12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2457)

141. mál, afnám tekjuskatts

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er nú engin ástæða til á þessu stigi málsins að fara út í efnislegar umr. um till., því að hún fer væntanlega til n., og það er þá hægara að taka þær upp á ný, þegar till. kemur frá nefnd.

En það eru nokkur einstök atriði, sem mig langar þó til að minnast á, bæði til að svara fsp., sem fram hefur verið borin, og minnast á nokkur atriði, sem fram hafa komið í þessum umr.

Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) bar fram þá spurningu, hvort flm. hefðu gert sér ljóst, hvað ætti að koma í staðinn fyrir þennan tekjumissi, sem ríkissjóður mundi verða fyrir, ef tekju- og eignarskatturinn yrði felldur niður.

Við höfum með vilja, flm., ekki farið inn á það að benda á neinar ákveðnar leiðir í þessu sambandi. En við höfum þó sagt, að þó að það yrði að því horfið að bæta ríkissjóði það upp með óbeinum sköttum eða tollum, þá mundi vera unnt að gera það án þess, að það þyrfti að gerast á þann hátt að verða nokkurs konar baggi — eða mjög mikill baggi — á þá, sem minnsta möguleika hafa til þess að bera þessar byrðar.

Við höfum m.ö.o. látið liggja að því, að við teldum möguleika til að ná þeim árangri í tekjuöflun ríkissjóðsins, sem væri samrýmanlegur okkar hugsjón, þó að það yrði farið inn á þessar brautir, frekar en með því að halda áfram tekju- og eignarskattinum í því formi, sem hann er á lagður nú. Það eru náttúrlega líka ýmsir möguleikar fleiri, en að fara út í óbeina skatta, það er t.d. álagning á munaðarvöru eins og áfengi, tóbak og annað þess háttar, og ég veit t.d., að hv. 1. þm. Eyf. mundi ekki setja sig á móti því, þó að áfengisálagningin yrði hækkuð eitthvað lítillega til þess að mæta þessum tekjumissi ríkissjóðsins.

Hann vildi líka halda því fram, þessi hv. þm., að það, að sumir menn lifðu ríkmannlega án þess að greiða nokkra verulega skatta, þyrfti ekki að vera vegna þess, að þeir hefðu tilsvarandi tekjur, sem hærri skattar ættu að greiðast af, heldur lifðu þeir kannske um efni fram. En ég held, að þeirri skoðun sé nú yfirleitt að vaxa fylgi víða í heiminum, að yfirleitt eigi að skatta eyðsluna, þar sem hún er um hönd höfð, og sérstaklega ef hún er á varningi, sem ekki er nauðsynjavara, og alveg sérstaklega þá, því að hvort sem eyðslan eða munaðurinn eða hvað sem maður nú kallar það stafar af því, að menn hafi háar tekjur, eða af því, að þeir lifa um efni fram, þá á að takast skattur af þeirri eyðslu í ríkissjóðinn, og það er einmitt sú leiðin, sem ég tel rétt að farin sé.

Yfirleitt er ekki mikið um skattsvik, sagði hv. þm., a.m.k. ekki hjá bændum. Mér er það nú ánægja, ef það er ekki þar um neitt slíkt að ræða, sem hann má náttúrlega betur þekkja til heldur en ég. En hv. 9. landsk. þm. (ÓB) upplýsti þó, að hvorki meira né minna en fjórðungur, eða a.m.k. fimmtungur af þjóðartekjunum væri ekki talinn fram til skatts, eða svo að ég hafi alveg nákvæmlega eftir honum, að ef þjóðartekjurnar væru gerðar upp eftir skattframtölunum annars vegar og eftir öðrum leiðum hins vegar, þá væri munurinn þessi. Og þetta eru sannarlega miklar upphæðir, því að ég ætla, að fjórðungur eða fimmtungur af þjóðartekjunum sé upp undir 700–800 millj. kr. eða eitthvað þess háttar, og þá má nú fyrr rota en dauðrota heldur en að 700–800 millj. kr. sé stolið undan skatti.

Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) talaði vinsamlega um þessa till., og ég er honum út af fyrir sig þakklátur fyrir það eins og öðrum, sem vinsamleg orð hafa látið falla um hana, en hann gerði það á allt öðrum forsendum, en þær ástæður gáfu tilefni til, sem ég flutti fyrir till. Hann segir, hv. þm., að tekju- og eignarskatturinn sé notaður til svo mikillar auðjöfnunar, að hann sé þess vegna á móti honum. En það er einmitt vegna þess, að ég tel hann ekki vera notaðan til auðjöfnunar, að ég tel hann tilgangslausan. Ég tel, að með tekjuskattinum séu nú eltir uppi þeir menn, sem ekki á sérstaklega að elta, og þeim mönnum, sem miklar tekjur hafa, en ekki telja þær fram, sé hlíft, að þess vegna eigi að afnema hann og að það sé ekki möguleiki til þess að leiðrétta þetta öðruvísi. Þetta er náttúrlega mismunandi sjónarmið hjá okkur hv. þm., en mín rök fyrir flutningi tili. eru alveg öfug við hans.

