29.04.1958
Efri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (2233)

182. mál, listamannalaun

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Mér var kunnugt um þá nefndarskipun, sem hæstv. menntmrh. gat um, frá í okt. 1956, enda gat ég þess í framsöguræðu minni. Eins og hann tók fram, bar svo við, að áður en þessi nefnd hafði setið fjóra mánuði á rökstólum, hafði hún náð samkomulagi um frv. En m. a. vegna þess, að nú er komið á annað ár síðan þessi nefnd lauk störfum og skilaði sínum till. og engar till. frá hæstv. ráðh. hafa litið dagsins ljós eða verið sýndar Alþingi, þótti mér ekki rétt að bíða lengur með endurflutning þessa frv. um listamannalaun.

Ég vænti þess, að sú nefnd, sem fær þetta frv. til meðferðar, fái að sjá frv. hæstv. ráðh., til þess að hún geti rætt það og borið það saman bæði við frv. n. og það frv., sem hér liggur fyrir. En vitanlega er æskilegast, að sem víðtækast samstarf og samvinna geti orðið um skipan þessara mála, og um leið hitt, að vonin um samstarf og allsherjarsamkomulag verði ekki til þess, að ekkert verði gert í þessum málum, því að það hefur verið einn aðalannmarkinn á meðferð þessara mála, að vegna þess að ekki hafa allir orðið sammála, hefur allt verið látið reka á reiðanum og engin löggjöf um þessi efni sett. Málin geta legið þannig fyrir, að ekki sé hægt að bíða von úr viti eftir, að allir verði sammála. Og ég verð að segja það, að þó að ég sé bjartsýnismaður í eðli mínu, þá hef ég engar vonir um það, að allir íslenzkir listamenn verði sammála um þá skipan, sem að lokum verður ofan á. En það er tvennt, sem ég vil sérstaklega láta í ljós sem mína ósk. Það er annars vegar, að það verði þó sem víðtækast samkomulag, og hins vegar, að málinu verði hraðað, þannig að sem fyrst verði sett löggjöf um þetta þýðingar mikla mál til að tryggja festu og öryggi.