23.02.1958
Sameinað þing: 27. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (2374)

63. mál, heymjölsverksmiðja

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það var nú gott að heyra það, að hv. 1. þm. N-M., hv. fyrrv. búnaðarmálastjóri, var ekki á móti því, að þessi till. væri samþykkt, — till., sem gengur aðeins í þá átt að rannsaka, hvort ekki sé unnt að gera það, sem fram á er farið, að byggja heymjölsverksmiðju til hagsbóta fyrir landbúnaðinn og fyrir alþjóð, — jafnvel þótt till. sé svona, má það heita þakklætisvert, að þessi hv. þm, taldi sig ekki vera á móti því, að hún væri samþykkt.

Tilraunir Eggerts heitins Jónssonar náðu skammt, vegna þess að hann vantaði fé. Hann hafði mikinn áhuga fyrir þessu máli og hafði gert sér grein fyrir því, að það gat verið framfara- og hagsmunamál fyrir landbúnaðinn og þjóðarheildina, en hann hafði ekki fé. Þess vegna hygg ég, að það mál hafi strandað, en ekki af því, að hann hafi misst trúna á því, að þarna væri verkefni að vinna. En við skulum sleppa því. Það kemur lítið þessu máli við, vegna þess að hér er farið fram á rannsókn.

Till. fer ekki fram á annað en það, að það verði kveðinn upp dómur í því, sem ýmsir halda fram að sé rétt og sjálfsagt, þ.e. að koma svona verksmiðju eða verksmiðjum upp.

Um þá erfiðleika, sem hv. 1. þm. N-M. var að tala um, grasið og það að hafa starfstímann langan, til þess að verksmiðjan gæti borið sig, — þá skal ég ekki gera lítið úr því. En það er augljóst, að verksmiðjuna verður að byggja þar, sem grasrækt er auðveld, og þar, sem hægt er að hafa ráð á miklu grasi á tiltölulega stuttum tíma.

Engum hefur dottið í hug, að það væri ekki fært að reka eða byggja síldarverksmiðjur, af því að starfstími þeirra væri stuttur. Síldarverksmiðjur geta borið sig, jafnvel þótt þær starfi ekki nema einn mánuð á sumrinu eða styttri tíma, ef nóg berst að. Ég hygg, að einnig gæti orðið með heymjölsverksmiðjuna eitthvað svipað, að ef nóg gras væri fyrir hendi og afköst hennar mikil, gæti hún borið sig, þótt starfstíminn væri tiltölulega stuttur. En vegna þess að stofnkostnaðurinn verður allmikill á þessu og rekstrarkostnaður allur, þá var ekki við því að búast, að einn maður, sem hafði takmörkuð fjárráð, treysti sér til þess að ráðast í það, og enginn maður getur, eins og nú standa sakir, ráðizt í það að byggja síldarverksmiðju, jafnvel þótt hann ætti víst, að síldin kæmi. Þannig er það í okkar landi. Það, sem er kostnaðarsamt og dýrt, er ofviða einstaklingunum, og ég hef gert mér grein fyrir því, að ef ráðizt verður í slíka verksmiðju eins og hér er um að ræða, verði ríkið að hafa framkvæmdina.

Ég hef bent á, að á Rangársöndum, á því landi, sem sandgræðslan á og hefur yfir að ráða, eru sérstök skilyrði, ekki aðeins með grasræktina, heldur einnig til þess að hafa ódýran og hentugan vinnukraft, kannske 40 karlmenn á bezta aldri, sem hægt væri að grípa til, en ekki hafa að öðrum kosti verkefni eða a.m.k. mjög erfitt að útvega verkefni.

Um það, að samþykkt hafi verið hér till. fyrir tveimur árum um athuganir á heyverkunaraðferðum, er ekki nema gott að segja, og hafi sú nefnd, sem starfar að slíkum rannsóknum, gert skýrslur og safnað að sér athugunum, sem varða þetta, þá er ekki nema sjálfsagt að notfæra sér það. En till., sem samþykkt var hér um árið um heyverkunaraðferðir, fór ekki fram á að athuga möguleika á því að byggja heymjölsverksmiðju. Það vantaði alveg í tillöguna. Og jafnvel þótt við verðum sammála um að notfæra okkur þær upplýsingar, sem áðurnefnd nefnd hefur í fórum sínum, þá vantar heimild frá Alþingi til þess að gera rannsókn á því, sem till. hér á þskj. 104 fer fram á, þ.e. að athuga, hvort æskilegt er að byggja og reka heymjölsverksmiðju.

Ég hygg, að það sé ekki, eins og sakir standa, þörf á út af fyrir sig að ræða meira um þetta, því að eins og ég áðan vék að, sagði hv. 1. þm. N-M., að hann hefði ekki á móti því, að till. væri samþykkt, enda þótt hann væri í vafa um gagnsemi hennar. Skal ég sætta mig við það, að dómur verði felldur í þessu, sem ekki aðeins ég, heldur og ýmsir sérfróðir menn telja að geti verið stórt og mikið hagsmunamál fyrir þjóðarheildina.