14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

73. mál, kosningar til Alþingis

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vestm. og hv, þm. V-Sk. hefur nú verið svarað, þannig að ég get að mestu leyti leitt hjá mér það, sem þeir sögðu hér í sínum ræðum. Ég vil þó verða við þeim tilmælum hv. þm. Vestm. að svara þeirri spurningu hans, hvort skv. þessu frv., sem hér er til umræðu, sé heimilt fyrir kjósendur að segja til þess, hvort þeir hafi kosið eða ekki. Hann taldi, að þetta væri óljóst í frv., og óskaði eftir upplýsingum um það. Ég held, að þarna sé um misskilning að ræða hjá hv. þm., því að ef hann les 3. gr. og hver sem les 3. gr. í frv. getur naumast verið í vafa um þetta. Upphaf hennar er á þá leið, að frambjóðendum og umboðsmönnum þeirra sé óheimilt í fyrsta lagi að hafa meðferðis á kjörfundi kjörskrá eða aðra slíka skrá og í öðru lagi að rita til minnis á kjörfundi nöfn þeirra, sem atkvæðisréttar neyta, og í þriðja lagi að senda af kjörfundi eða láta í té upplýsingar. Hér er einungis verið að tala um frambjóðendur og umboðsmenn þeirra, sem gert er ráð fyrir að séu viðstaddir kjörfund eða í kjörfundarstofu. Þessum mönnum er skv. frv, óheimilt að senda upplýsingar úr kjörfundarstofunni, sem venja hefur verið víða, í Reykjavík og í kaupstöðum, að senda. En öðrum kjósendum er að sjálfsögðu skv. þessu heimilt að segja hverjum sem hafa vill og hverjum sem þeim sýnist, hvort þeir hafi neytt atkvæðisréttar eða ekki, svo að hér getur ekki neinn vafi verið á ferðum, eftir því sem frv. lítur út nú eftir 2. umr.

Þá er það brtt. hv. þm. V-Sk. Breytingin, sem fólgin er í hans till., er sú, að kjörfundir skuli í kaupstöðum hefjast kl. 9 árdegis. Ég sé ekkert við þetta að athuga, og ég tel þetta eftir atvikum rétt og skynsamlegt, þ.e.a.s. í kaupstöðum, þar sem fjölmenni er og margir eru á kjörskrá. Hins vegar mundi ég ekki telja neina þörf á því, að í kjördæmi eins og Seyðisfirði þyrfti að hefja kjörfund kl. 9 að morgni. Þar eru innan við þúsund kjósendur á kjörskrá, — ég man ekki nákvæmlega, hve margir þeir eru, en þeir munu vera álíka margir og í stórum hreppum, þannig að ég sé ekki nokkra ástæðu til þess, að þar sé kjörfundur hafinn kl. 9 árdegis. Sama máli gegnir um aðra kaupstaði, svo sem eins og Siglufjörð og Ísafjörð. Ég geri ekki ráð fyrir, að nein þörf væri á því að hefja kjörfundi í þessum bæjum svo snemma. En ég tel þó, að í Reykjavík sérstaklega og jafnvel í öðrum stærri kaupstöðum gæti þetta vel komið til mála og væri raunar sjálfsagt og eðlilegt. Hins vegar teldi ég réttara, að ákvæðum um þetta yrði þannig hagað, að yfirkjörstjórn á hverjum stað ákveði, hvenær kjörfundur skuli hefjast, þeim sé heimilt að ákveða, að kjörfundur skuli hefjast kl. 9 að morgni, þar sem þær telja ástæður til og heppilegt sé. Ég mun þess vegna leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann leiti heimildar hv. d. um það, að taka megi fyrir hér á þessum þingfundi brtt. við 76. gr. kosningal., sem felur það í sér, að kjörfund skuli setja á kjörstað eigi síðar en kl. 12 á hádegi, eins og nú er ákveðið, en í kaupstöðum kl. 10 árdegis, en yfirkjörstjórn í kaupstöðum geti þó ákveðið, að kjörfundur skuli hefjast kl. 9 árdegis. Ég teldi, eins og ástatt er um kjördæmaskipun, að skynsamlegra væri að haga þessu þannig, að ekki væri skylda að hefja kjörfund kl. 9 í þeim bæjum, þar sem yfirkjörstjórn telur engin rök fyrir því, að slíkt sé æskilegt.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða mál þetta að svo komnu máli, en afhendi hæstv. forseta þessa brtt. með tilmælum um, að hún verði tekin fyrir og leitað um hana afbrigða.