05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2345)

133. mál, söngkennsla

Flm. (Helgi Seljan Friðriksson):

Herra forseti. Till, sú til þál., sem er á þskj. 265 og ég hef leyft mér að flytja, er þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að kanna, hvort ekki muni fært að taka upp umferðarkennslu í söng við þá barnaskóla, þar sem ekki eru starfandi söngkennarar.“

Í grg. fyrir þessari till. er fyrst á það minnzt, að mjög víða, einkum við hina smærri skóla hér á landi, er engin söngkennsla og söngur þar felldur niður. Orsökin er sú, að ekki fást kennarar til þessara skóla, sem kennt geta söng. Við suma skóla, er ég þekki til, hafa oft orðið kennaraskipti á undanförnum árum, og þá hefur ævinlega, er staðan var auglýst, sérstaklega verið tekið fram, að þörf væri á kennara, er kennt gæti söng. En það hefur í langflestum tilfellum engan árangur borið.

Fyrsta ástæðan fyrir því, að svo erfiðlega gengur að fá söngkennara, er auðvitað sú, að yfirleitt hafa kennarar ekki stundað söngkennaranám með sínu venjulega námi í kennaraskólanum, enda ekki skylda þar, það ég bezt veit. Það er líka hæpið að skylda menn til slíks náms án tillits til hæfileika. En alltaf eru þó einhverjir, sem slíkt nám stunda, og nú mun starfandi sérstök söngkennaradeild við kennaraskólann.

Eins og að líkum lætur, fara þeir fáu, sem söngkennarapróf taka, til starfa í þeim skólum, þar sem aðstaða til kennslu í sérgrein þeirra er bezt, en það er auðvitað við hina stærri skóla. Þeir, sem aðeins taka söngkennarapróf, hafa auðvitað ekkert verkefni eða starfssvið við sitt hæfi við hina smærri skóla, nema þá að þeir geti kennt eitthvað annað, þar sem söngkennslan ein nægir þeim ekki til lífsframfæris. Af þessu má glögglega sjá, að erfiðleikar eru miklir á því fyrir hina smærri skóla að fá kennara til starfa, er kennt geti söng. Hér þyrfti því vafalaust breytingu á í sambandi við kennslu kennaraefna, en út í það fer ég ekki nánar.

Nú er söngur auðvitað aðeins ein þeirra mörgu námsgreina, er börnin eiga að nema, og ekki heldur ætlaður langur tími til hans. Eigi að síður er það mjög slæmt, ef honum þarf algerlega að sleppa. Að vísu veit ég, að mjög margir kennarar láta börnin syngja, t. d. í byrjun eða lok kennslustundar, og kenna þeim þannig ljóð og lög. En úr því að kenna á söng og á það lögð áherzla af forustumönnum í uppeldisfræðum, að börnin fái reglulega tilsögn í söng, þá er slík söngkennsla sem ég minntist á alls ófullnægjandi.

Það virðist ekki auðveit að sjá möguleika á því að fá sérmenntaða söngkennara til starfa við velflesta barnaskóla landsins og að því er bezt verður séð engar líkur til þess, að svo verði, af ástæðum, sem þegar hafa verið raktar og vafasamt er að taki nokkrum teljandi breytingum í náinni framtíð. Það væri því athugandi, ef ekki er ætlunin að láta söng falla niður af námsskrá fjölmargra eða jafnvel flestra hinna smærri skóla, að kanna leiðir þar til úrbóta.

Í till. minni er bent á eina leið. Mönnum finnst hún e.t.v. illframkvæmanleg og gagnslítil fyrir börnin. Ég get á hvorugt fallizt. Ef vel fær söngkennari væri fenginn til að kenna börnunum söng ákveðinn tíma á vetri hverjum, er öruggt, að slíkt mundi mjög auka áhuga barnanna á söng, og það með, að mun auðveldara yrði fyrir þá kennara, sem láta börnin syngja að staðaldri, að halda því við, sem þau þá þegar hafa lært.

Hér skal enginn dómur á það lagður, hve langur tími væri hæfilegur á hverjum stað, og eins hitt, hve mikla áherzlu ætti að leggja á sönginn þann tíma, er kennarinn væri á viðkomandi stað, en þó ekki óeðlilegt, ef tími væri stuttur, að börnin nytu dag hvern söngkennslu þann tíma.

Á það má auðvitað benda, að við þetta yrði allmikill kostnaður. En ef söng á að kenna í skólunum og þetta reyndist fær leið til úrbóta, er sjálfsagt að reyna hana og þá um leið gera ráðstafanir til varanlegri úrbóta fyrir framtíðina.

En yrði þá ekki skortur á kennurum til þessa starfa og til að annast þetta? E.t.v. kann svo að fara. En það sannar þá aðeins betur en allt annað, hve vonlaust það er fyrir einstaka skóla að fá slíkan söngkennara. Og því skal heldur ekki trúað, að ekki mætti fá einhverja menn til þessa starfs.

Ég leyfi mér að benda á þessa leið og vænti þess, að ef úr framkvæmd verður, gæti hún orðið til mikils gagns. En ef svo færi við nánari athugun, að leið till. þessarar reyndist mjög torfær í framkvæmd, væri æskilegt, að önnur leið væri fundin til úrbóta í þessu efni, en ekki látið kyrrt liggja, enda er það tilgangurinn með flutningi till. að vekja athygli á þessu vandamáli og óska eftir athugun á leiðum til úrbóta, en jafnframt bent á leið, sem áður hefur gefizt ve] í öðrum greinum, þótt óskyldar séu söngnum.

Ég vil svo æskja þess, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.