14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 154, þannig, að 1. málsgr. 76. gr. l. orðist svo:

„Kjörfund skal setja á kjörstað eigi síðar en kl. 12 á hádegi, en í kaupstöðum kl. 9 árdegis, og skal þá viðstödd öll kjörstjórnin.“

Brtt. fjallar um það, að kjörfundi í kaupstöðum skuli setja eigi síðar en kl. 9 árdegis í stað kl. 10, eins og nú er ákveðið í lögum.

Við 2. umr. þessa máls felldu hv. stjórnarliðar hér í deildinni brtt. frá mér þess efnis, að kjörfundur mætti standa kjördaginn út, eða til kl. 24. Þeir fylgdu fast frv. ríkisstj., sem tók eina klukkustund aftan af kjördeginum. Samkvæmt 2. málsgr. 2. gr. þessa frv. skal slíta kjörfundi eigi síðar en kl. 23, en með þeirri breytingu, sem ég legg til, vil ég freista þess að bæta nokkuð úr því misrétti, sem þessi stytting kjördagsins hlýtur að baka mönnum. Ég legg með öðrum orðum til, að kjörfundur í kaupstöðum hefjist einni klukkustund fyrr að morgni, en nú er ákveðið í lögum, Ég vænti þess, að hv. þd. geti fallizt á þessa brtt. mína.

Um málið almennt er víst þýðingarlítið að ræða mikið úr þessu. Hv. stjórnarflokkar hafa bersýnilega bundizt samtökum um að knýja málið fram. Þar verður vafalaust engu um þokað. Eitt stjórnarblaðanna lét fyrir nokkru orð falla í þá átt, að frv, sé aðallega stefnt gegn sjálfstæðismönnum í Reykjavík, það eigi að torvelda þeim kjörsóknina. Ríkisstj., sem flytur þetta mál, og hv. stjórnarflokkar, sem styðja það, álykta sýnilega sem svo, að vegna þess að Sjálfstfl. er langfjölmennastur hér í höfuðborginni, hljóti afleiðingin að verða sú, ef settar eru hömlur við því, að menn geti sótt kjörfund, að það bitni fyrst og fremst á Sjálfstfl. En það er ekki alveg víst, að þessi von ríkisstj, rætist. Reynslan sker úr um þetta. En hitt er augljóst mál, að frv. þessu er fyrst og fremst stefnt gegn Reykjavík og íbúum höfuðborgarinnar. Hér í höfuðborginni er fjölmennið mest og allar aðgerðir, sem miða að því að torvelda mönnum kjörsókn, hljóta að bitna fyrst og fremst á íbúum Reykjavíkur. Þetta út af fyrir sig er ærið íhugunarefni fyrir Reykvíkinga, að andúð ríkisstj. og stuðningsflokka hennar í garð íbúa höfuðborgarinnar sé svo mögnuð, að breyta þurfi sérstaklega kosningalögunum til þess að torvelda þeim að neyta atkvæðisréttar síns. Illa þekki ég Reykvíkinga, ef þeir ekki minnast á kjördegi slíkrar herferðar á hendur þeim og gjaldi stjórnarflokkunum verðugar þakkir fyrir tilræðið.