23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2254)

12. mál, brunavarnir

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég kynnti mér nokkuð það mál, sem hv. þm. nefndi. Eftir þeim upplýsingum, sem mér voru gefnar, er til sú stofnun, sem ég hygg að heiti eldvarnaeftirlit — (Gripið fram í: Brunavarnaeftirlit.) brunavarnaeftirlit, og hefur aðsetur í Hafnarfirði. Eftirlitið er kostað af Brunabótafélagi Íslands. Kunnugir menn, sem starfa við þessa hluti hjá tryggingarfélögum, hafa sagt mér, að starf þessarar stofnunar hafi nálega eingöngu verið við slökkvitæki og þá hliðina, enda kom það fram í framsöguræðu minni, að við hefðum hér á landi gert allmikið í þeim efnum. Er Brunabótafélagið þannig upp byggt, að það beinir nokkru fé til þess að auka þær varnir. Hins vegar er mér tjáð af mönnum, sem við þessa hluti starfa, að mjög skorti á hina hliðina, að gera ráðstafanir og kröfur til þess að fyrirbyggja, að eldur brjótist út. Það er nánast tilefni tillögunnar að vekja athygli á því, og ef hún nær fram að ganga, þá verður væntanlega athugað, hvort þessi stofnun, sem fyrir er, getur annazt þetta verk. Það er alls ekki hugmyndin að hrófla upp nýjum nefndum eða stofnunum, ef hægt er að komast hjá því. Hitt er aðalatriðið, að brunarnir verða ár eftir ár, valda tugmilljóna tjóni, og kunnugir menn telja, að ráðstafanir til þess að fyrirbyggja, að eldur brjótist út, séu allt of litlar. Ég skal svo, ef ég get haft áhrif á það, beita mér fyrir því, að aflað verði nánari upplýsinga um það starf, sem þegar er unnið á þessu sviði, þannig að hv. þm. fái ýtarlegri og betri upplýsingar, en ég get hér gefið.