26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2387)

89. mál, glímukennsla í skólum

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þau sjónarmið, sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni, eru engan veginn ný, og þau hafa heyrzt um alllangt skeið og hafa jafnvel komið fram í virðulegum tímaritum, eins og því, sem hann las upp úr tímariti Rauða krossins.

Ég vil benda á, að grein sú, sem hann las upp, byggðist á því, að talað er um að kenna „óþroskuðum börnum“ glímu. Kann vel að vera, að allar þessar geysilegu hættur, sem stafi af glímunni, geti verið fyrir hendi, ef um væri að ræða kornung og óþroskuð börn. Hins vegar er nú í þessu máli látið ósagt og látið á vald skólayfirvalda, hversu þroskuð þau börn skuli vera, sem njóta þessarar kennslu, og getur þá alveg eins farið svo, að það verði unglingar eins og óþroskuð börn. Gæti það breytt verulega viðhorfi.

Þá var talað um, að til væru seinþroska börn, sem gætu orðið undir í glímunni og yrðu að þola fyrir það háð og spott, sem mundi skapa hjá þeim minnimáttarkennd og ævilanga taugaveiklun. Það getur vel verið, en ég er hræddur um, að þetta sama megi segja um flestar aðrar íþróttir, sem iðkaðar eru í skólum og utan þeirra, og þessi rök mætti mjög vel nota til þess t.d. að krefjast þess, að afnumin verði öll próf í skólum, vegna þess að til eru seinþroska börn, sem geta orðið undir í prófunum, fengið lágar einkunnir og þolað fyrir það háð og spott og orðið taugaveik, það sem eftir er ævinnar. Ég held, að þessa röksemd megi leiða nokkuð langt, ef hún er viðurkennd. En við verðum í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum að treysta á þroska okkar kennarastéttar, að hún fari vel með þessa hluti og framkvæmi sín störf þannig, hvort sem eru próf í andlegum fræðum eða líkamlegar æfingar, jafnvel glíma, að engin börn bíði af því tjón eins og það, sem hér er um að ræða.

Það var á það bent, að glíman gæti verið fantaleg og vondir strákar gætu misnotað þetta til að klekkja á þeim, sem minni eru. Ég er hræddur um, að vondir strákar muni gera það, hvort sem þeir læra glímu eða ekki. En hins vegar mætti benda á, að ef þeir, sem ekki eru alveg eins sterkir eða alveg elns miklir fantar, fengju að læra nokkur varnarbrögð í skólunum, þá gæti vel verið, að þeir stæðu miklu betur að vígi við að verja hendur sínar gegn þeim vondu.

Það má ræða þessa hluti fram og aftur. En ég held, að það muni ekki verða til þess að efla líkamlegan þroska þjóðarinnar, drengskap og annað, sem mjög gætir í glímunni, ef við tækjum þá stefnu að þurrka út úr þjóðfélagi okkar fyrirbrigði eins og þessa gömlu þjóðaríþrótt.

Ég vil benda á það að lokum, að tveir af flutningsmönnum þessarar till. eru læknar, sem ég vænti að séu vel um það dómbærir, hvort þessi leikur er eins hættulegur og einstaka menn vilja vera láta.

Ég vænti því, að till. verði hleypt áfram og hún endanlega samþykkt.