11.11.1957
Sameinað þing: 12. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2410)

42. mál, myndastytta af Ingólfi Arnarsyni

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Óþarft er að rekja eða gera grein fyrir í löngu máli þeim nánu böndum vináttu og frændsemi, sem tengja okkur Íslendinga við norsku þjóðina. Hvergi verða menn þessa þó eins varir og í vestanverðum Noregi, einmitt á þeim slóðum, þaðan sem flestir landnámsmenn íslenzkir, er um er getið í fornum heimildum, á sínum tíma fóru.

Við flm. þessarar till. vorum í hópi nokkurra annarra Íslendinga, sem ferðuðumst um þessar byggðir á s.l. sumri í boði norskra aðila, og við urðum allir sammála um, að vinarhugur Norðmanna í garð Íslendinga er meiri og innilegri, en við áður höfðum gert okkur fulla grein fyrir og þekking fjölmargra þeirra, bæði ungra og gamalla, á íslenzkum sögum, ekki sízt fornsögunum, landnámsmönnunum, sem fóru frá Noregi til Íslands, er undursamlega mikil. Sjálfir fundum við meira, en nokkru sinni áður til frændsemi og vináttu við norsku þjóðina á þessu ferðalagi, en þó aldrei meir, en þegar við vorum staddir á ættstöðvum og í heimahögum Ingólfs Árnarsonar, einmitt 17. júní, á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Þar sameinuðust allir íbúar um að gera komu okkar á þann stað ógleymanlega, og við fundum, að þessar tvær þjóðir tengja bönd, sem aldrei mega slitna.

Við erum sammála um það, flm. tillögunnar, að það mundi verða til góðs í þessum efnum og sýna lítillega hug okkar Íslendinga til Norðmanna, ef við létum taka afsteypu af myndastyttu Ingólfs Arnarsonar hér í bænum og létum síðan reisa hana í Rivedal í Dalsfirði í Noregi, þar sem talið er að Ingólfur Arnarson hafi átt heima. Bæði mundi þetta rifja upp fornar minningar og nútíma skyldleika hjá Norðmönnum, er á þennan stað kæmu. En hingað til má að vísu telja, að hann sé nokkuð afskekktur í Noregi. Þangað er ekki gott vegasamband og erfitt því að komast þangað. Horfur eru á, að þetta breytist bráðlega, að staðurinn komist í þjóðbraut, og er þá líklegt, að bæði komi þangað fleiri Norðmenn en áður, en ekki sízt teljum við líklegt og beint æskilegt og að því beri að stefna, að sem flestir Íslendingar komi á þennan stað, ekki aðeins til þess að sýna fornum minningum virðingu sína og lotningu, heldur einnig teljum við, að með því öðlumst við mun betri skilning á okkar þjóðarsögu og ástæðunum til þess, að Ísland á sínum tíma var numið frá Noregi, heldur en við enn höfum. Í okkar hópi kom því upp þessi hugmynd, að við, sem sitjum á Alþingi úr þessum ferðamannahóp, flyttum till. þess efnis, sem hér er nú fram borin. Og að athuguðu máli vorum við flm. sammála um, að þetta væri okkur ljúft verk að gera og yrði til mikils góðs, ef hugmyndin kæmist í framkvæmd.

Ég vonast til þess, að um þetta mál verði ekki ágreiningur hér á Alþ., heldur verði till. samþykkt í einu hljóði, og síðan fari, þegar þar að kemur, réttir fulltrúar af Íslands hálfu á veglegan hátt til Noregs og afhendi þessa gjöf þar með hátíðlegum hætti, er verðuga athygli veki í báðum þjóðlöndunum.

Þó að ég voni, að ekki verði ágreiningur um málið, tel ég rétt, að því sé vísað til n. Það hefur m.a. rifjazt upp fyrir mér, að e.t.v. kunna að vera nokkrir örðugleikar á heimild til að fá að gera afsteypu af myndastyttunni. Ég vonast til þess, að þeir örðugleikar þurfi ekki að verða þessari hugmynd að farartálma, og skal ekki frekar um það ræða hér. En það er atriði, sem þarf að íhuga í nefnd, og legg ég því til, að um leið og málinu sé vísað til síðari umr., sé því vísað til nefndar, og þar sem hér er um milliríkjaskipti að ræða og verknað, sem á að tengja okkur nánar norsku þjóðinni en áður, þá skilst mér eðlilegast, að málinu sé vísað til utanrmn., og geri það að till. minni.