17.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (2337)

46. mál, jafnlaunanefnd

Flm. (Adda Bára Sigfúsdóttir):

Ég veit ekki, að hve miklu leyti mér ber að svara fyrir fjarstaddan ráðh. En ef við lítum á þá till., sem samþ. var í fyrra, þá felur hún ekki annað í sér en það, að Ísland eða ríkisstj, hafi heimild til þess að undirskrifa jafnlaunasamþykktina, og svo viðbótartill. um að athuga málin eitthvað nánar.

Í jafnlaunasamþykktinni er ekki kveðið beint á um neina nefndarskipun af því tagi, sem ég fór hér fram á. Þar segir aðeins, að þeir, sem hafa undirritað þessa skuldbindingu, skuldbindi sig til þess að stuðla að því að tryggja það, að svo miklu leyti sem það samrýmist þeim aðferðum, sem viðhafðar eru í aðildarríkjunum um ákvörðun launataxta að reglan um jöfn laun karla og kvenna nái fram að ganga.

Það þarf því ekki að undirbúa málið á nokkurn sérstakan hátt, áður en undirskriftin er framkvæmd. Undirskriftin er aðeins skuldbinding um að taka að sér að stuðla að þessu máli. Undirskriftin fór fram í fyrrasumar, og fullgildingin öðlast þess vegna ekki gildi á Íslandi, fyrr en næsta sumar. Það liður ár frá undirskrift, þangað til hún á að ganga í gildi.

En engu að síður er mjög æskilegt, að farið verði að vinna í anda þessarar þál. Það kann að vera, að æskilegt hefði verið, að hæstv. félmrh, hefði verið búinn að skipa þessa n., en hins vegar get ég ómögulega litið á till. mína um nefndarskipun til þess að kanna, að hve miklu leyti sömu laun eru greidd fyrir sömu vinnu hjá opinberum aðilum og hvaða ráðstafanir séu tiltækar til þess að koma jafnlaunareglunni á, sem neins konar vantraust á hæstv. félmrh. Þetta er aðeins ábending um verkefni, sem ég óska eftir að ríkisstj. taki til úrlausnar.