16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (2306)

77. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að aðalröksemdir hv. fjvn, í áliti hennar séu þær, að vegna þess að Vestmannaeyjar séu eitt af fjölmennustu byggðarlögum landsins, vilji þeir mæla með samþykkt till., en þess vegna megi sleppa hinum stöðum landsins, sem felast í þeim brtt., sem fluttar hafa verið.

Ég get ómögulega séð, að þetta sé nægjanleg röksemd fyrir því, að ekki megi samþykkja breytingartillögurnar. Ég hef síður en svo nokkuð á móti því, að samþ. verði till. hvað snertir Vestmannaeyjalínuna. En ég fæ heldur ekki betur séð en það sé alveg skaðlaust, þó að samþykkt væri sú till., sem ég hef flutt við þessa þáltill., og svo mun vera um hinar brtt. líka. Það hefur það mikið verið talað um jafnvægi í byggð landsins, að mér finnst það óviðeigandi, ef ætti að skilja álit fjvn. á þá leið, að það eigi að vera einhver stefna í rafmagnsmálum, að sé byggðarlag stórt, þá eigi það að ganga fyrir. Þá má líta á það, að það getur líka kostað tiltölulega miklu minna að hraða línu á einhvern stað í dreifbýli, svo að það væri alveg eins mögulegt fyrir ríkisvaldið að verða við óskum manna þar eins og í þéttbýlinu.

Ég held, að það sé svo tiltölulega fátt, sem það fólk hefur farið fram á við hið opinbera, er býr í því héraði, sem mín brtt. fjallar um, að mér finnst það heldur kaldar kveðjur, að ekki megi einu sinni samþykkja svona hógværa till., ef á annað borð á að fara að samþykkja nokkra till. um að hraða þessum framkvæmdum.

Ég vil taka undir óskir hv. þm. N-Þ. um það, að málinu verði frestað að þessu sinni, — ég sé ekki, að það þurfi að hindra framgang málsins á þinginu fyrir það. Ég hef ekki gert það alveg upp við mig, á hvern hátt ég greiði atkv. um aðaltillöguna, ef brtt. mín verður felld.