20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2362)

30. mál, brotajárn

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil í framhaldi af þeim ummælum hv. þm. Rang., að nauðsynlegt hafi verið að ýta við ríkisstj, varðandi þetta mál, aðeins taka þetta fram:

Í framhaldi af álitsgerð Iðnaðarmálastofnunar Íslands um þetta mál sneri iðnmrn. sér til annarra aðila og æskti umsagnar þeirra um málið. Sumir þeirra munu og hafa látið hinu háa Alþingi í té umsögn sína um málið, þegar þetta eða hliðstætt mál var hér á döfinni fyrir nokkrum árum. Því er ekki að leyna, að skoðanir manna, sem telja verður sérfróða um þetta efni, eru nokkuð skiptar. Og það er auðvitað höfuðástæða þess, að a.m.k. iðnmrn. hefur ekki viljað hafa frumkvæði að því enn sem komið er, að hafizt væri handa um framkvæmdir í þessum efnum. En ég tel sjálfsagt, að þær athuganir, sem fram hafa farið á málinu, haldi áfram og verði gerðar sem ýtarlegastar og það verði leitt í ljós með svo öruggri vissu sem verða má, hvor aðilinn hefur rétt fyrir sér í þessum efnum. Ég er reiðubúinn til þess að veita þeirri hv. n., sem þetta mál fær til meðferðar, þær upplýsingar, sem fyrir liggja í iðnmrn. um málið, til þess að stuðla að því, að hv. n. geti myndað sér glögga skoðun á málinu. Þess vegna tel ég það vera æskilegt, að till. þessi sé samþykkt. Það heldur málinu þó vakandi. Ég er reiðubúinn til þess að veita aðgang að þeim gögnum, sem í iðnmrn. fyrirfinnast til þess að upplýsa málið, og stuðla að því, að iðnaðarmálastofnunin veiti líka þær upplýsingar, sem hún hefur yfir að ráða í málinu.