröfur um forréttindi að ræða, þótt ætlazt sé til nokkurrar lagfæringar í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir. Og svo rífleg eru þessi gjöld, að þau fara árlega milljónum kr. fram úr kostnaði vegna laganna. Samkv. ríkisreikningnum 1954 varð hagnaður þannig af rekstri innflutningsskrifstofunnar 2.4 millj. rúmar, og mun hann fremur hafa farið vaxandi síðan. Ég hygg, að þessi rekstrarafgangur mundi tæplega skerðast tilfinnanlega, þótt þetta frv. yrði samþ.

Ég vil svo að lokum leggja til, að frv. verði vísað til hv. fjhn.