26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (2298)

77. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég flyt viðbótartill. á þskj. 238 við þá till. til þál. á þskj. 128, sem hér er til umr.

Till. mín er þess efnis, að hraðað verði lagningu rafmagnslínu frá Þverárvirkjun í Steingrímsfirði til Króksfjarðarness og nágrannahreppa, en rafmagnslína þessi er ákveðin í lögum frá 1956.

Hv. þm. Vestm. (JJós) hefur vikið að þessari brtt, og fleirum í ræðu sinni áðan og fór um það þeim orðum, að honum þótti miður, að verið væri að brjála mál annarra héraða. Ég get ómögulega skilið, að ég né aðrir séu neitt að brjála mál annarra héraða, þó að við flytjum óskir úr okkar héruðum, alveg eins og hann flytur úr sínu, — eða mundi það breyta nokkru í þessu máli, þó að við hefðum flutt sjálfstæðar till. og fengið þær samþ. í stað þess að flytja brtt. við þessa till.? Fyrir málið í heild held ég að það skipti engu máli.

Þó er síður en svo, að ég ætli að fara á nokkurn hátt að spilla fyrir till. hans eða þeirra hv. þm. hvað snertir Vestmannaeyjar, það er öðru nær. En hitt get ég ómögulega fallizt á, að mér eða hverjum sem er sé ekki fyllilega heimilt að flytja till., sem snerta hagsmunamál í rafmagnsmálum í mínu héraði, þrátt fyrir það þó að það sé brtt. við þessa.

Till. mín er þess efnis, að hraðað verði þessari línu frá Þverárvirkjun til Króksfjarðarness og nágrannahreppa.

Það þarf ekki að fjölyrða um það, hversu mjög fólk bíður eftir því í sveitum þessa lands að fá rafmagn til heimila sinna. Það er mjög eðlilegt, svo mikil lífsþægindi og svo miklir hagsmunir sem því fylgja að geta haft raforku til afnota, en rafvæðing dreifbýlisins nær harla skammt um sveitir Barðastrandarsýslu samkvæmt þeim ákvörðunum, sem þegar hafa verið teknar í þeim málum. Það er að vísu verið að leggja rafmagnslínu frá Mjólkárvirkjun til Patreksfjarðar, en sú lína er eingöngu fyrir tvö kauptún, Bíldudal og Patreksfjörð, eða svo að segja alveg eingöngu. Hins vegar er línunni frá Þverárvirkjun, sem till. mín fjallar um, ætlað að ná til tveggja sveitahreppa, Geiradalshrepps og Reykhólasveitar. Öll hin sjö hreppsfélögin í sýslunni eiga ekki von á neinu rafmagni á næstu tímum frá þeim virkjunum, sem nú eru í uppbyggingu. Ég verð að segja, að það er ekki til mikils mælzt fyrir þetta hérað, þó að það sé lagt til, að hraðað verði þessari línu, sem aðeins kemur til með að ná til tveggja hreppa af níu hreppsfélögum, sem eru utan kauptúna í sýslunni.

Þessi tvö hreppsfélög, Geiradalshreppur og Reykhólahreppur, eru þéttbyggð og að ýmsu leyti búsældarleg. Þaðan eru litlir eða engir fólksflutningar nú í seinni tíð, og ég veit ekki til þess, að ein einasta jörð hafi farið þarna í eyði um langan tíma. En þrátt fyrir þetta eru lífsþægindi fólksins þarna mjög takmörkuð. Aðalatvinnuvegurinn og svo að segja eini atvinnuvegur þessa fólks er sauðfjárrækt. Markaður er enginn heima fyrir í héraðinu eða í nágrenninu. Skilyrði eru engin til þess að geyma t.d. sauðakjöt, svo að það verður að flytja það beint úr sláturhúsi á haustin til Reykjavíkur. Engin skilyrði eru til þess fyrir þetta fólk að afla sér fisks og geyma hann, vegna þess að ekki er rafmagn, en fiskveiðar eru engar til úr þessu héraði. Auðvitað er ekki um það að ræða, að þarna komi til greina nokkur iðnaður, í smáum eða stórum stíl, meðan rafmagnslaust er. En einna viðsjárverðast af öllu þessu er þó samgönguleysið við þessi héruð. Í fyrstu snjóum að hausti til lokast allt vegasamband þangað, en auk þess lokast allar leiðir á sjó líka tímum saman að vetri til vegna ísalaga, og þegar svo er komið, er fólkið þarna með öllu innilokað. Ofan á þetta bætist, að fólkið er læknislaust oft tímum saman, og þannig er þetta núna. Ég nefni þetta sem dæmi um það, hvernig lífskjörin eru hjá þessu fólki hvað þetta snertir. En þetta fólk kvartar ekki, Það flytur ekki burt, það yfirgefur ekki jarðirnar, og það gerir ekki harðar kröfur til hins opinbera. En það óskar þess, að lagningu þessarar rafmagnslinu til héraðsins, sem ákveðin hefur verið með lögum, verði hraðað. Það er allt og sumt.

Ég vænti þess, að hv. þm. séu mér sammála um það, að öll sanngirni mæli með því, að þessu verki verði hraðað, að rafmagninu verði hraðað til þessa fólks, sem verður að sætta sig við allhörð tök náttúruaflanna í lífsbaráttu sinni, og að það þurfi ekki að spilla fyrir neinu öðru héraði, að það geti notið þeirra gæða, sem rafmagnið flytur jafnan með sér.