26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2386)

89. mál, glímukennsla í skólum

Gunnlaugur Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil víkja nokkrum orðum að þessari till., en geta þess jafnframt, að í ræðu minni mun ég að nokkru leyti styðjast við grein, sem birtist í tímariti Rauða krossins, Heilbrigðu lífi, fyrir nokkru. Þar segir svo um glímuna:

„Glíman er síður en svo barnaíþrótt. Til þess að iðka hana þarf stælta vöðva og mikinn líkamsþrótt, þar sem tveir einstaklingar keppast við að beita hver annan brögðum og fella andstæðinginn að velli. Hún er fyrst og fremst keppnisíþrótt, sem krefst bæði fimi, afls, lagni og karlmennsku. Allir þessir eiginleikar eru lítt eða ekki farnir að þroskast á bernsku- og gelgjuskeiðinu. Þeir gera venjulega fyrst vart við sig á unglingsárum, en þroskast síðan smám saman á síðara vaxtarskeiði og ná fullum þroska um 25 ára aldur. Það er því út í hött að ætla óþroskuðum börnum að æfa og iðka þessa íþrótt að staðaldri. Að vísu er glíman að sumu leyti fimleikar, þótt hún sé kannske fyrst og fremst fallin til sýninga áhorfendum og til ánægju.“

Það er rétt, að glíman er göfug íþrótt og gömul þjóðaríþrótt og full ástæða til þess, að hún falli ekki alveg í gleymsku. En það væri nær að láta íþróttafélög um það að halda henni við og efla þau til þess, en ekki leggja þær skyldur á herðar börnum, og því er ég andvígur þessari till. og er því ekki meðmæltur, að glíma sé iðkuð í skólum.

Ég vil víkja hér enn að þessari sömu grein í Heilbrigðu lífi, en þar segir:

„Sýnu alvarlegri mundu þó þau andlegu áhrif, sem þessi lögboðna drengjaglíma mundi hafa, einkum á líkamlega seinþroska og pasturslitla drengi, sem ætíð hlytu að verða undir í viðureign við stæltari félaga og yrðu síðan að þola spott og spé. Börn eru sérstaklega viðkvæm og næm fyrir þessu, og mundi það skapa hjá þeim minnimáttarkennd, sem síðar væri erfitt eða ómögulegt að ráða bót á, og yrði þannig til óbætanlegs tjóns. Óeðlilega mikil virðing skapaðist fyrir hnefaréttinum, og minnimáttarkenndin mundi vaxa við endurtekna ósigra. Allt þetta kann að valda taugaveiklun, sem er orðið eitt erfiðasta vanheilsuvandamál í nútíma þjóðfélagi. Hin réttu, sígildu glímubrögð eru fögur og fimleg, sé reglum fylgt af drengskap, en þau geta einnig orðið fantaleg, sé þeim beitt af ráðnum hug í illu, og þá getur kárnað gamanið. Óþokkar, ófyrirleitnir strákar hikuðu ekki við að nota glímukunnáttu sína til að lumbra á minni máttar skólabræðrum og meðborgurum sínum síðar, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Samkvæmt framansögðu virðist auðséð, að það er síður en svo ástæða til þess að stuðla að því á einn eða annan hátt með lagaboði eða flutningi till. sem þessarar, að glíman verði iðkuð að staðaldri í skólum.

Ég vil ekki tefja þingið með langri ræðu um þetta mál, en vil samt benda á það, að til þess að hægt væri að kenna glímu í skólum, þyrfti sennilega að byrja á því að kenna kennurum glímuna, því að vafalaust höfum við ekki völ á kunnáttumönnum í þessu efni, svo fágæt er glíman nú orðin.

Við getum að sjálfsögðu verið jafngóðir Íslendingar, þó að við kunnum ekki glímu, og ég tel, að það sé ekki hlutverk Alþ. að stuðla að því, að slíkar skyldur séu lagðar á skólabörn landsins, og legg því til, að till. verði felld, en ekki vísað til nefndar.