20.03.1958
Efri deild: 70. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2162)

127. mál, skipun innflutnings og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl.

Frsm. meiri hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og ljóst er af þskj. 322 og 323, hefur fjhn. klofnað um afstöðu til þessa frv., sem hér liggur fyrir, þannig að við 4 nm. mælum með samþykkt þess, en 1 nm., hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ), leggur til, að því verði vísað til ríkisstj. Allir nm., sem standa að áliti meiri hl., hafa þó lýst sig óbundna um afstöðu til brtt., sem fram kynnu að koma, og einnig áskilja þeir sér rétt til að flytja brtt.

Fjhn. hefur rætt þetta frv. á 5 fundum og leitað um það umsagnar nokkurra aðila, sem mikið eru riðnir við innflutnings- og gjaldeyrismál, þ. á m. forstöðumanna innflutningsskrifstofunnar, sem mættu á einum fundi n. og lögðu þar fram álit, sem minni hl. fjhn. birtir sem fskj. með nál. sínu.

Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkra grein fyrir helztu ástæðunum fyrir flutningi þess, en þær eru fyrst og fremst þær, að flutningsmenn telja, að með þessari breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, yrði aðstöðumunur, sem ríkt hefur milli íbúa úti á landi og íbúa höfuðstaðarins annars vegar gagnvart þeim leyfisveitingum, sem frv. fjallar um, allmikið jafnaður. Í öðru lagi, að slík aðstöðujöfnun gæti haft gagnleg áhrif á verzlunar- og atvinnumál ýmissa byggðarlaga og stuðlað að eðlilegri þróun þeirra. Í þriðja lagi, að komið yrði í veg fyrir handahófslega afgreiðslu mála, með því að staðarleg þekking væri fyrir hendi, er ákvarðanir væru teknar. Og í fjórða lagi, að sparaður yrði kostnaður og fyrirhöfn og tafir verzlunar- og atvinnufyrirtækja og einstaklinga við að sækja öll slík mál í hendur embættismanna í höfuðborginni.

Ég tel ekki ástæðu til að endurtaka þau rök, sem ég færði fyrir frv. við 1. umr. málsins, enda hefur ekkert komið fram við athugun þess í fjhn., sem haggi þeim. Það virðist vera viðurkennt af öllum aðilum, að þörf sé á bættri þjónustu innflutningsskrifstofunnar við þá landsmenn, sem fjarri búa höfuðstaðnum. Kemur þessi viðurkenning m. a. fram í því, að forstjórar innflutningsskrifstofunnar segja í áliti sínu, að nauðsynlegt sé, að utanbæjarmenn fái forgang um viðtöl og alla afgreiðslu mála, en telja hins vegar, að ef þeim væri tryggt slíkt og þeir fyndu það greinilega í framkvæmd, mundu þeir ekki telja sér hagstætt, að starfrækt væru útibú frá innflutningsskrifstofunni.

Ég vil á engan hátt gera lítið úr þekkingu forstöðumanna innflutningsskrifstofunnar, en kemst þó ekki hjá að benda á, að í þessu gætir nokkurs misskilnings. Ég er viss um, að enginn ætlast til þess, að utanbæjarmenn, sem þeir kalla, hafi forgang um alla afgreiðslu mála, og undrar mig satt að segja, að á slíku skuli tæpt. Það, sem hér er um að ræða, er eingöngu jafnari aðstaða til þess að fá afgreiðslu mála, en ekki nein forréttindi.

Það, sem forstjórar innflutningsskrifstofunnar telja, að það mundi breyta afstöðu manna úti á landi til þessa máls, ef svo væri farið að sem þarna er bent á, held ég, að sé misskilningur. Ég held, að þeir, sem við skipulagið búa eins og það er, séu um það dómbærari, en jafnvel forstjórar skrifstofunnar, og væri að sjálfsögðu hægt að leiða vitni að því, ef þörf gerðist.

Hv. minni hl. fjhn. virðist telja sjálfsagt að leggjast gegn þessu frv. vegna þess, að forstöðumenn innflutningsskrifstofunnar telja, að það þurfi meiri athugunar við, og séu því andvígir í núverandi mynd, en þeir þekki hins vegar bezt til framkvæmdar þessara mála. Ég held, að þessir ágætu embættismenn þekki fyrst og fremst eða a. m. k. bezt aðra hlið á þessu máli, þ. e. a. s. þá, sem snýr að þeim sem embættismönnum. Afstaða þeirra virðist mér mótast af því öðru fremur, hvernig auðveldast sé fyrir þá að framkvæma sín embættisstörf. Hins vegar virðist mér skorta verulega á, að þeim sé nægilega ljós sú hlið málsins, sem snýr að atvinnu- og viðskiptalífinu víðs vegar um land. Kemur þetta raunar glögglega fram í áliti þeirra, þar sem þeir koma aðeins auga á eitt einasta atriði, sem sé hagkvæmt við þá breytingu, sem hér er lögð til, þ. e. a. s. að menn geti sparað sér símtal. Orðið er ekki einu sinni haft í fleirtölu. Og þar með eru allir kostirnir við þessa breytingu upp taldir að þeirra dómi. Hins vegar verður sjón þeirra miklu skarpari, þegar um það er að ræða að leita uppi ókostina við nokkuð breytta skipan þessara mála. En þar sýnist mér þó vera um allmiklar missýningar að ræða í ýmsum atriðum, og tel ég rétt að víkja nánar að því, þar sem hv. minni hl. n. virðist eingöngu byggja sína skoðun á þessu áliti frá forstjórum innflutningsskrifstofunnar.

