12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (2443)

54. mál, aðsetur ríkisstofnana og embættismanna

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Mig furðar nokkuð á því um svo skýran mann sem hv. 1. þm. Reykv. (BBen) er, að mér skuli ekki takast að koma honum í skilning um efni þessarar till., sem hér liggur fyrir, og þykir mér leitt, ef það stafar af því, að kennarahæfileikar mínir séu ekki nægilega miklir. En við það verður nú að sitja. Þessi till. er ekki um nefndarskipun. Hún er um endurskoðun, sem lagt er til að ríkisstj. láti fara fram. Það er lagt á vald ríkisstj., hvernig hún framkvæmir þessa endurskoðun. Hún getur framkvæmt hana í einhverju ráðuneyti, ef henni sýnist svo, og hún getur líka skipað nefnd, og út af fyrir sig eru engin fyrirmæli um það í till., að þessir fulltrúar frá fjórðungsþingunum skuli eiga sæti í þeirri nefnd. Það, sem í síðara hluta till. felst, er að þeir skuli tilkvaddir af þeim, sem með málið fara, hvort sem það er ráðuneyti eða nefnd, og það er látið óbundið, hvort þeir eru tilkvaddir sem nefndarmenn eða á annan hátt til þess að gefa álit. Þetta vænti ég nú að hv, þm. skiljist.

Hv. þm. var óánægður með það, að fulltrúi Reykjavíkur yrði ekki á annan hátt tilkvaddur, en sem fulltrúi væntanlegs fjórðungssambands Sunnlendinga, og sagði, að Reykvíkingar mundu ekki hafa sömu sjónarmið í þessu máli og t.d. Vestur-Skaftfellingar. Það er vitaskuld svo, að í heilum landsfjórðungi hafa ekki allir sömu sjónarmið. Ég geri ráð fyrir t.d., að austurhéruð og vesturhéruð Norðurlands hafi ekki nákvæmlega sömu sjónarmið, e.t.v. ekki heldur í þessu máli, og við því er ekkert að segja. Út af fyrir sig mundi ég ekkert hafa á móti því, þó að Reykjavík yrði þarna gerð að fimmta fjórðungnum, ef hv. þm. vill svo vera láta. Ég yrði síður en svo á móti því, að fulltrúi yrði tilkvaddur af hálfu Reykjavíkur, ef hún hefði einhver sérstök samtök, sem svöruðu til fjórðungsþinganna í hinum landsfjórðungunum.

Þetta held ég svo að ég láti nægja til skýringar málinu.