26.03.1958
Sameinað þing: 37. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (2281)

154. mál, vegakerfi landsins

Frsm, (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Fyrir stuttu ræddi ég nokkuð almennt um vegamál og þá þýðingu, sem gott vegasamband hefur fyrir landsmenn í heild. Ég lýsti því þá, að almennur áhugi er fyrir bættum vegasamgöngum. Mun ég því ekki að þessu sinni fara að ræða það mál.

Snemma á þessu þingi var flutt till. um framkvæmdaráætlun um vegagerð. Var aðalflm. hv. þm. N-Ísf. (SB) og tveir aðrir hv. þm. meðflm. Þessi tili. gerði ráð fyrir því að gera samræmda framkvæmdaráætlun um vegagerð til þess að koma þeim landshlutum og héruðum sem fyrst í akvegasamband, sem enn þá væru ýmist veglaus eða án þess að hafa samband við meginvegakerfi landsins.

Í sambandi við þá till. kom fram brtt, á þskj. 45 frá hv, 1. þm. N–M. (PZ), og var þessum till. báðum vísað til fjvn. Fjvn. hefur haft þessi mál til meðferðar og leitað umsagnar vegamálastjóra. Hann hefur sent n. mjög ýtarlega grg. í málinu, og er hún birt hér sem fskj, með till. á þskj. 316, sem fjvn. flytur.

Í grg. vegamálastjóra kemur það fram, sem beðið er um að upplýsa í till, á þskj. 27. Þar er gerð grein fyrir því, hvaða héruð það séu, sem ekki eru í sambandi við aðalvegakerfi landsins. Hins vegar er það skoðun vegamálastjóra, að ekkert hérað eða enginn landshluti sé án vega. Vegamálastjóri gerir grein fyrir því, að það eru fimm héruð, sem ekki ná sambandi við aðalvegakerfið, og hann gerir einnig grein fyrir sundurliðuðum kostnaði við að koma þessum héruðum í samband við akvegakerfi landsins. Hér er því um að ræða, að þær upplýsingar, sem beðið er um í till. á þskj. 27, eru veittar frá hendi vegamálastjóra með þessari merkilegu og greinilegu grg. Það, sem næst liggur fyrir, er að útvega það fjármagn, sem þarf til að koma því áfram, sem þarna á að gera, en ekki framkvæmdaráætlun eða áætlun um það, hvað það muni kosta.

Það var því skoðun fjvn., eins og fram kemur í grg. frá n. hálfu, að fullnægt væri till. á þskj. 27. Hins vegar er farið fram á það í brtt. á þskj. 45 að gera athugun á vegaástandinu og framtíðaráætlun út frá þeirri athugun.

Að athuguðu máli og samkvæmt ábendingu vegamálastjóra þótti þó fjvn. rétt að gera nýja till. í þessu máli, þar sem gert er ráð fyrir heildarathugun á ástandi veganna, og á grundvelli þeirrar athugunar væri svo gerð áætlun um nauðsynlegar umbætur á vegakerfinu með hliðsjón af þýðingu þess fyrir byggð landsins í heild.

Þegar þessi athugun, sem fjvn. leggur til að verði gerð, fer fram, ber að hafa það í huga, að meira en helmingur af þjóðvegunum, sem uppbyggðir eru, eru gerðir fyrir stríð. Þeir voru því gerðir áður en þau stórvirku vinnutæki komu til sögunnar, sem nú eru notuð við vegagerð. Þá ber einnig að líta á það, að þegar þessir vegir voru lagðir, þekktust hér ekki bifreiðar nema þær, sem fluttu 3–4 smálestir, og vegagerðin var þess vegna miðuð við það. Margir af þessum vegum eru þó á því svæði, þar sem umferð er einna mest nú og bifreiðar til vöruflutninga þyngstar. Það er því ekki nóg að upplýsa um lagða vegi, heldur ástand þeirra og þörf og jafnframt, hvað gera má ráð fyrir að miklir þungaflutningar fari um þá.

Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að vegakerfið í hinum ýmsu sýslum landsins er mjög misjafnt. Ber þar margt til. En allar sýslur hafa hins vegar þörf fyrir góða vegi. Hinu er ekki að neita, að umferðin er mest á þeim vegum, þar sem mjólkurframleiðslan er mest og daglegir vöruflutningar vegna hennar. Í sambandi við heildarathugun og framtíðaráætlun um vegina þarf þess vegna að taka tillit til þessa svo og snjóalaga og fleira þar að lútandi. Breyttir framleiðsluhættir hafa líka mjög mikil áhrif á nauðsyn þess, að vegirnir séu vel upp byggðir.

Þá hafa og á síðari árum vöruflutningar héraða á milli á bifreiðum færzt mjög í aukana, og ekki er nokkur vafi á því, að mjög verður á það sótt að auka þessa flutninga og þó sérstaklega að mega nota stærri bifreiðar til flutninganna, en áður hefur verið. Ég gat þess hér á hv. Alþingi um daginn, að þegar sementsverksmiðjan tæki til starfa, mundu þessir flutningar aukast mjög og ásóknin um stærri bíla að sama skapi. Þetta þarf mjög að hafa í huga, þegar gerð er athugun á vegunum og framtíðaráætlun lögð.

Þá ber og á það að líta, að á þeim vegum, sem fjölfarnastir eru, er umferðin orðin svo mikil, að nauðsyn ber til að fara að gera þar slitlag úr varanlegu efni, malbiki eða steinsteypu, og öllum má vera ljóst, að ef um framtíðaráætlun á að vera að ræða, verður hún að miðast við það, að stefnt sé nokkuð fram í tímann, en ekki eingöngu við það, sem þekkt er í dag, og gætum við haft þar til samanburðar þá þróun, sem orðið hefur hér á síðustu árum.

Fjvn. leggur því til, að það verði gerð heildarathugun á vegakerfinu, ástandi þess, og á grundvelli þeirrar athugunar verði gerðar till. eða áætlun um úrbætur með þá þýðingu, sem vegakerfið hefur fyrir landið í heild.

Ég hef hér í stuttu máli gert grein fyrir afgreiðslu n. á þeirri tillögu, sem vísað var til hennar á þskj. 27, svo og brtt, á þskj. 45 og grundvelli eða hugsun n. fyrir þeirri till., sem hún flytur hér. Ég vil að lokum segja það, að grg. vegamálastjóra, sem hér fylgir, er merkilegt innlegg í þetta mál, og ég treysti því, að á grundvelli þeirrar till., sem við leggjum til að samþ. verði hér, verði gerðar verulegar úrbætur í þessum málum og stefnt að ákveðnu marki til úrlausnar því.