30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2429)

180. mál, vegakerfi á Þingvöllum

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti, Með því að ég varð ekki var við, að neinn annar kveddi sér hljóðs af þeim, sem standa að flutningi þessarar till., vildi ég, að það heyrðist einhver rödd af þeirra hálfu til að þakka hv, fjvn. fyrir jákvæða afgreiðslu málsins, eins og fyrir liggur.

Í viðbót við þau rök, sem hv. frsm, fjvn. taldi hér, eru það ákaflega rík rök í hugum margra, sem óska eftir, að akstur um Almannagjá leggist niður, og ekki sízt þeirra, sem þeim eru kunnugastir, þeirra, sem annast þennan akstur, að það er talin nokkuð mikil slysahætta af grjóthruni úr berginu við Almannagjá, og sýnir raunar umhverfið, að það hafa hrotið þar björg niður á ýmsum tímum, og hættan á því er ekki minni, heldur meiri, síðan bifreiðar stækkuðu og þungi þessara flutningatækja varð meiri. Ég vildi aðeins benda á þetta, sem ef til vill gæti skoðazt sem ekki veigaminnstu rökin fyrir því, að þörf er á, að þessu máli sé kippt í lag og á þann veg, sem hv. fjvn, hefur lagt það fyrir Alþ. og ég þakka fyrir mitt leyti, og ég ímynda mér, að aðrir hv. flytjendur að þessari þáltill. muni vera þakklátir n. fyrir að hafa lagt lið þessu mikla nauðsynjamáli. Hvað hæstv. fjmrh, áhrærir, þá vildi ég óska þess, að það kæmi til að vega nokkuð lóð í hans huga, þegar hann á að hafa afskipti af þessu máli, fjárhagsleg afskipti, einmitt slysahættan, sem er yfirvofandi á Þingvöllum, ef áfram verður haldið eins og hingað til hefur verið með akstur í gegnum Almannagjá.

Ég ætla að vona það, að hæstv. ráðh. gleymi ekki þeim rökum, sem eru fyrir því, að þessu máli er hreyft, og að ég hygg verður tekið undir það af öllum þingmönnum.