16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2303)

77. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Fyrir hönd mína eða okkar hv. 2, landsk. þm. og raunar fyrir hönd bæjarstjórnar Vestmannaeyja og fólksins þar vil ég þakka hv. fjvn. fyrir þá jákvæðu afgreiðslu, sem þáltill. okkar á þskj. 128 hefur hlotið hjá hv. n. Ég hefði að vísu heldur kosið, að ekki hefði verið klippt aftan af till. ártalsorðalagið, sem þar stendur, en á hinn bóginn er svo rík áherzla lögð á málið af hálfu n., að mér þykir það nokkur uppbót fyrir og full uppbót má segja. Ef verulegur vilji er fyrir höndum hjá hæstv. ríkisstj. að koma þessu máli í framkvæmd, er sú áherzla, sem hv. n. vill veita þessu máli, alveg nægileg í mínum augum. Og ég vil vona, að hæstv. ríkisstj. taki þetta til greina og það því fremur, sem nýskeð er það opinbert og kunngert, að hæstv. ríkisstj, hefur fengið útlent lán, sem m.a. á að ganga til raforkuframkvæmda slíkra sem um ræðir í þessari till.

Ég veitti því athygli, að hv. þm. N-Þ. fór fram á að fá frest í þessu máli, til þess að hann gæti betur hagrætt sínum brtt. Ég verð nú að segja það um hv. þm., að þetta þing hefur staðið það lengi, að þó að ég hafi fulla samúð með kjördæmi hans og óskum um raforkuhagræðingu á þeim stöðum, sem hann ber fyrir brjósti, þá hefði það í raun og veru verið leikur á borði fyrir hann að vera kominn fram með till. í svipaða átt, sérstæða, áður en við hv. 2. landsk. þm, komum fram með okkar þáltill., því að eins og ég tók fram, þegar þetta mál var hér fyrr til umr., eða fyrr í umræðunni, þá er það yfirleitt frekar skoðað neikvætt eða geta borið neikvæðan árangur við málefni, sem fram er borið, að hnýta aftan í það með brtt. sumpart skyldum og sumpart óskyldum málefnum, eins og hv, þm. N-Þ. hefur gert í þessu mínu máli. Ég hefði talið óþarft fyrir hann að fara að seilast til baráttuaðferða Vestmanneyinga fyrir sínum framfaramálum til að koma undir þann pilsfald málefnum, sem hann hefur vanrækt sjálfur að bera fram á þingi fyrir sína sýslu. Og ég óska þess og geri ráð fyrir, að ég sé þar sammála meðflm. mínum, að úr því að svo langt er komið, að hér liggur fyrir ákveðið álit hv, fjvn. í þessu máli, og með tilliti til þess enn fremur, að telja má, að það fari að draga að því, að þingi verði slitið, að afgreiðslu þessa máls yrði framfylgt, en ekki tafið eins og hv. þm. N-Þ, virtist ætlast til.