20.03.1958
Efri deild: 70. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2166)

127. mál, skipun innflutnings og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl.

Frsm. minni hl. (Eggert Þorsteinsson) :

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. (BjörnJ) telur það nú vera góða framför af minni hálfu að viðurkenna þær röksemdir, sem til flutnings þessa frv. liggja. Ég vænti þess nú, þó að hann hafi dregið í efa minn vilja til þessa máls áður, að þá mætti honum vera ljóst eftir bæði viðræðurnar í n. og utan nefndarfunda um þetta mál, að ég hef frá upphafi verið hugmyndinni, sem til frv. liggur, samþykkur. En það er einmitt vegna þess, að ég vil, að það sé á raunhæfan hátt bætt úr þeim erfiðleikum, sem fólkið í dreifbýlinu á við að etja, að ég legg til, að málinu sé á þessu stigi vísað til ríkisstj. til nánari athugunar, þannig að það mætti vera fullkomlega ljóst öllum þeim, sem hér eiga hlut að máli, hver not þessu fólki yrðu að slíku frv.

Ástæða nr. 2 til þessarar afstöðu minnar er sú, að ég vil ekki, að það sé á neinn hátt verið að gefa fólki undir fótinn um það úti á landsbyggðinni, að stórlega sé úr þessum vandkvæðum bætt með flutningi þessa frv., því að það dreg ég enn þá í efa vegna ónákvæmni frv. um staðsetningar hinna nýju afgreiðslna og um önnur framkvæmdaratriði. Með samþykkt frv. er um það eitt að ræða, að ríkisstj. er fengin heimild til að gera hluti, sem enginn veit nákvæmlega í dag um, hvernig á að framkvæma. Það kom glögglega í ljós í ræðu hv. 6. þm. Reykv., hverjir annmarkar eru á framkvæmd þessa máls. Og meðan ekki er upplýst um, hvernig einstök framkvæmdaratriði málsins eiga í raun og veru að vera, tel ég, að málið geti nálgazt það að vera eingöngu blekking fyrir þetta fólk, sem væntir þess að fá aukna fyrirgreiðslu með samþykkt málsins. Til viðbótar þeim annmörkum, sem hv. 6. þm. Reykv. benti á áðan, vil ég aðeins ítreka það, sem ég vék lítillega að í minni framsöguræðu, að það eru fjórir stjórnarmenn í stjórn núverandi innflutningsskrifstofu hér í Reykjavík, og mér skilst, að þeir séu tilnefndir af þeim fjórum stjórnmálaflokkum, sem fulltrúa eiga á hv. Alþingi. Er möguleiki til þess, að við þessar afgreiðslur úti á landi væri hægt að sameinast um einn mann, þegar jafnhart er sótt eftir því af stjórnmálaflokkunum og nú er að eiga fulltrúa á núverandi innflutningsskrifstofu? Yrði ekki útkoman sú, að þarna bættust einungis við 12 nýir menn með takmarkaða getu og möguleika til þess að bæta úr þeim annmörkum, sem eru á núverandi fyrirgreiðslu fyrir þetta fólk? Mér hefur heyrzt það á blöðum reyndar allra stjórnmálaflokkanna í landinu, að það væri komið nóg af slíkum nefndum, sem gerðu misjafnlega lítið gagn, að því er sumir segja. Ef það yrði nú niðurstaða af framkvæmd þessa máls, að þarna yrðu að koma þrisvar sinnum fjórir til viðbótar við þá fjóra, sem nú eru starfandi, og með þá takmörkuðu aðstöðu til þess að auka þá fyrirgreiðslu, sem ætlazt er til, þá sé ég ekki tilganginn.

Á þetta vil ég aðeins benda. Ég vil svo ítreka það að lokum, sem hv. frsm. furðaði sig á áðan, að ég er röksemdum flutningsmanna frv. samþykkur, en efast hins vegar um, að frv. fullnægi því að gegna því hlutverki, sem ég efast þó ekki um að flm. ætlast til. Þess vegna vil ég láta frekari rannsókn fara fram á málinu, áður en það er endanlega afgreitt og samþykkt héðan frá Alþ., til þess að það blekki engan og villi ekki á sér heimildir.