14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

73. mál, kosningar til Alþingis

Forseti (BSt):

Mér hefur borizt svo hljóðandi skrifleg brtt. frá Friðjóni Skarphéðinssyni við frv.:

„Á eftir 1. gr. kemur ný gr., svo hljóðandi:

Í stað 1. málsl. 76. gr. l. komi þrír nýir málsliðir, þannig:

Kjörfund skal setja á kjörstað eigi síðar en kl. 12 á hádegi, en í kaupstöðum kl. 10 árdegis. Yfirkjörstjórn í kaupstöðum getur þó ákveðið, að kjörfundur skuli hefjast kl. 9 árdegis. Fullskipuð kjörstjórn skal vera viðstödd, er kjörfundur er settur.“

Þessi tillaga er of seint fram komin og þar að auki skrifleg, og þarf tvöföld afbrigði, til þess að hún geti komizt hér að.