12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (2452)

141. mál, afnám tekjuskatts

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Núgildandi löggjöf um tekju- og eignarskatt er að stofni til frá árinu 1921. Eldri lög voru þó til áður um þetta efni, en mjög ólík og byggð á allt öðrum grundvelli. Samkvæmt þeim var skatturinn ekki miðaður við heildartekjur eða heildareign, heldur við ákveðið gjald af ákveðnum hlutum, svo sem jarðarhundruðum, skepnufjölda, útflutningsmagni og öðru slíku, og því allt annars eðlis, en núverandi tekju- og eignarskattur. Er helzt að líkja þessari skattálagningu, sem gilti fyrir 1921, við fasteignaskattinn nú eða eitthvað slíkt.

Breytingin 1921 var fyrst og fremst í því fólgin, að þá var upp tekin sú regla að leggja á menn skatt af öllum tekjum og öllum eignum samkvæmt eigin uppgjöf mannanna sjálfra, en ekki einhverja ákveðna hluti, sem öllum voru sýnilegir og þess vegna þurfti ekki að fara í neinar grafgötur um.

Það kom strax í ljós við meðferð málsins á Alþingi þá nokkur vafi um, hvernig hin nýja aðferð mundi reynast, og nokkur tortryggni á því, að framtöl manna yrðu þannig úr garði gerð, að þeim mætti treysta til fulls sem réttum. Framsögumaður málsins hér á Alþingi lét t.d. orð falla um þetta, þegar hann hafði framsögu fyrir málinu úr n., eitthvað á þessa leið: Það er bersýnilegt, að til þess að slík lög sem þessi nái tilgangi sínum, verður að gera ráð fyrir allmiklum siðferðilegum þroska gjaldenda og skattanefnda, og það er augljóst mál, að lögin verða aðeins pappírsgagn, ef þennan þroska vantar.

Þegar þáverandi fjmrh., Magnús Guðmundsson, lagði málið fyrir, taldi hann fram fyrir því sem aðalrök þetta þrennt: Í fyrsta lagi, að skatturinn kæmi á þennan hátt réttlátlegast niður, í öðru lagi, að skatturinn yrði greiddur af öllum tekjum og eignum, og í þriðja lagi, að skatturinn verði miklu öflugri liður, en áður var í sjálfu skattakerfinu, m.ö.o., að hundraðshluti ríkisteknanna af tekjuskatti mundi sennilega verða miklu meiri, en áður var.

Síðan þetta gerðist, hefur lögunum um tekju- og eignarskatt verið breytt oft, en aðalatriðinu, því sem upp var tekið 1921, hefur jafnan verið haldið óbreyttu, að skatturinn hefur verið byggður á framtölum gjaldendanna sjálfra. Ýmsum atriðum í álagningu skattsins hefur verið breytt. Skattstiginn hefur t.d. verið hækkaður oftar en einu sinni og er nú kominn upp í 40% af tekjunum, þegar komið er yfir visst mark, en grundvallaratriðið um framtölin hefur jafnan verið óbreytt.

Afstaða Alþfl. til þessarar skattheimtu hefur alla tíð verið mjög ákveðin. Flokkurinn hefur beitt sér fyrir beinum sköttum, en gegn óbeinum — eða tollum — og sérstaklega tollum á nauðsynjavörur, en vitaskuld þá gengið út frá, að skatturinn yrði heiðarlega á lagður, þannig að þetta skattakerfi yrði í raun og veru eins og til þess var stofnað í upphafi og eins og gengið var út frá þá.

Ástæðurnar fyrir þessari afstöðu flokksins eru augljósar. Það verður að teljast eðlilegt, að þeir, sem háar tekjur hafa, greiði meira til opinberra þarfa en hinir, sem litlar tekjur hafa, sérstaklega að af svokölluðum þurftartekjum eða þar fyrir neðan verði engir skattar greiddir, hvorki beinir né óbeinir. Þetta m.a. ætti að leiða til meiri tekjuöflunar í þjóðfélaginu, sem flokkurinn hefur jafnan stefnt að. Þar við bætist svo, að á þeim tíma, þegar þetta var ákveðið, voru tekjur almennings í landinu svo litlar almennt, að tæplega hrukku fyrir hinum brýnustu nauðsynjum, óþarfavörur eða ég tala nú ekki um lúxusvörur þekktust ekki. Óbeinn skattur þá var þess vegna fyrst og fremst tollur á þær vörur, sem nauðsynlegar urðu að teljast og töldust til hinna einföldustu nauðsynja og brýnustu þarfa. Ég vil í því sambandi minna á, að einn af aðaltekjuliðum ríkissjóðs á þeim tíma var kaffi- og sykurtollurinn svokallaði, sem beinlínis var lagður á hinar almennustu og brýnustu þarfir almennings og þær neyzluvörur, sem hann hafði mest um hönd.

