25.03.1958
Efri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2172)

127. mál, skipun innflutnings og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl.

Frsm. meiri hl. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Frá mínu sjónarmiði er það að segja um þessar brtt., sem hv. 6. þm. Reykv. flytur, að þær mundu í framkvæmdinni breyta ákaflega litlu, en ég tel þær skemma frv. og get vel fallizt á það, að þær verði samþ. Þar sem hér er eingöngu um heimildarlög að ræða, tel ég það ekki geta sakað neitt, þó að svo sé um hnútana búið, að fleiri en ein afgreiðsla geti verið í sama landsfjórðungi, ef það þykir tiltækilegt og heppilegt, þó að ég hins vegar geri tæplega ráð fyrir því, að svo yrði í reyndinni.

Í frv., eins og það nú er, segir að forstöðumenn hinna væntanlegu innflutningsskrifstofa taki ákvarðanir samkvæmt lögunum, eftir nánari starfsreglum, sem ríkisstj. setur, en aftur á móti er svo ákveðið í till. hv. 6. þm. Reykv., að þær hafi sjálfstætt ákvörðunarvald, eftir því sem nánar er tilgreint í reglugerð. Raunverulega er þarna verið að segja hið sama, en þó e. t. v. skýrar með því orðalagi, sem er gert ráð fyrir í brtt. hv. þm., að það sé í öllum tilfellum svo um búið, að innflutningsskrifstofurnar hafi eitthvert sjálfstætt ákvörðunarvald. Að sjálfsögðu hefur það alltaf verið ætlun okkar flm., að svo yrði, og tel ég þess vegna, að þessi breyt. sé ekki á nokkurn hátt til skaða, en frekar til bóta.