11.12.1957
Efri deild: 36. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

73. mál, kosningar til Alþingis

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það má að sjálfsögðu lengi deila um það, hvaða tímatakmörk skuli setja um lok kjörfundar. Það mál er þess eðlis, að ekki er óeðlilegt, að sitt sýnist hverjum. En hitt held ég að flestir séu sammála um, að óheppilegt sé, að kjörfundur standi fram á næsta dag eftir kjördag, en slíkt hefur, svo sem kunnugt er, átt sér stað, bæði hér í Reykjavík og sjálfsagt í öllum eða flestum stærri kaupstöðum landsins undanfarið.

Með ákvæðum hins nýja frv. er gert ráð fyrir, að þessi háttur falli niður, og tímamarkið er sett kl. 23, þó þannig, að þeir, sem þá hafa gefið sig fram til kosningar, fái að kjósa.

Frá mínu sjónarmiði er þetta eðlilegt og skynsamlegt, þótt öðrum kunni að sýnast á annan veg þar um.

Víða erlendis og það hjá viðurkenndum lýðræðisþjóðum er kosningu lokið miklu fyrr að kvöldi, en hér er gert ráð fyrir. Þannig mun það vera, að því er mér er tjáð, bæði í Bretlandi og Vestur-Þýzkalandi, að þar er kosningu lokið kl. 8 að kvöldi, að vísu hefst kosning þar kl. 8 að morgni, í stað þess að hér hefst hún kl. 10. En þar stendur kosningin tólf klst., en hér er gert ráð fyrir, að hún geti staðið 13 klst.

Bæði Bretar og Vestur-Þjóðverjar eru viðurkenndar lýðræðisþjóðir, og mun engum detta í hug að vilja bera löggjafarþingum þessara þjóða á brýn ofbeldi í þessu sambandi, þótt þar sé við haldið löggjöf á þennan veg.

Ég tel, að öll rök bresti fyrir þeim fullyrðingum, að frv. þetta miði að því að taka upp óhæfilegar takmarkanir á kosningafrelsi. Slíkar staðhæfingar falla um sig sjálfar, enda þótt ekkert sé eðlilegra, en að sitt geti hverjum sýnzt um þessi tímatakmörk. Mig furðar ekki á því, þó að menn séu ekki allir sammála um þau. E.t.v. mundu sumir vilja hafa þarna skemmri tíma og aðrir lengri.

Áróður og smölun á kosningadaginn er í mínum augum til mikilla lýta á yfirbragði kosninganna, og ég tel rétt, að úr þessu verði dregið, eins og frv. miðar að. Það má einnig deila um það, hversu langt skuli ganga í þeim efnum, og hefur að sjálfsögðu hver sín sjónarmið þar um.

En það er skoðun mín, að hver maður eigi að ráða því sjálfur, hvort hann neytir kosningarréttar síns eða ekki, og hann eigi að hafa frið um sínar ákvarðanir um það. Það er að sjálfsögðu einkamál hvers og eins, hvort hann neytir atkvæðisréttar, á sama hátt og það er einkamál hvers og eins, hverjum hann ljær atkvæði sitt.

Frumvarpsákvæðin miða því að þessu leyti í rétta átt, þótt e.t.v. megi, eins og ég sagði áðan, deila um það, hversu langt skuli í þessu ganga. En ég álít, að það sé alrangt hjá hv. þm. V-Sk., að nokkur rök séu fyrir því að halda því fram, að frv. sé sett til þess að torvelda kosninguna af ótta við kjósendur. Slíkar fullyrðingar eru naumast svaraverðar frekar en það, að með þessu frv. sé stefnt í einræðisátt, eins og hann hafði orð um. Mér nægir um þetta að vísa til þess, er ég lét hér getið áðan um þessar tvær þjóðir, sem láta kosningu ljúka kl. 8 að kvöldi, og enginn hefur talað um, svo að ég viti, að þær séu bendlaðar við einræði eða ofbeldi.