26.03.1958
Sameinað þing: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (2275)

51. mál, hafnargerðir og endurskoðun hafnarlaga

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Á þskj. 41 flutti ég till., sem miðaði að því að láta fara fram endurskoðun laganna um hafnarbótasjóð, með það fyrir augum, að á þeim verði gerðar nauðsynlegar breytingar, þannig að sjóðurinn gæti orðið verulega til aðstoðar fátækum byggðarlögum við hafnarframkvæmdir. Þeirri till. var vísað til hv. allshn. Nokkru síðar kom fram önnur till. frá hv, 2. þm, Eyf. og fleirum um framkvæmdaáætlun um hafnargerðir o.fl., sem var vísað til hv, fjvn. Þessar nefndir hafa nú komið sér saman um að steypa þessum tveim till. saman, og finnst mér það eðlilegt, þar sem þær fjalla, eins og hv. frsm. fjvn. tók fram, um sama málið, þ.e.a.s., eins og hann réttilega tók fram, mín till. er þáttur úr þeim athugunum, sem gert er ráð fyrir að gerðar séu.

Ég vildi leyfa mér að þakka báðum þessum nefndum fyrir afgreiðslu málsins að því er varðar mína till.

Það fer ekki á milli mála, að víða eru hafnarframkvæmdirnar einhverjar þær mikilvægustu af öllum óleystum verkefnum viðkomandi byggðarlaga. Það er því brýn nauðsyn á því, að þegar sé hafizt handa á skipulegan hátt um að leysa þessi miklu verkefni og aðstoða þau byggðarlög, þar sem þörfin er mest, eftir ákveðinni áætlun.

Það gefur auga leið, að ekki er hægt að framkvæma þessi miklu verkefni öðruvísi, en eftir ákveðinni áætlun, gerðri af þeim, sem hafa þekkinguna bezta á þessum málum í heild.

Það, hvort hægt er að halda uppi blómlegri útgerð í hinum ýmsu kaupstöðum og kauptúnum í kringum landið, grundvallast að verulegu leyti af því, hvernig hafnir viðkomandi staða eru. Víða er ástandið því miður þannig, að það orkar mjög tvímælis, hvort rétt er að kaupa þangað nýjan bát eða fleiri báta, einungis vegna þess, hve hafnaraðstaðan er slæm. Víða er ágæt aðstaða í landi til að fullnýta aflann, en höfnin svo slæm, að það er aðeins hörku og dugnaði sjómannanna að þakka, að bátarnir eyðileggjast ekki í vondum veðrum.

Það má segja, að það sé hart að verða fyrst að sækja sjóinn og síðan kannske að byrja á aðalerfiðinu, en það er, þegar að landi er komið, að verja bátinn.

Flestar þeirra hafnarframkvæmda, sem liggur fyrir að gera á komandi árum, eru stórar og dýrar, af þeirri einföldu ástæðu, að víða er lokið minni framkvæmdum og viðráðanlegri fyrir viðkomandi byggðarlög. Einhver ráð verður því að finna til að gera hvort tveggja, fá fjármagn til þessara framkvæmda og að nota það fjármagn þannig, að sem mest gagn verði af og fyrir sem flesta.

Það er alkunna, að fiskveiðasjóður hefur aðstoðað marga til að kaupa fiskiskip með góðum lánum. Á líkan hátt þyrfti hafnarbótasjóður að vera þess megnugur að lána ýmsum byggðarlögum fé til hafnarframkvæmda með góðum kjörum.

Það vita allir, hversu mikla erfiðleika það hefur kostað mörg byggðarlög að afla nauðsynlegs lánsfjár til hafnarframkvæmda. Þessir aðilar geta ekki gengið að neinni sérstakri lánastofnun, sem hafi það hlutverk að lána til slíkra framkvæmda, enda engum skylt. Það er því notuð sú aðferð að reyna að slá eina eða aðra lánastofnun um smáupphæðir, oft til bráðabirgða, og síðan hefur það kostað mikla erfiðleika heima fyrir að standa í skilum, ef það hefur þá tekizt.

Ef hafnarbótasjóður væri efldur svo, að hann gæti gegnt svipuðu hlutverki gagnvart þeim byggðarlögum, sem vilja ráðast í hafnarframkvæmdir, eins og fiskveiðasjóður gerir gagnvart þeim, sem ætla að kaupa nýjan bát, væri viðhorfið allt annað. Vitaskuld yrði að sjá hafnarbótasjóði fyrir framlögum frá ríkinu árlega eða öðrum tekjum og síðan væri þetta fé lánað til nokkuð langs tíma, t.d. 20 ára. Fljótlega mundi svo sjóðurinn taka að vaxa, þegar afborganir og vextir færu að koma inn, og yrði þannig hægt að lána meira til þessara framkvæmda frá ári til árs.

Það er vitanlega ekkert áhlaupaverk að framkvæma allar þessar miklu og mörgu hafnarframkvæmdir, sem þarf að gera. Ég er þess vegna samþykkur þeirri hugmynd að láta gera framkvæmdaáætlun um hafnargerðir og að sérstaklega sé við það miðað, að þær stuðli að öruggri og aukinni útflutningsframleiðslu. Í áætluninni ætti einnig að gera ráð fyrir, að reynt væri að ljúka að fullu við þær hafnir, sem teknar væru til uppbyggingar. Með því móti verður framkvæmdin öllu hagkvæmari og ódýrari.

Eins og ég sagði áðan, eru hafnarmálin brennandi vandamál margra staða víðs vegar í kringum landið. Samþykkt þessarar till. ætti að geta orðið til þess, að þessi mál verði nú tekin til nýrrar og gagngerðrar endurskoðunar, og má vera, að síðan komist meiri skriður á þau, og er þá vel farið og tilganginum náð.