21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (2186)

174. mál, fræðslustofnun launþega

Flm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég var nú að leitast við að finna það í ræðu hæstv. félmrh., sem hann raunverulega hefði að þessu frv. að finna, og fræddist nú ekki um þá hluti umfram það, sem augljóst var af þeim tveim frv., sem hér um ræðir, og því, sem á milli þeirra ber. Og ég vil þá sérstaklega mótmæla því, sem var niðurstaðan í hans ræðu, að verið væri að slaka að einhverju leyti á kröfu verkalýðssamtakanna um það, að til yrði ákveðinn verkalýðsmálaskóli, sem sinnti þessum verkefnum, sem við erum nú sammála um að nauðsyn sé að rækja. Ég hef ekki komið auga á eitt einasta orð í þeirri skrifuðu ræðu, sem ég flutti hér áðan, í þá átt og sé ekki, að frv. það, sem ég ásamt þm. Ak. hef lagt hér fram, beri þess á nokkurn hátt vott, að verið sé að slaka í einu eða neinu á kröfu verkalýðssamtakanna um þetta mál, og mótmæli því alveg eindregið.

Það er augljóst af ræðu hæstv. ráðh. eins og frv., sem fram hafa verið lögð, að það, sem á milli ber, er það, hvort þegar við gildistöku laganna eigi að setja á stofn ákveðinn skóla, sem starfi á einum stað í landinu. Ég mótmæli því í leiðinni, að ég hafi á nokkurn hátt látið að því liggja, að það væri nauðsynlegt, að þessi skóli starfaði hér í Reykjavík, og veit ekki til, að það standi nokkurs staðar í okkar grg. (Gripið fram í.) Það er rétt, að það stendur þar. Hins vegar er staðurinn út af fyrir sig ekki atriði okkar flm. Það getur verið til umr. hvaða staður sem er. Hitt er aðalatriðið að mínu viti, eins og ég hef reynt að leggja megináherzlu á í minni ræðu áðan, að námið yrði fært til fólksins sjálfs. Það yrði reynt að hafa þennan skóla, sem við erum sammála um að verði að myndast, sem afleiðing þeirrar starfsemi, sem áður hefur farið fram um þessa fræðslu, það sé ekki byrjað á því að stofna skólann, heldur verði hann afleiðing starfseminnar. Og ég skal taka undir það með ráðh., að ég efast ekkert um, að þessi skóli kemur til með í framtíðinni að verða stofnaður og hafa nægjanlegt verkefni. Það er ég honum fyllilega sammála um. En hitt hefði ég talið eðlilegra, að byrjað yrði á þeirri fræðslu, sem hann virtist nú vera okkur sammála um, flm., að nauðsynlegt væri að rækja, að hún yrði undanfari þess skóla, sem síðar yrði stofnaður á þann hátt, sem í frv. greinir og ég greindi frá áðan í minni framsöguræðu.

Ég vil svo undirstrika það, að mér fannst nú, að meginhlutinn í ræðu hæstv. ráðh. félli um sjálfan sig, þar sem hann talaði um, að við hefðum á einhvern hátt slakað á kröfum verkalýðssamtakanna, þegar við gerum það beinlínis að till. okkar, að meiri hlutinn sé skipaður af miðstjórn Alþýðusambands Íslands, þ. e. meiri hlutinn í stjórn stofnunarinnar, þannig að þá ætti nú að vera tryggt, að honum sé stjórnað eingöngu eftir vilja og kröfum verkalýðssamtakanna á hverjum tíma. Og það er heldur ekki, eins og ég áðan sagði, fyrir það girt, að þessi félagsmálaskóli verði stofnaður, heldur að ákveðinn og nauðsynlegur undanfari eigi sér stað, áður en sjálfur skólinn tekur til starfa.

Ég er enn þá þess vegna með sömu efasemdirnar eins og ég var áðan, þegar ég flutti mína framsöguræðu, um það, að hægt verði að koma fræðslunni í jafnalmenn not með stofnun eins skóla, hvar á landinu sem er, hvort sem það er í Reykjavík eða annars staðar, að það megi á þann hátt ná svo fullkomnu starfi sem nauðsynlegt er að hér verði gert, og tel, að þessi undanfari sé nauðsynlegur. Og ég álít, að það ætti að vera óhætt að treysta þeirri stjórn, sem þarna yrði yfir stofnunina sett. Hún yrði í nánum tengslum við verkalýðssamtökin, og á hverjum tíma gæti hún í framkvæmdinni breytt því, sem nauðsynlegt kynni að vera á hverjum tíma, þar sem Alþýðusambandinu yrði tryggður meiri hluti í báðum tilfellum, að mér skilst.

Ráðh. lagði mikla áherzlu á það, að ekkert hefði heyrzt um það frá opinberum starfsmönnum, að neinn vilji væri frá þeim um þessi mál eða neinar viljayfirlýsingar frá þeim sézt um þessa hluti. Ég kann nú ekki beinlínis að benda á neinar sérstakar till., sem fram hafa komið um þessi mál frá þeirra hendi, en hitt er mér jafnljóst, að þeir eiga ekki við minni erfiðleika að etja meðal sinna trúnaðarmanna, en verkalýðsfélögin hafa átt á undanförnum árum, og ég tel, að það sé ekkert minna þar í húfi, að reynt verði að koma upp þeirri fræðslu til að fyrirbyggja sem mest erfiðleika þar, eins og í alþýðusamtökunum sjálfum, og hvort það er nauðsyn á því að hafa þetta tvær aðskildar stofnanir út af fyrir sig, það sé ég a. m. k. ekki fyrr, en verkefnin sýna það, að þau séu ofviða þessari stofnun.

Ég sem sagt mótmæli því, að rök okkar með þessu frv., bæði frv. sjálfu og í þeirri framsögu, sem ég áðan hélt, séu á nokkurn hátt tilslökun af okkar hálfu við kröfur verkalýðssamtakanna, heldur langtum fremur til þess að koma til móts við þær óskir, sem verkalýðssamtökin hafa fram lagt, á sem raunhæfastan hátt, að eðlileg þróun eigi sér stað um framgang þessara mála, og áður en eitt ákveðið skólabákn er stofnað, hvar á landi sem það er, þá verði verkefni þess skóla sannað með þeim störfum, sem frv. okkar gerir ráð fyrir.

Ég skal taka undir það, að það væri vissulega æskilegt, að hægt væri að ná samkomulagi um þessi tvö mál. En víð framsögu og 1. umr. fyrra málsins, um félagsmálaskóla alþýðusamtakanna, þá lýsti ég því hér yfir, að ég teldi það kannske eðlilegast, að annað frv. yrði um þetta flutt, ef það mætti verða til þess að ná samkomulagi um málið, og þrátt fyrir ýmis svigurmæli í garð okkar flm. af hálfu ráðh. um þetta mál, tel ég nú, að ekki sé útilokað, að í a. m. k. meginatriðum megi fá samkomulag um málin, eftir að það liggur ljóst fyrir þingheimi, hvað á milli ber.