14.12.1957
Neðri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

73. mál, kosningar til Alþingis

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. dómsmrh. vil ég segja nokkur orð til skýringar þessu frv., sem er komið frá hv. Ed.

Eins og menn vita, starfar mþn. að endurskoðun kosningalaganna og hefur starfað um skeið. Þessi nefnd hefur ekki lokið störfum, enda eru mörg þýðingarmikil atriði í kosningalögunum, eins og gefur að skilja, sem þurfa gaumgæfilegrar íhugunar við. Á hinn bóginn hafa komið ýmsir ágallar fram á kosningatilhöguninni, eins og eðlilegt er, þar sem kosningalögin voru, síðast þegar þau voru sett, að verulegu leyti nýsmíði. Þykir ástæða til að gera ráðstafanir til að bæta úr nokkrum þessum ágöllum, enda þótt niðurstöður heildarendurskoðunar kosningalaganna liggi ekki fyrir enn þá. Þess vegna hefur ríkisstj. beitt sér fyrir þessu frv. til laga um breytingar á kosningalögunum og tekið inn í það nokkur slík atriði, sem öll miða að því, eins og það hefur stundum verið kallað í umræðum um þetta mál, að friða kjördaginn, þ.e.a.s., að kosningarnar geti farið virðulegar fram, en mörgum virðist hafa orðið. Ganga breytingarnar allar í þá átt.

Ég mun gera grein fyrir þessum breytingum. Fyrst er sú, að mönnum er ætlaður sá réttur í kosningalögum að greiða atkvæði fyrir fram, ef þeir gera ráð fyrir að vera fjarverandi á kosningadaginn, en síðan er ákvæði um, að atkvæði manna skuli ógild, ef það kemur í ljós, að þeir hafi verið heima á kosningadaginn, greitt atkvæði fyrir fram, en ekki tekið það til baka og greitt atkv. aftur á kjörfundi. Þessi heimild um fyrirframatkvgr. hefur verið mikið notuð. Hún er vitaskuld ætluð fyrir þá eina, sem gera ráð fyrir að verða í burtu, og hún á að vera til afnota aðeins fyrir þá, því að ef þeir eru heima, þá eiga þeir, eins og ég sagði, að taka atkvæði sitt til baka og greiða atkv. á kjörfundi. Nú þykir ástæða til að setja inn í lögin til þess að fyrirbyggja misnotkun í þessu efni ákvæði um, að menn skuli greina ástæður fyrir því, af hverju þeir gera ráð fyrir að verða fjarverandi, og það skuli bókað, þegar kosningin fer fram. Með þessu móti verður meiri möguleiki til þess að veita aðhald í þessu efni, að hér fari allt fram eins og löggjafinn hefur ætlazt til. Það er ekki annað, sem hér er verið að gera, en að setja ákvæði til stuðnings því, að framkvæmdin á þessu verði eins og löggjafinn ætlaðist til í upphafi, því að löggjafinn ætlaðist aldrei til þess, að mikill hluti þjóðarinnar greiddi atkvæði fyrir kjördag, jafnvel undir yfirskini, heldur til hins, að þeir, sem þyrftu að vera fjarverandi, gætu notfært sér sinn rétt. Til þess eins ætlaðist löggjafinn.

Næst vil ég greina frá því, að sú hefur orðið venjan undanfarið, að kjörfundi hefur sums staðar verið haldið áfram fram á nótt. Hér er tekinn af allur vafi um þetta í frv, og lagt til að setja í lög, að það skuli loka kjörfundinum kl. 23, en þeir, sem þá eru komnir inn, fái að kjósa. Þetta ákvæði er miðað við, að kosningunum sé lokið á kosningadaginn, eins og auðvitað var ætlun löggjafans, þegar lögin voru sett. Það var ætlazt til þess, að kosningadagurinn dygði til að ljúka kosningunni. Í sambandi við þessar næturkosningar hefur átt sér stað alveg óeðlilegur eftirrekstur um kosningaþátttökuna, og mörg dæmi eru til þess, að menn hafa ekki haft næturfrið út af þessu fyrirkomulagi, sem tekið hefur verið upp sums staðar. Ég hygg, að þess muni engin dæmi í nokkru lýðfrjálsu landi nema hér, að farið hafi verið út á þá braut að halda kosningum áfram langt fram á nótt og berja menn upp úr fasta svefni um hánætur til þess að pressa þá til að kjósa, ef þeir hafa ekki séð ástæðu til þess daglangt að mæta á kjörfundi. Enn fremur er gerð sú breyting um leið, og var það ákvæði sett inn í frv. í hv. Ed., að hægt yrði að byrja kjörfund einni klst. fyrr, en áður, í kaupstöðum.

