28.05.1958
Efri deild: 109. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (2400)

191. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á þessu þingi var flutt frv. til l. um hluta sveitarfélaga af söluskatti. Er það 87. mál á þskj. 146. Efni þess máls er það, að meðan innheimtur er söluskattur til ríkissjóðs, skuli fjórðungur skattsins renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og skiptast þaðan jafnt milli bæjar- og hreppssjóða eftir þeim reglum, sem í lögum þessum segir.

Þessu frv. var vísað til fjhn. þessarar d. Þegar fjhn. tók málið fyrir, þótti rétt að fresta afgreiðslu þess, þangað til till. ríkisstj, í efnahagsmálum lægju fyrir. Eftir að þær höfðu verið fram bornar í hv, Nd., tók fjhn. Ed. þetta frv. að nýju til meðferðar. Meiri hl. n. taldi ekki fært að mæla með frv. á þessu þingi, en minni hl., þ.e. hv. þm. N-Ísf. (SB) og ég, vildi mæla með samþykkt frv.

Þegar það lá fyrir, að ekki fékkst meiri hl. í fjhn. fyrir frv., varð samkomulag allra nm. um það að flytja þáltill. þá, sem hér liggur fyrir á þskj. 551. Efni hennar er það, að efri deild Álþingis skori á ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþingi frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Um þetta mál þarf ekki mörgum orðum að fara. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fjárhagur ýmissa, — ég vil segja flestra sveitarfélaga hefur verið mjög örðugur að undanförnu, og kemur þar hvort tveggja til, að tekjustofnar sveitarfélaga hafa brugðizt, tekjustofn þeirra er aðallega einn, útsvörin, en enn fremur hefur með nýjum lögum ár eftir ár verið hlaðið útgjöldum á sveitarsjóðina og bæjarsjóðina án þess að afla þeim nýrra tekjustofna eða tekna til að standa þar undir.

Sveitarfélögin og samtök þeirra hafa tekið þessi mál til meðferðar að undanförnu og gert ítrekaðar áskoranir til Alþingis og ríkisstj. um að ráða hér bót á. Fyrir nokkrum árum var samþ. ályktun í Sþ. um undirbúning nýrrar löggjafar um skattamál og útsvarsmál og þar m.a. tekið fram, að hlutverk þeirrar n., sem fjallaði um þann undirbúning, ætti að vera að gera till. um verkaskiptingu ríkis og bæjarog sveitarfélaga og þá tekjustofna, sem undir þeim verkefnum og útgjöldum ættu að standa. Því miður hefur ekkert borizt frá þeirri n. til Alþingis um sveitarfélögin, en hins vegar einhverjar till. á sínum tíma varðandi tekjuskattslögin.

Fjhn. Ed. telur nauðsynlegt að hreyfa þessu máli enn, því að hér er um mikilsvert mál að ræða. Bæjar- og sveitarfélögin á Íslandi gegna þýðingarmiklu hlutverki frá öndverðu. Þau hafa, frá því er Alþingi var stofnað og lýðveldi stofnsett hér á Íslandi, haft mikilsverðu hlutverki að gegna um framfærslumál, tryggingarmál og fjölmargt fleira,

Ég ætla, að það sé samróma álit flestra manna, bæði hér á landi og erlendis, að sveitarfélögin eigi að njóta sjálfstjórnar og sjálfsforræðis og að einmitt það atriði sé einn af hyrningarsteinum lýðræðisins. En til þess að sveitarfélögin geti notið sjálfsstjórnar og sjálfsforræðis, er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að þau hafi þá tekjustofna, sem til þess eru nauðsynlegir að standa undir útgjöldum og verkefnum og hlutverkum sveitarfélagsins.

Það liggja fyrir Alþingi áskoranir frá bæjarstjórnum og sveitarfélögum um þetta efni, og skal ég ekki rekja það hér, en aðeins ljúka máli mínu með því að vænta þess eða láta í ljós þá ósk, að d. fallist á þá einróma till. fjhn. um að skora á ríkisstj, að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþingi frv. til). um nýja tekjustofna sveitarfélaganna.