21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (2187)

174. mál, fræðslustofnun launþega

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er augljóst öllum, að þau tvö frv., sem hér liggja fyrir þessari hv. deild, fara ekki sitt í hvora áttina. Ég tók það fram, að þetta frv. gerði ráð fyrir, að sú fræðslustarfsemi, sem í því er gert ráð fyrir, væri víðtækari, ætti að ná til fleiri. Og þar með er þeirri stofnun, sem hér um ræðir, ekki ætlandi fyrir sig að sinna fræðsluþörfum verkalýðshreyfingarinnar, heldur einnig annarrar fjölmennrar hreyfingar. Þetta segi ég að sé tilslökun, því að ég veit það, að þegar búið er að dreifa kröftum þessarar stofnunar til þess að eiga að sinna fræðslukröfum tveggja þessara félagasamtaka, verður hún ekki eins afgerð fyrir verkalýðshreyfinguna eins og skóli, sem hefði það sem sitt eina hlutverk.

Hugsum okkur t. d., að það hafi allt í einu verið smeygt inn í lög, að bændaskólarnir skuli ekki lengur vera alveg sérskólar fyrir bændur, heldur skuli þeir einnig annast iðnfræðslu fyrir iðnaðarmenn. Ég er alveg viss um það, að bændurnir teldu gengið á hlut sinn með því, þeir teldu verið að drepa því máli á dreif og slaka til, eins og ég orðaði það áðan. Það er ég sannfærður um, að verkalýðshreyfingin hefði ekki sömu not þessarar almennu fræðslustofnunar, sem ætti að gegna miklu víðtækara hlutverki og sinna eins allt öðrum fræðslukröfum heldur en verkalýðshreyfingin legði áherzlu á vegna annarra manna og annarra hagsmuna, og þar með yrði skólinn ekki sá sami fyrir verkalýðshreyfinguna.

Hv. flm. vék að því, að það væri alveg jafnmikil þörf Bandalags starfsmanna ríkis og bæja fyrir slíka fræðslustarfsemi eins og fyrir verkalýðshreyfinguna. Ég dreg það í efa. Mér finnst aðstaðan vera að mörgu leyti mjög ólík.

Við skulum segja, að verkalýðshreyfingin þurfi á þessu fyrst og fremst að halda fyrir sína mörgu starfsmenn, stjórnendur 160 verkalýðsfélaga, trúnaðarmenn, sem skipta mörgum tugum í sumum félögunum, því að það má vera einn trúnaðarmaður skv. íslenzkri löggjöf á hverjum þeim vinnustað, þar sem eru fimm menn vinnandi, og svo alla þá mörgu, sem eru kosnir til trúnaðarstarfa í þessum 160–170 verkalýðsfélögum. Er þessi sama þörf ríkjandi hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja? Hvað eru mörg hundruð trúnaðarmenn starfandi hjá þeim, sem vinna dag hvern að félagslegum málum? Mér er ekki kunnugt um það. Ég held það sé ein stjórn, hvort sem hún er nú fimm eða sjö manna, hér í Reykjavík fyrir öll samtökin, og það er held ég þeirra trúnaðarmannaskari. Það er allt annað, svo að það er á misskilningi byggt, ef menn halda það, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sé í sömu brennandi brýnu þörfinni fyrir að fá komið á fót fræðslustofnun fyrir sig og sína starfandi trúnaðarmenn eins og verkalýðshreyfingin er það. Og það eru hreint ekkert einföld mál, sem trúnaðarmenn verkalýðsfélaganna þurfa við að glíma, þó að ég víki nú hvorki að stjórnendunum né trúnaðarmönnunum á vinnustöðunum. Hvert einasta verkalýðsfélag verður að hafa sína samninganefnd, og hún verður sannarlega að vera vel að sér í öllum félagslegum málum, ef hún á að geta innt sitt hlutverk af hendi. Hún þarf að hafa þekkingu, sem að haldi kemur, þegar hún situr að störfum og á í samningaviðureign við slynga og vel menntaða atvinnurekendur, eins og í mörgum tilfellum er um að ræða. Og allt þetta lið okkar þurfum við að þjálfa, við þurfum að fræða það, brynja það þekkingu og þjálfa það í þessum málum, til þess að þeir geti staðið sig á borð við þá, sem þeir eiga í viðskiptum og stundum í glímu við.

Hv. frsm. gat þess, að þetta frv. væri flutt, ef það mætti verða til þess, að það næðist samkomulag. Það bezta var, ef það hefði verið eitt frv. um málið, og eftir því var leitað. Það var beðið um það í umsögninni um þáltill., að hún yrði tekin aftur og menn sameinuðust heldur um að semja frv. um félagsmálaskólann og leggja það sameiginlega fram, því að þá var ekki búið að gera það núna á þessu þingi. Það fékkst ekki. Það var leitað til hv. 4. þm. Reykv. um það, þegar frv. hafði verið samið, hvort hann vildi vera meðflm. að því. Hann tók sér umhugsunarfrest um það, en taldi það svo ekki geta orðið, og þá fyrst var hitt frv. flutt, eftir að hafði verið leitað samkomulags og samráðs. Svo þegar kemur annað frv., þá er það eftir mínum skilningi ekki til þess að greiða fyrir framgangi máls, heldur hreint og beint hlýt ég að líta svo á, að þegar frv. eru orðin tvö um sama mál,þá sé lítil von um framgang þess á því þingi. Ég vil því segja, að það var til tafar framgangi á því loforði stjórnarsáttmálans, að stofnaður skyldi verkalýðsskóli, þegar í fyrra kom fram þáltill. um að hverfa af þeim grundvelli og athuga heldur möguleika á því að koma upp almennri fræðslustofnun launþega, sem átti að ná út fyrir verkalýðshreyfinguna. Og þegar svo í framhaldi af þeirri þál. er komið fram frv. til laga um aðra tilhögun málsins, en við höfum beðið um í verkalýðshreyfingunni fram að þessu, stofnun, sem eigi líka að sinna þörfum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, auk þarfa verkalýðshreyfingarinnar, þá tel ég, að málinu hafi líka verið drepið á dreif og að þetta hljóti að verða því til tafar. Og ég harma það.

Við áttum þess fullan kost að hafa samráð um samningu eins frv. um þetta, og nú, eftir að svona er komið, er aðeins um það að ræða, að menn fáist til þess að þrautreyna það að semja sig saman um eitt mál og að þessi frv. yrðu þá bæði tekin til baka. Ég sé ekki neina aðra leið til þess, ef þetta, sem nú hefur gerzt í málinu, á ekki að verða til þess að koma í veg fyrir framgang þess á þessu þingi. En sennilegast þykir mér það, úr því sem komið er, að það, að frv. eru orðin tvö um málið, verði einmitt til þess, að hvorugt þeirra verði samþykkt á þessu þingi, og ættum við þá að hugleiða það að fara öðruvísi af stað með það mál á næsta þingi, því að við eigum rétt á því samkvæmt stjórnarsáttmálanum, að málið verði leyst á kjörtímabilinu. Hins vegar var ekkert samið um neina fræðslustofnun launþega almennt, aðeins um verkalýðsskóla, og það eitt er því í samræmi við stjórnarsáttmálann.

Ég gef þó ekki upp alla von um það, þrátt fyrir það, þó að nú séu tvö frv. hér í gangi um svipað mál, að málíð farist við það. En ég er sannfærður um, að þetta er til tafar, og það harma ég.