Þá hefur sá siður tíðkazt hér, að umboðsmenn flokkanna eða frambjóðenda og lista, sem að sjálfsögðu eiga rétt til þess að vera í kjördeildum og á kjörfundum til þess að fylgjast með því, að kosningaathafnir fari löglega fram, riti upp nöfn þeirra, sem kjósa. Eru þessar upplýsingar síðan notaðar til þess að fylgjast með því sem grandgæfilegast, hverjir ekki mæti til þess að neyta kosningarréttar síns, notaðar til þess að leita þá uppi og reyna að fá þá til að kjósa. Það þykir miklu eðlilegra, að það sé ekki leyfilegt að rita upp í kjörfundarstofunni, hverjir mæti til þess að kjósa. Það er óviðkunnanlegt og óeðlilegt, og þess vegna er gert ráð fyrir því í þessu frv., að þetta sé bannað, en umboðsmennirnir aðhafist það eitt á kjörstaðnum, sem þeim er auðvitað fyrst og fremst ætlað að gera, og það er að fylgjast með því, að allt fari fram eftir lögunum og engin misnotkun af nokkru tagi eigi sér stað á kjörfundinum. Það hefur vitanlega aldrei verið tilgangur löggjafans, þótt þetta hafi orðið þannig í framkvæmdinni, að þessir umboðsmenn væru þar til þess að rita jafnóðum skrár um það, hverjir neyttu atkvæðisréttar síns.

Þá hefur sá háttur orðið á hér sums staðar, að mikil auglýsingastarfsemi hefur verið uppi höfð á sjálfan kosningadaginn, en eftir því sem þetta auglýsingaglamur á kosningadaginn færist í vöxt, eftir því verður það öllum góðum mönnum hvimleiðara, og mönnum leiðist sá blær, sem verður á kosningadaginn með þessu móti. Þetta á sér stað með mörgum hætti. Það eru bílar merktir flokkunum til að mynda, og það eru jafnvel notuð gjallarhorn til þess að koma við eggjunum, upphrópunum og áróðri, og enn fremur lýsir þetta sér með mörgu öðru móti. Ég býst við því, að flestir sanngjarnir menn álíti, að það væri mjög heppilegt að draga úr þessu á sjálfan kosningadaginn og hann mundi fá miklu skemmtilegri blæ, ef þessir siðir væru lagðir niður.

Þess vegna hefur ríkisstj. gert það að till. sinni í þessu frv. að setja í lögin ákvæði, sem draga nokkuð úr þessu. Eru þau ákvæði í frv. t.d. að banna að merkja listum eða frambjóðendum einstakar bifreiðar eða merkja þær með sérstökum auðkennum í tilefni af kosningadeginum, banna áróður í næsta nágrenni við kjörfundina o.s.frv.

Þetta hygg ég vera höfuðatriði í frv., þau sem ég nú hef á drepið, og öll eru þessi ákvæði satt að segja þannig, að ef allt væri með felldu, þá ættu allir að geta orðið ánægðir með þau.

Ég býst einnig við, að svo sé í raun og veru, þegar frá er skilinn lítill hópur ofstækismanna í Sjálfstfl., sem hefur tekið upp baráttu gegn þessum alveg sjálfsögðu umbótum á kosningalögunum með mjög furðulegu móti. Kemur það vitanlega af því, að þessi flokkur hefur haft tilhneigingu til þess að færa út í algerar öfgar einmitt þær framkvæmdir í kosningum, sem hafa orðið almenningi til sárra leiðinda og hafa orðið til þess, að menn telja rétt að gera þessar breytingar.

Ég ætla ekki hér að fara út í að ræða þær dæmalausu öfgar, sem gætt hefur í málflutningi gegn þessu frv., t.d. eins og því, að með þessu væri verið að leggja stein í götu þess, að menn gætu notað kosningarrétt sinn og þar fram eftir götunum. Það vottar auðvitað ekki fyrir rökum í því sambandi, því að hvaða óbrjáluðum manni dettur í hug, að hægt sé að finna í þessu frv. nokkurt ákvæði, sem gengur í þá átt að gera mönnum erfiðara fyrir en áður að notfæra sér kosningarrétt sinn? Eða hvernig skyldi það t.d. hafa getað greitt fyrir mönnum að notfæra sér kosningarrétt sinn, að bílar væru auðkenndir flokkunum á kjördag eða frambjóðendum eða listum eða það gæti greitt fyrir mönnum að notfæra sér kosningarrétt sinn, að umboðsmenn flokkanna hefðu rétt til þess að skrifa niður nöfn þeirra, sem mæta til þess að kjósa, á sjálfum kjörstöðunum? Ætli þeir, sem vilja kjósa, muni ekki mæta þar, þó að slíkar uppskriftir falli niður? Eða hvernig ætli það hafi verið með þá, sem ætla sér að kjósa á annað borð? Ætli þeir séu yfirleitt ekki búnir að koma því í verk að kjósa frá kl. 9 að morgni til kl. 11 að kvöldi? Þetta eru vitanlega ekki nema hreinar fjarstæður, að nokkur ákvæði frv. torveldi mönnum að kjósa.

En því minnist ég á þetta nú strax í framsögu, að það sparar mér að minnast á þessi atriði aftur, þegar hv. sjálfstæðismenn verða búnir að endurtaka hér í deildinni sömu fjarstæðurnar, sem þeir hafa haldið fram um þetta mál í hv. Ed. og utan þingsins.