07.05.1958
Sameinað þing: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (2392)

89. mál, glímukennsla í skólum

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um þessa till. til þál. um glímukennslu í skólum. Efni till. er, eins og þingmenn vafalaust muna, að álykta að beina þeirri áskorun til ríkisstj., að hún geri ráðstafanir til þess, að fullnægt verði á raunhæfan hátt ákvæðum gildandi laga og reglugerða um, að í öllum skólum landsins sé piltum gefinn kostur á tilsögn í íslenzkri glímu. Tilgangurinn með þessari till., sem flutt er af þingmönnum úr öllum flokkum, er sá að reyna að vekja áhuga á aukinni glímukennslu í skólum landsins.

Í fyrra var þetta flutt í því formi að gera glímuna að skyldunámsgrein. Það mætti ýmiss konar andúð, og hefur á þessu þingi verið horfið frá því, en valið það form, sem hér er, enda eru ákvæði til í lögum og reglugerðum um það, að kostur skuli gefinn á þessari glímukennslu.

Ég vil taka það fram, að það er ekki hugmyndin að bæta við íþróttakennslu eða gera auknar kröfur til afnota af íþróttahúsnæði, heldur er hugmynd flm., að reynt verði að fella þetta inn í leikfimiskennsluna, þannig að þetta ætti ekki að krefjast aukins húsrýmis eða aukinna kennslukrafta af skólum landsins. Einnig verður það að fara eftir aðstæðum, hve íþróttakennarar eru undir það búnir að veita þessa kennslu, og þar sem ekki er hægt að veita hana á annan hátt, er hugsanlegt að grípa til námskeiða eða umferðarkennslu, og mun framkvæmdin á því ekki reynast erfið.

Allshn. hefur, eins og ég áður sagði, fjallað um þessa till., leitað umsagnar nokkurra aðila, sem allir taka vel í málið, og mælir n. með því, að till. verði samþykkt.