Það liggur í augum uppi, að heiðarlega álagður tekjuskattur er eðlilegri og réttlátari, en slíkur tollur eða aðrir tollar ámóta, sem koma og hljóta að koma harðast niður á fjölmennum, barnmörgum og fátækum fjölskyldum. Afstaða flokksins þá, eins og mál lágu fyrir, var því fullkomlega eðlileg og rökrétt samkvæmt höfuðstefnu flokksins.

Nú er liðinn rúmur þriðjungur aldar, síðan þessi lög voru sett, og hefur því fengizt af þeim nokkur reynsla. Og sú reynsla er alltaf að verða augljósari og augljósari og koma betur og betur í ljós. Og yfirleitt má segja, að sú reynsla sé öll á einn veg, hún sé ekki góð, og þær vonir, sem menn gerðu sér, er lögin voru sett, um réttlæti og ágæti laganna, eins og ég drap á í upphafi, hafa yfirleitt brugðizt og látið sér til skammar verða.

Í fyrsta lagi hefur þessi skattur aldrei orðið það, sem til var ætlazt í upphafi, meginuppistaðan í tekjum ríkissjóðsins. Og það er sýnt, að hann getur aldrei orðið það. Þrátt fyrir það að hann nemur nú orðið um 40% af tekjum manna, eftir að þær hafa náð vissu marki, hefur heildarupphæð hans aldrei orðið nema lítið brot af heildartekjum ríkissjóðs. Ég held ég fari rétt með það, að í fjárlögum yfirstandandi árs sé gert ráð fyrir, að tekjuskatturinn sé rúmar hundrað milljónir króna brúttó áætlaður, en öll útgjöld ríkissjóðs eru, eins og menn muna einnig, rúmar 800 milljónir, þannig að skatturinn nemur ekki nema 1/8 hluta eða kringum 12%, og mætti segja mér, að hann hefði ekki á undanförnum árum yfirleitt komizt miklu hærra, en að vera 10–12% af tekjum ríkisins í heild.

Í öðru lagi má segja um þennan skatt, að innheimta hans hefur orðið dýr og miklu dýrari, en innheimta annarra tekna ríkissjóðs. Ég hef að vísu ekki tölur um þetta, en ég held, að þetta sé óvéfengt af öllum, og talnanna er náttúrlega hægt að afla, ef þess er óskað eða þetta kann að vera véfengt af einhverjum.

Þetta hvort tveggja, að skatturinn hefur aldrei orðið kjarni eða aðaluppistaða í heildartekjum ríkissjóðs og að hann hefur orðið mjög dýr í innheimtu, eru náttúrlega veigamikil rök gegn honum. En hitt sker þó úr, sem er á allra vitorði nú orðið, að framtalsskýrslur til skatts eru nú falsaðar meira en nokkurn gat órað fyrir í upphafi hjá allt of mörgum, sem hafa möguleika til þess að gera það, bæði hjá einstaklingum og félögum. Þetta er á allra vitorði, og ég trúi ekki öðru, en það sé viðurkennt af öllum.

Sá þroski, sem gengið var út frá við setningu þessara laga í upphafi og talinn var skilyrði fyrir því, að lögin yrðu eitthvað meira, en pappírsgagn, virðist því ekki lengur vera fyrir hendi, hafi hann þá verið það nokkurn tíma. Nú er það daglegur viðburður að reka sig á mann eða menn, sem litla skatta greiða, en geta veitt sér í daglegu lífi ýmiss konar þægindi og jafnvel munað, sem er ósamrýmanlegur þeirri tekjuupphæð, sem skattur þeirra hlýtur að vera reiknaður af. Nú er það líka daglegur viðburður að rekast á launamann svokallaðan, sem greiðir miklu hærri skatta en annar, sem lifir miklu ríkmannlegra lífi og hlýtur að hafa hærri tekjur, en hefur möguleika til að fela þær á einhvern hátt. Ég er ekki með þessu að segja, að það sé dyggð launamannsins að telja fram tekjur sínar. Hann verður að gera það, því að ef hann gerir það ekki, þá gerir vinnuveitandi hans það og raunar hvort sem er, og hann kemst ekki undan því að gera það, þó að hann kannske vildi. En aðrir, sem afla tekna sinna á annan hátt eða í svo mörgum stöðum, að það er ómögulegt að fylgjast með því, komast undan, ef þeir vilja, og það er á allra vitorði, að það eru allt of margir, sem vilja það.

