20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2360)

30. mál, brotajárn

Flm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj, 39 till. til þál. um hagnýtingu á brotajárni eða úrgangsjárni. Þetta mál er ekki nýtt hér á hv. Alþingi. Það hefur áður verið rætt hér, en ekki tekin fullnaðarákvörðun eða gerð fullnaðarathugun á því, hvort hagkvæmt væri að koma upp innanlands járnbræðslu. Ég er sannfærður um, að hér er um miklu meira mál að ræða, en sumir vilja vera láta og að það er áreiðanlega þess virði, að það sé tekið til rækilegrar athugunar. Höfuðatriði málsins er það, að nú fellur til hér á landi talsvert mikið af úrgangsjárni, sem er hráefni og við nú flytjum til útlanda og seljum þar fyrir mjög lítið verð. Flestar aðrar þjóðir vinna úr þessu hráefni, úrgangsjárninu, sjálfar og framleiða á þann hátt vörur, sem eru mjög eftirsóknarverðar á heimsmarkaðinum, þ.e.a.s. járn af ýmsum gerðum. Þetta ráðslag getur auðvitað ekki gengið til lengdar og hlýtur að verða tekið til athugunar, með hvaða hætti mönnum þykir eðlilegast að nýta það hráefni, sem til fellur með þessum hætti.

Vorið 1955 fól viðskmrn. Iðnaðarmálastofnun Íslands að gera athuganir á því, hvort hagkvæmt væri að hagnýta brotajárn innanlands. Iðnaðarmálastofnunin gerði skýrslu um það mál, og er þar margs konar upplýsingar að finna, lútandi að þessu. Hins vegar segir stofnunin, að þetta málefni sé svo umfangsmikið, að frekari rannsókna þyrfti með, áður en ákvörðun væri tekin í málinu, Till. mín gerir einmitt ráð fyrir, að þessari athugun sé haldið áfram.

Það er vitaskuld augljóst mál, að járnbræðsla, sem starfrækt yrði hér á landi, yrði mjög lítil, samanborið við erlend stáliðjuver. En jafnvel þó að ekki væri um að ræða nema 5–10 þús. tonna afköst á ári, þá er málið engu að síður stórmál á okkar mælikvarða. Ef hráefnið er til í landinu og hægt er að koma vélum upp fyrir viðráðanlegt verð og ef rekstur járnbræðslu væri talinn hagkvæmur, þá eru 5–10 þús. tonn t.d. af steypustyrktarjárni hreint ekki svo lítil framleiðsla á okkar mælikvarða.

Ég held, að það sé ríkjandi mikill misskilningur hjá almenningi varðandi járnbræðslu. Sumir halda, að hér sé um að ræða risastórt fyrirtæki, sem ekkert vit sé í, en aðrir halda, að hráefnið sé svo lítið, að aldrei verði neitt vit í rekstrinum af þeim ástæðum. Enn aðrir vilja jafnvel líkja þessum hugmyndum við Faxaverksmiðju eða glerverksmiðju. Nú skal ég ekkert um það fullyrða, hvað raunhæft er í þessu máli, en því er till. mín fram komin, að ég tel ómaksins vert, að ýtarleg athugun sé gerð á öllu málinu í heild.

Jón Brynjólfsson vélaverkfræðingur iðnaðarmálastofnunarinnar hefur sagt mér, að hann telji það alveg vafalaust, að nægjanlegt hráefni yrði fyrir hendi til að starfrækja 10 þús. tonna járnbræðslu. Þá miðar Jón við, að safnað væri brotajárni fyrstu 3 árin, á meðan verið væri að koma verksmiðjunni upp, áður en starfrækslan hæfist, og eftir þann tíma telur Jón að veruleg hráefnisaukning yrði frá ári til árs, sem er byggt á þeirri staðreynd, hversu mikill járninnflutningur hefur verið til landsins eftir 1945. Árið 1965 telur Jón að féllu til um 10 þús. tonn af úrgangsjárni og síðan meira. Nú er talið, að falli til einhvers staðar á milli 5 og 8 þúsund tonn á ári.