Fyrsta og þá sennilega stærsta mótbára gegn frv. er færð sú, að samræmi í leyfisveitingum verði minna, ef ekki lítið, ef frv. komi til framkvæmda. Í sambandi við þetta hlýtur að vakna spurning á þessa leið: Ef fullt samræmi er í leyfisveitingum nú, hlýtur það samræmi að byggjast á nokkuð föstum reglum, sem forstöðumönnum innflutningsskrifstofunnar eru settar eða þeir sjálfir setja sér, og ef slíkar reglur eru til staðar, hvaða örðugleikar geta þá verið á því, að aðrir embættismenn geti eins farið eftir þessum reglum?

Auðvitað er sjálfsagt að viðurkenna það, að menn geta verið misjafnlega hæfir til starfa, en erfitt hygg ég að muni reynast að sanna það fyrir fram, að þeir embættismenn, sem þessum málum kynnu að stýra úti á landi, gætu ekki alveg eins farið að settum reglum og þeir, sem hér eru búsettir. Ég held, að þessi röksemd fái því ekki staðizt. Þvert á móti held ég, að samræmi í leyfisveitingum stæði mjög til bóta, ef staðarleg þekking, sem ekki getur ávallt verið fyrir hendi nú, gæti komið til skjalanna í ríkara mæli.

Þá er sagt, að heildaryfirlit, sem þurfi að vera daglegt, verði erfitt, ef innflutningsskrifstofurnar verði fleiri, í því formi sem það er nú, svo og skýrslugerðir. Auðvitað er það hverju orði sannara, að heildaryfirsýn þarf ávallt að vera til staðar í þessum efnum, en ekki verður séð, að á því þurfi að verða nein breyting til hins verra frá því, sem nú er. Að svo miklu leyti sem innflutnings- og gjaldeyrisgreiðslur þær, sem frv. gerir ráð fyrir, hefðu algerlega sjálfstætt ákvörðunarvald, yrði það að sjálfsögðu byggt á því, að aðalskrifstofan úthlutaði til þeirra ákveðnum hluta gjaldeyris, sem fyrir hendi væri til ákveðinna nota í tilteknum viðskiptalöndum. Yfirsýn yrði því nákvæmlega jafnmikil eða lítil eftir atvikum og áður hefur verið.

Þá er því haldið fram, að dreifing ákvörðunarvaldsins mundi þýða lausari tök á þeim vanda, sem ávallt þarf við að fást. Hver er þessi vandi? Mér virðist hann vera sá að takmarka gjaldeyriseyðsluna við getu þjóðarinnar og ráðstafa þeim gjaldeyri, sem takmarka þarf, í samræmi við hagsmuni hennar og þarfir eftir heildarákvörðunum ríkisstj. og eftir viðskiptasamningum við aðrar þjóðir og loks að dreifa þessum gjaldeyri meðal landsmanna.

Þetta frv. tekur eingöngu til hins síðast talda þáttar þess vanda, sem við er að fást, og miðar einmitt að því, að sá mikilsverði þáttur sé tekinn fastari tökum en áður, en ekki öfugt, eins og látið er liggja að.

Í e-lið fylgiskjals hv. minni hl. og einnig í f-til h-lið skýtur aftur upp þeirri grýlu, að væntanlegir forstöðumenn útibúa innflutningsskrifstofunnar yrðu tæplega vaxnir störfum sínum. Slíkt eru svo bersýnilegar getsakir, en ekki rök, að naumast þarf orðum að því að eyða.

Sjálfsagt er að fallast á það, sem rétt er í þessu áliti, og það er þá fyrst og fremst það, að nokkur kostnaðarauki yrði af framkvæmd þessa frv. Gerði ég það atriði að umtalsefni við 1. umr. málsins og taldi þá og tel enn, að 2–4 millj. kr. gróði af rekstri stofnunarinnar réttlæti fyllilega aukna þjónustu og nokkuð aukinn kostnað, sem aldrei gæti þó numið nema litlu af þeim gróða, sem þarna er um að ræða.

Að samanlögðu tel ég, að mótbárur hv. minni hl. séu síður en svo það veigamiklar, að þær réttlæti andstöðu við þetta frv. Hinu vil ég svo á engan hátt neita, að nokkur vandi mun að sjálfsögðu verða á höndum um framkvæmdir, en þó áreiðanlega ekki óyfirstíganlegur, ef góður vilji er fyrir hendi.