Tekjuskatturinn er því nú orðinn fyrst og fremst ekki eins og hann var hugsaður í upphafi: skattur af öllum tekjum og öllum eignum, heldur er hann orðinn fyrst og fremst launaskattur, — launaskattur, sem lagður er á laun og innheimtur af þeim, sem taka tekjur sínar sem launagreiðslur, og komast ekki undan, þegar aðrir sleppa.

Nú eru tekjulægstu menn þjóðarinnar yfirleitt launamenn, og á þá er þess vegna skatturinn lagður, en hinir, sem margir hverjir hafa miklu hærri tekjur, sleppa. Vitanlega eru til launamenn með tiltölulega háum launum, en það er ekki um þá, sem ég er að ræða í þessu tilfelli. Verkar þannig skatturinn með núverandi framkvæmd alveg þveröfugt við það, sem honum var ætlað í upphafi. Hann leggst með fullum þunga á þá launalægstu, en miklu tekjuhærri menn komast undan. Þetta særir réttlætiskennd manna og egnir þá upp gegn lögunum.

Eitt má benda á enn í sambandi við þessi mál, sömu tegundar, að það er orðið talsvert algengt fyrirbrigði, að tekjuháir menn, sem ekki komast hjá að telja fram tekjur sínar, hætti að vinna hluta úr árinu, vegna þess að þeir segja sem svo: Þegar ríkið tekur 40% af því, sem ég afla, og bæirnir önnur 40%, hvers vegna skyldi ég þá vera að þessu, þegar ekkert verður eftir eða lítið handa mér sjálfum. — Í mörgum tilfellum eru þetta menn, sem vinna mjög gagnleg störf fyrir þjóðarbúið, og venjulega eru það einnig mjög duglegir menn, sem komast upp í þessar tekjur, sem mikill skaði er að missa úr starfi, og þarna verkar skatturinn og útsvarið náttúrlega líka til þess að draga úr þjóðartekjunum í heild.

Það er enginn vafi á, að framkvæmd tekjuskattslaganna hefur orðið allt önnur, en til var stofnað í fyrstu og því nauðsynlegt að taka málið allt upp til endurskoðunar. Ég vil í þessu sambandi minna á höfuðrökin, sem talin voru fram af þáverandi fjmrh. og ég minntist á í upphafi, fyrir því, að þessi skattur yrði lagður á, á þennan hátt. Höfuðrökin voru, — ég skal endurtaka þau: að skatturinn komi sem réttlátlegast niður, — það gerir hann ekki, — að skatturinn verði greiddur af öllum tekjum og eignum, — það gerir hann ekki, — og að skatturinn verði miklu öflugri liður en áður var í skattakerfinu í heild, — það gerir hann heldur ekki, — þannig að mér virðist svo sem allar aðalforsendurnar, sem taldar voru fram 1921, þegar skatturinn var á lagður, séu fallnar.

Þeirri skoðun vex líka ört fylgi, að þetta kerfl allt byggist á svo algerlega óraunhæfum forsendum, það hafi reynslan sýnt, að ekkert vit sé í að halda þessari tekjuöflun ríkisins áfram á þennan hátt. Er þá sjálfsagt ekki í önnur hús að venda fyrst og fremst heldur en óbeinu skattana, þó að aðrar leiðir e.t.v. kunni að vera til líka. En þá hlýtur að vakna spurningin, hvort óbeinu skattarnir eða tollarnir komi ekki nú jafnóréttlátlega niður á fátækar og barnmargar fjölskyldur og þeir gerðu áður. Og þeirri spurningu er ekki hægt að skjóta sér undan að svara, þegar þessi mál eru rædd.

