16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (2327)

163. mál, Náttúrulækningafélag

Frsm. Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Náttúrulækningafélag Íslands hefur með höndum allmiklar byggingarframkvæmdir í Hveragerði og hefur þegar hafið starfrækslu á heilsuhæli í þeim húsakynnum, sem þegar eru reist, en viðbót við þau húsakynni er fyrirhuguð og raunar í smiðum.

Félagið hefur staðið að byggingu þessara húsa með miklum dugnaði og notið til þess tiltölulega lítils byggingarstyrks. Það hefur nú hlotið takmarkað leyfi eða takmarkaða viðurkenningu sem sjúkrahús, heilsuhælið í Hveragerði hefur fengið það og tekur þar á móti sjúklingum ákveðinnar tegundar, þ.e.a.s. gigtarsjúklingum, og fær viðurkenningu til sjúkrasamlagsgreiðslu með þeim sjúklingum.

Sjúkrahúsakerfi landsins er nú þannig, að eins og stendur er talið, að vöntun sé á sjúkrarúmum, og er talið, að það komi öðrum sjúkrahúsum, einkum hér í höfuðstaðnum, að mjög góðum notum að geta sent frá sér gigtarsjúklinga austur í Hveragerði, enda er af ýmsum talið, að þeir fái þar margir hverjir góða bót meina sinna.

Nú hefur Náttúrulækningafélagið farið fram á það að fá ríkisábyrgð fyrir lánum til áframhaldandi byggingar, þannig að ríkisábyrgðin nemi 1/2 millj, kr.

Fjvn. hafa borizt tilmæli 23 einstaklinga, sem skora á Alþingi að láta þessa ríkisábyrgð í té, og fjvn. hefur ekki ástæðu til að ætla annað, en nægilega traustur fjárhagsgrundvöllur sé fyrir hendi hjá félaginu, til þess að hægt sé að láta úti hina umbeðnu ábyrgð, án þess að ríkið taki á sig nokkra teljandi áhættu af því, og leggur því til í þeirri till., sem hér er til umræðu, að ríkisstj. verði heimilt að ábyrgjast fyrir Náttúrulækningafélag Íslands, gegn tryggingum, sem hún metur gildar, allt að 500 þús. kr. lán vegna stækkunar á heilsuhæli félagsins í Hveragerði.

Ég sé, að till. hafa verið ætlaðar tvær umr. hér í þinginu, og geri það þá að till. mínni, að henni verði vísað til síðari umr., en þar eð hún er nú flutt af fjvn. og hefur þar verið athuguð, sé ég ekki ástæðu til þess að gera till. um, að henni verði vísað til nefndar.