22.05.1958
Neðri deild: 102. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (2219)

176. mál, matreiðslumenn á farskipum

Frsm. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þetta mál er komið hingað frá hv. Ed., sem hefur afgreitt það óbreytt eins og það var lagt fyrir þá hv. d. Efni málsins er, að það verði gert að skyldu, að matreiðslumenn eða brytar — eða matreiðslumenn og brytar — skuli vera á öllum vélknúnum skipum, sem eru 800 smál. og stærri og hafa minnst 20 manna áhöfn fyrir utan eldhús- og þjónustufólk. Á fiskiskipum og flutningaskipum, sem eru 25 smál. brúttó eða stærri, og á farþegaskipum, sem eru 25–800 smál. brúttó, er skylt að hafa matsveina.

Í 2. gr. er síðan skýrt frá, hvernig þessir menn skuli afla sér réttinda til þess að sinna störfunum, og er þar gert ráð fyrir, að menn geti aflað sér þessara réttinda með ýmsu móti. Þetta er talið vera svipað fyrirkomulag og tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar erlendis, og hér er enda um stéttir að ræða, sem hafa fengið iðnréttindi sín viðurkennd fyrir alllöngu, svo að það er ekki óeðlilegt, að þessi ákvæði verði lögtekin.

Iðnn. hefur haft málið til meðferðar og sent það til umsagnar matsveina- og veitingaþjónaskólanum, Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Fiskifélagi Íslands. Umsagnir hafa ekki borizt frá öðrum en matsveina- og veitingaþjónaskólanum, sem hefur lagt til, að breyting verði gerð á 4. gr. frv., sem iðnn. hefur tekið upp í sínum brtt, á þskj. 543, Breytingin er í því fólgin, að til þess að öðlast brytaréttindi skuli vera jöfn aðstaða bæði veitingaþjóna eða framreiðslumanna annars vegar og matreiðslumanna hins vegar, að þeirra skólavist eða undirbúningur skuli vera hliðstæður, en það var það ekki fyllilega eins og var gert ráð fyrir að haga þessu skv. 4. gr. frv.

Iðnn. hefur sem sagt á þessa brtt. fallizt og gert hana að sinni á þskj. 543. Enn fremur hefur iðnn. gert það að till. sinni, að 2. mgr. 1. gr. verði umorðuð og henni breytt nokkuð verulega, vegna þess að við töldum, að smærri fiskiskip þyrftu ekki í öllum tilfellum á matsveini að halda. Þess vegna er því ákvæði frv. breytt, að skyldan til þess að hafa matsvein verði bundin við 25 smál. stærð á skipi, og verði hún í staðinn bundin við það, að þau skip, sem ekki koma til heimahafnar daglega, skuli hafa þessa menn á skipunum. Breytingin verður þess vegna, eins og hún er orðuð á þskj. 543, 1. brtt., að á fiskiskipum, flutningaskipum og farþegaskipum, sem ekki koma til heimahafnar daglega, er skylt að hafa matsveina, í staðinn fyrir að þetta var í frv. bundið við 25 smálestir brúttó.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta litla frv. fleiri orð. Allir nm. í iðnn. voru sammála um að mæla með því með þessum tveim breytingum.