Um þetta er það fyrst að segja, að afkomumöguleikar þessara þegna þjóðfélagsins eru allt aðrir nú, en þegar lögin um tekju- og eignarskatt voru sett, 1921. Þá voru engar tryggingar til og ekkert, sem hét fjölskyldubætur eða barnalífeyrir. Með góðum stuðningi trygginganna er hægt að koma í veg fyrir, að barnafjölskyldum verði íþyngt með þessu og að þær verði hart úti. Það má gera með leiðréttingu og lagfæringu á einmitt barnalífeyrinum eða fjölskyldubótunum. Einnig má geta þess, að nú er afkoma þjóðarinnar í heild orðin svo miklu betri, en hún var þá, að nú eru fluttar til landsins vörur fyrir hundruð millj. króna á ári, sem ekki verða taldar til brýnustu lífsnauðsynja og sumar hverjar eru hreinar lúxusvörur, sem hvergi þekktust árið 1921, og þessar vörur geta tekið mikið af tollabyrðinni. Það má því ætla, að innheimtu hinna óbeinu skatta megi nú haga svo, að þeir lendi ekki með mjög miklum þunga á hinum brýnustu lífsnauðsynjum.

Nákvæmlega sama gagnrýnin á tekjuskattinum og hér hefur komið fram hefur einnig komið fram erlendis og þá einmitt hjá þeim mönnum, sem hafa áður talið beinu skattana réttlátari, en þá óbeinu, þ.e.a.s., þeir hafa náttúrlega gengið út frá því, að þeir beinu væru þá heiðarlega á lagðir. Er þess skemmst að minnast, að norski fjármálaráðherrann Bratteli flutti erindi um þetta efni hér einmitt í þessum sal á þingmannasambandsfundi í fyrra og komst um þetta mál að svipaðri niðurstöðu. Mál þetta hefur einnig verið rætt nokkuð hér heima og m.a. í mínum flokki, í Alþfl., að undanförnu, en ekki verið tekin til þess afstaða þar fyrr en nú, á flokksstjórnarfundi, sem haldinn var fyrir tæpum mánuði.

Við 1. Umr. fjárlaganna í haust gerði ég lítillega tekjuskattinn að umræðuefni og lét í ljós von um, að hægt væri að draga úr því ranglæti, sem menn eru beittir við álagningu hans. Nú vill Alþfl. stíga skrefið að fullu og athuga möguleikana fyrir því að fella hann niður til fulls. Við höfum því leyft okkur hér, þingmenn Alþfl. allir, að ráðherrum flokksins auðvitað undanskildum, að flytja hér þáltill. á þskj. 278 um afnám tekjuskatts. Till, eða tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna gaumgæfilega möguleika á, að tekjuskattur verði afnuminn með öllu og að innheimta önnur opinber gjöld af launum jafnóðum og þau eru greidd.“

Sú rannsókn, sem till. gerir ráð fyrir, á að vera tvenns konar. Í fyrsta lagi athugun á því, á hvern hátt ríkissjóður geti orðið skaðlaus af því, að skatturinn verði felldur niður, því að vitanlega má ríkissjóður ekki missa svo mikils í af tekjum sínum sem nemur heildarupphæð skattsins. Og þessi athugun á að leiða það í ljós, hvort hægt sé að afla annarra tekna í staðinn og þá hverra. Í öðru lagi tel ég, að hún eigi að fela í sér athugun á því, á hvern hátt þetta, sem kann að koma í staðinn, hvort sem það verða óbeinir skattar eða annað, getur orðið þannig, að það lendi sem allra minnst og alls ekki með fullum þunga á þá tekjuminnstu, sem örðugast eiga uppdráttar, og enn fremur, og á það legg ég einnig áherzlu, að þetta lendi ekki þyngst á launastéttunum, á millistéttunum, eins og tekjuskatturinn gerir nú, þar sem þessir menn eru eltir uppi, eltir á röndum út af hverjum eyri, sem þeir innvinna sér, en aðrir og miklu tekjuhærri menn látnir sleppa.

Ég vil vona, að hv. alþm. séu mér sammála um, að það sé ekki að ófyrirsynju, þó að þetta mál verði athugað, og ef það sýnir sig við athugun, að ástandið er einmitt svipað eins og ég hér hef greint frá og möguleikar eru til að bæta úr ástandinu á heiðarlegan hátt, þá hiki menn ekki við að gera þær róttæku aðgerðir, sem nauðsynlegar eru, og felli niður skattinn í því formi, sem hann er nú innheimtur.

Við höfum með vilja, flutningsmennirnir, ekki farið neitt út í, hvernig þessi athugun skuli gerð og hve víðtæk hún skuli vera. Það verður að vera á valdi þeirra, sem framkvæma hana. En við höfum aðeins sett fram þessi höfuðsjónarmið í málinu, sem eiga að vera að mér finnst sá leiðiþráður, sem hægt er að rekja sig eftir til þess að ná þarna þeim árangri, sem að er stefnt.