Það er athyglisvert, að árið 1952, þegar verðið var einna hæst á brotajárni erlendis, voru flutt út 9.980 tonn á einu ári. Hefur þá sjáanlega verið lögð sérstök áherzla á söfnun þessa hráefnis.

Járn er nú sem áður mjög eftirsótt vara á heimsmarkaðnum, og vitanlega gildir það sama um brotajárn, sem auðvitað er bezta hráefnið til járnframleiðslu. Það er því hörmulegt, að við Íslendingar skulum flytja út tugþúsundir tonna af þessu verðmæta hráefni, án þess svo mikið sem athuga til hlítar, hvort ekki er einmitt mjög vel hægt að vinna úr þessu hráefni hér heima. Ég held, að við höfum einhvern tíma ráðizt í annað eins.

Varðandi framleiðsluvörur slíkrar járnbræðslu yrði vafalaust fyrst og fremst hugsað um framleiðslu steypustyrktarjárns af tilteknum algengum stærðum. Innflutningur steypustyrktarjárns á s.l. ári var 71/2 millj. kr. í gjaldeyri, og 9 fyrstu mánuði þessa árs var innflutningurinn 9.3 millj. kr. Hér er því um að ræða verulegt gjaldeyrisatriði, þó að ekkert annað væri framleitt, en þessi eina járnvara, þ. e. steypustyrktarjárn.

Iðnaðarmálastofnunin áætlar, að innanlandsmarkaður stangajárns yrði fyrst um sinn um 5 þús. tonn á ári, en yrði kominn upp í um 10 þús. tonn í kringum 1970.

Iðnaðarmálastofnunin hefur ekki gert ýtarlegar athuganir á stofnkostnaði járnbræðslu. Þó er þess getið í skýrslunni, að stáliðjuver með 10 þús. tonna afköstum ætti að kosta eða væri ekki ótrúlegt að það kostaði á milli 15 og 20 millj. íslenzkra króna.

Aðalverðmæti járnbræðslunnar liggur í valsasamstæðu, sem talið er að muni kosta 10 –15 millj. kr. Að sjálfsögðu kæmi einnig til greina að setja upp bræðslu með ca. 5 þús. tonna afköstum, en þá er talið, að hvort tveggja sé, að hráefnið verði ekki fullnýtt og að rekstrargrundvöllur verði miklu lakari. Í rekstraráætlun gerir iðnaðarmálastofnunin ráð fyrir afskriftum, vöxtum og viðhaldi, sem nemi um 20%, og samt verði ríflegur tekjuafgangur. Engar endanlegar kostnaðar- eða rekstraráætlanir virðast mér þó hafa verið gerðar, enda segir iðnaðarmálastofnunin í niðurlagi skýrslu sinnar, að um bráðabirgðaniðurstöður sé að ræða og að frekari rannsókna þurfi með, áður en ákveðið væri að ráðast í að reisa stáliðjuver til hagnýtingar á úrgangsjárni. Líkur benda hins vegar til, segir í skýrslunni, að slíkt fyrirtæki ætti að vera þjóðhagslega hagkvæmt,

Vestur-Íslendingurinn Jón Ólafsson, sem er þekktur vestan hafs fyrir forustu sína á sviði framleiðslu gæðastáls, hefur í blöðum hér heima lagt áherzlu á, að hann teldi sjálfsagt, að komið væri upp stáliðjuveri til að vinna úr úrgangsjárni, og sá maður er talinn hafa mjög gott vit á þessum málum.

Ég held, að það geti ekki verið vafi á því, að sjálfsagt sé að fela hæstv. ríkisstj. að halda þessu máli vakandi og láta gera endanlegar rannsóknir og athuganir á því, hvort hagkvæmt sé að koma svona fyrirtæki upp.

Ég legg svo til, að umræðu um þetta mál verði frestað og till. verði vísað til hv. allshn. Ingólfur Jónsson: Herra forseti. Það er rétt, sem hv. flm. þessarar till. sagði, að þetta mál er ekki nýtt hér í hv. Alþingi. Það hefur verið flutt till. um þetta, að ég ætla tvisvar, og einu sinni hefur verið flutt frv, til laga um stofnun stáliðjuvers. 1955 var till. um þetta efni vísað til ríkisstjórnarinnar. Till. var þess vegna afgreidd, og það, sem gert var í framhaldi af því, var að fela Iðnaðarmálastofnun Íslands, samkvæmt bréfi 13, maí 1955, að gera rannsókn á því, hvort tiltækilegt væri að koma hér upp stáliðjuveri til þess að vinna úr brotajárni.

