23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2253)

12. mál, brunavarnir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er af því, að ég er málinu ekki nógu kunnugur, sem ég kveð mér hljóðs, og til þess að reyna að beina því til n., hvort hún geti ekki útvegað upplýsingar, sem ég tel mig vanta og ég býst við fleiri þingmenn til þess í raun og veru að geta dæmt almennilega um þetta mál.

Það eru nokkur ár síðan ég fékk bréf, þá búnaðarmálastjóri, frá vegamálastjóra, sem var undirskrifað af honum sem formanni brunavarnarnefndar fyrir allt landið. Hann var að biðja mig um upplýsingar um það, hvernig stæði á því, að það hitnaði í heyi, og hvað hægt væri að gera til þess að verjast því o.s.frv., og tjáði mér í bréfinu, að hann ætlaði eða einhver n., sem hann var formaður fyrir, ég held formaður brunavarnarnefndar landsins, að gera einhverjar ráðstafanir eða áminningar til manna viðvíkjandi því.

Í fyrra var ég í úthlutunarnefnd jeppabifreiða. Þá var aftur fyrir þessa nefnd sótt um jeppa, því að hún þurfti að fara víðs vegar um landið til að athuga, hvernig menn snerust við, þegar brunar kæmu upp, og hvernig helzt væri hægt að fyrirbyggja það á hinum ýmsu stöðum. Ég þekki ekki annað til þessarar nefndar, en þetta. Ég veit ekkert, hver kostar hana. Ég veit ekkert, hverjir standa að henni, nema ég veit, að það var Geir Zoëga á sínum tíma, í bæði skiptin þegar hann hefur undirskrifað bréf til mín í þessu sambandi. En hvað hefur hún gert, þessi nefnd? Hver kostar hana? Hvað hefur hún gert? Og er hún ekki einmitt að vinna þetta starf, sem þessi þáltill. ræðir um? Eða hefur hún kannske ekkert gert, svo að það þurfi að setja aðra menn í það til að gera eitthvað eða reka hina áfram? Það var þetta, sem mig langaði til að biðja n. að athuga og lofa mér að vita á sínum tíma og þá kannske fleiri þingmenn, sem ekki hefur verið ljóst um starf þessarar n. áður. Mér hefur ekki verið það ljóst, að öðru leyti en því, sem hún hefur þurft að skrifa mér tvívegis vegna minna starfa.