Nú kunna menn að segja, að hér með sé ekki nema hálfsögð sagan, — það séu enn eftir beinir skattar, sem komi illa og óþægilega við, þar sem eru útsvörin. En út af því vil ég segja, að það er þó, ef tekjuskatturinn yrði afnuminn, betri hálfur skaði en allur, og eins má á það benda, að við útsvarsálagningu eru þeir, sem skattinn leggja á, ekki eins bundnir af ákvæðum skattstiga og skattanefndir og skattstjórar eru við álagningu tekjuskattsins.

Álagning útsvara má og á að fara fram eftir efnum, og þar er möguleiki til að taka tillit til hluta, sem ómögulegt er að taka tillit til við álagningu tekjuskattsins, og niðurjöfnunarnefndir í sveitarfélögum eru svo kunnugar í sínu héraði, að þær geta gert þetta og — ef þær vilja — náð á þann hátt réttlátari skattaálagningu, en skattanefndir og skattstjórar eru færir um að gera, ef þeir eiga að byggja á þeim framtölum, sem þeim eru fengin í hendur.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi, að innheimta beinu skattanna er orðin býsna erfiður hlutur í seinni tíð, bæði fyrir þá, sem eiga að greiða þá, og eins fyrir hina, sem eiga að nota þá, t.d. eins og útsvarsinnheimtan hjá bæjarfélögunum. Og ég er ekki í vafa um, að ef þessi leið yrði farin, að fella niður tekjuskattinn, þá mundi það auðvelda innheimtu útsvaranna að miklum mun, bæði fyrir þá, sem eiga að greiða, og eins fyrir hina, sem eiga að nota þau.

Út af niðurlagi till. um að innheimta önnur opinber gjöld af launum jafnóðum og þau eru greidd, þá er það ekki nýtt mál hér á Alþ. Það hefur verið rætt hér fyrr og gefin um það fyrirheit, að ég ætla, að þetta mál skyldi nú gaumgæfilega athugað, þó að árangur hafi ekki orðið af því enn. En þetta er hér sett til þess að minna á það, því að þægilegast mundi það vera, á meðan þessir beinu skattar eru teknir, að þeir séu teknir beint af tekjunum, jafnóðum og þeirra er aflað, en ekki eftir á, eins og nú er gert. Þó að þeir séu innheimtir af tekjunum, eru þeir ekki skattur af þeim tekjum, sem menn eru að fá, heldur af tekjum ársins á undan, þó að innheimtunni sé svona hagað. Hitt væri miklu æskilegra, ef það væri hægt að greiða skattinn að fullu af tekjunum jafnóðum og þeirra er aflað. Þá eru menn a.m.k. frjálsir á eftir.

Ég vænti, að það verði einnig tekið til athugunar.

Þetta mál, sem ég hef hér flutt, er ekki óþekkt á Alþ. Það hefur verið flutt um það frv. áður, ég ætla, að það hafi verið 1951, af hv. þm. Barð., sem þá var, en að vísu í nokkuð öðru formi. Hér er ekki farið fram á annað, en að málið verði gaumgæfilega rannsakað, og það ætti ekki að mæta neinni andúð frá neinum. Hitt er svo ljóst, eins og málið var flutt 1951, að þá var náttúrlega hugsunin, sem lá á bak við, sú sama, en formið á því var að því leyti annað, að þar var gert ráð fyrir fortakslaust, að skatturinn yrði þá þegar afnuminn, án þess að málið væri frekar kannað. Eins og ég segi, hugsunin er sú sama, en aðferðin er svolítið önnur, og hvort sem menn eru nú á því, að þetta megi takast eða ekki, og jafnvel hvort sem þeir eru á því, að þetta sé fullkomlega rétt eða ekki, þá finnst mér ekki, að það sé ástæða til þess að vera á móti því, að þetta mál verði athugað ofan í kjölinn og að það verði leitað að úrræðum, sem a.m.k. vonir standa til að gætu orðið réttlátari, en sú skattheimta, sem nú fer fram.

Ég tel mig ekki þurfa að hafa um þetta fleiri orð. Ég geri ráð fyrir, að það þyki eðlilegt að vísa málinu til nefndar, og vildi þá leyfa mér að leggja til, að hæstv. forseti vildi, þegar það þætti við eiga, fresta umræðunni og vísa málinu til hv. fjvn.