Iðnaðarmálastofnunin lagði allmikla vinnu í þessa athugun, enda tók hún langan tíma, nokkuð á annað ár. Iðnaðarmálastofnunin hafði ekki lokið þessu starfi fyrr en í september 1956, og ég verð að segja það, að skýrsla iðnaðarmálastofnunarinnar er nokkuð sannfærandi um, að það beri að gera þetta, að ráðast í að byggja stáliðjuver. Síðan skýrsla og álit iðnaðarmálastofnunarinnar kom, er nú liðið nokkuð á annað ár, og hæstv. ríkisstj, hefur ekki, að ég veit til, gert nokkuð til þess, að rannsókninni yrði haldið áfram.

Mig furðar því ekkert, þótt hv. 10. landsk. þm., sem hlýtur að vera kunnugur í herbúðum hæstv. ríkisstj., geri tilraun til þess að ýta við hæstv. ríkisstj. með flutningi þessarar till., úr því að hæstv. stjórn hefur ekki, þrátt fyrir hina ýtarlegu og jákvæðu skýrslu iðnaðarmálastofnunarinnar, hreyft legg eða lið nú nokkuð á annað ár, í þessu máli. Það hefði legið beinast við hjá hæstv. ríkisstj. að láta framhaldsrannsókn fara fram eftir að hafa fengið í hendur hina ýtarlegu skýrslu iðnaðarmálastofnunarinnar. Útdráttur hennar er birtur í tímaritinu Íslenzkur iðnaður, í septemberblaði 1956, og ég ætla, að allir hv. þm, hafi fengið þetta blað, og er þess vegna óþarfi að vera að lesa upp úr því, af því að ég býst við, að flestum hv. þm. sé ljóst, að þar er beinlinis gefið í skyn, að fyrirtæki sem þetta geti verið mjög þjóðhagslegt og það beri að ráðast í þetta, en þó þurfi, áður en það verði gert, að gera ýtarlegri rannsókn á ýmsum sviðum. Það hefði þess vegna verið æskilegt, að hæstv. ríkisstj. hefði gert ráðstafanir til þess, að þessi framhaldsrannsókn hefði átt sér stað. Tillögu um þetta efni hafði verið áður vísað til ríkisstjórnarinnar til aðgerða í þessu máli, og framhaldið var að kveðja nýja menn til rannsóknar og nánari athugunar á þessu. Hafi hæstv. ríkisstj. talið, að hana vantaði heimild til þess að nota fé í þessu efni, bar henni að afla þeirrar heimildar.

Ég satt að segja hafði búizt við því, að þetta mál væri í framhaldsrannsókn, þangað til till. hv. þm. kom hér fram í hv. Alþingi, og úr því að hann flytur málið hér inn í þessu formi, þá hlýtur það að vera vegna, þess, að honum hefur fundizt sérstök ástæða til að ýta við hæstv. ríkisstj. í aðgerðaleysi hennar. Ég vil, úr því að hæstv. ríkisstj. hefur haldið að sér höndum í þessu máli, styðja þessa till., og ég vænti þess, að hún megi verða til þess að ýta við hæstv, stjórn, að hún láti framhaldsrannsókn fram fara í þessu máli, sem virðist vera gott mál. Það er sannleikanum samkvæmt, að allt of mikið er gert að því hjá okkur Íslendingum, sem stöðugt vantar gjaldeyri og höfum oft litla atvinnu fyrir fólkið í landinu, að flytja út hráefnið í stað þess að nýta það í landinu til tekjuöflunar og til gjaldeyrissparnaðar.

Ég tel gott, að þessi till. er komin fram, úr því að nauðsynlegt var að ýta við hæstv. ríkisstj. á þennan hátt með henni.