14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

73. mál, kosningar til Alþingis

Forseti (BSt):

Mér hefur borizt svofelld till. til rökstuddrar dagskrár út af þessu máli: „Þar sem þetta frv. miðar fyrst og fremst að því að gera mönnum erfiðara fyrir, en áður, að neyta atkvæðisréttar síns og eðlilegt virðist, að mþn. um endurskoðun kosningalaganna hraði störfum og lögin í heild verði endurskoðuð sem fyrst, telur deildin ekki ástæðu til að afgreiða frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vona, að menn afsaki, þó að ég hafi verið dálítið stirður að lesa það, því að það var hv. flm. einnig, þegar hann las þetta.

Út af því, að ýmsir hv. dm. hafa minnzt hér á ræðu, sem forseti deildarinnar hafi haldið, þá vil ég taka það fram, að forseti sem slíkur hefur enga ræðu haldið hér og ekkert lagt til þessara mála. En 1. þm. Eyf. sagði hér nokkur orð, og er það að vísu sami maður, en forseti hefur fullan rétt til þess að víkja úr forsetastól og taka til máls eins og hver annar þm., en hann gerir það ekki sem forseti.