Hv. 9. landsk. þm. sagði, að erfiðleikarnir við tekjuskattinn væru framkvæmdalegs eðils, en í eðli sínu væri skatturinn réttlátur, og ég er honum alveg 100% sammála um þetta. Skatturinn, ef hann væri framkvæmdur heiðarlega, fer nákvæmlega í þá átt, sem ég vildi láta leggja skatta á handa ríkissjóði og helzt taka þá alla á þann hátt, ef mögulegt væri. En framkvæmdin hefur orðið svo, að þetta hefur alveg snúizt við í höndum þeirra, sem áttu að framkvæma það, og það hefur snúizt svo hatramlega við, að þetta hefur verkað nánast öfugt við það, sem til var ætlazt í upphafi. Ég tel, að í orðum hv. 9. landsk, og hv. 3. þm. Reykv. hafi komið fram nokkuð sama hugsunin og sú, sem vakir fyrir mér, að réttlátasta tekjuöflunin í ríkissjóðinn væri sú, sem tæki hærri gjöld og hærri skatta af þeim, sem meiri möguleika hafa til þess að láta þessa skatta í té. En eins og framkvæmdin hefur orðið og eins og líkur eru til að framkvæmdin verði á tekjuskattslögunum, þá þjóna þau alls ekki lengur þessum tilgangi.

Hv. 3. þm. Reykv. vildi reyna að hressa upp á þetta allt saman með því að breyta t.d. bókhaldslögunum, breyta ýmiss konar eftirliti og öðru þess háttar, en ég er hræddur um, að honum muni veitast það ákaflega erfitt.

Tekjuöflun margra manna — og margra félaga reyndar líka — er þannig, að það er ómögulegt að henda reiður á henni. Ef menn yfirleitt vilja fara á bak við og vilja telja fram öðruvísi en rétt er, þá geta þeir það, hvernig sem eftirliti þessu verður hagað. Og það er þess vegna, sem ég hef ekki séð nokkra leið til þess að betrumbæta kerfið. Ef hann getur bent mér á einhverja örugga leið, til þess að tekju- og eignarskatturinn verði heiðarlega á lagður, þá skal ég vera fyrsti maðurinn til þess að taka upp aftur fyrri afstöðu til málsins og berjast fyrir því, að gamla kerfinu verði við haldið. En það er einmitt vegna þess, að ég tel lítinn eða engan möguleika á því, að þetta verði hægt að gera, sem málin hafa tekið þessa stefnu.

Ég hjó eftir því hjá hv. 3. þm. Reykv., að hann teldi, að erlendis ylli þessi framkvæmd tekjuskattsins litlum eða engum erfiðleikum. En þetta stingur þó í stúf við þær upplýsingar, sem hv. 9. landsk. gaf hér áðan, því að mér skildist, að hann hefði þá sögu að segja, að mismunurinn í framtöldum tekjum og raunverulegum tekjum væri mjög svipaður erlendis og hér, þannig að ég held, að það sé ekki því að fagna, að við séum einhverjir eftirbátar í því að framkvæma lögin réttilega og öðrum hafi tekizt þetta miklu betur, heldur sé nákvæmlega sömu söguna að segja erlendis og hér, að það sé farið í kringum þessa tekjuöflunaraðferð á svo grófan hátt, að það sé ekki viðunandi; og það veit ég með vissu, að erlendis eru víða þær skoðanir uppi, að þessi tekjuöflunaraðferð sé að verða óhæf vegna þess, hversu hún sé misnotuð.

Hv. 3. þm. Reykv. minntist á það, að menntmrh, hæstv. hefði verið hér fyrir nokkrum dögum að ræða um afnám tolla í sambandi við fríverzlunina og það væri nú í því nokkur mótsögn, að við vildum afnema tekjuskattinn á einu leytinu og láta koma tolla í staðinn, ef ekki fyndist annað, en tala svo aftur um þann möguleika, að við tækjum þátt í fríverzlunarsamtökum þjóða og mundum þá verða að fella tollana niður. Hv. þm. man sjálfsagt eftir því, að þegar hæstv. menntmrh. lagði þetta mál fyrir um fríverzlunina, án þess að ég skuli fara neitt út í það, þá gerði hann mjög skýran greinarmun á tvenns konar tollunum, þ.e. fjáröflunartollum annars vegar og verndartollum hins vegar. Og það, sem kemur til greina í fríverzlunarsamningnum, hef ég látið mér skiljast, að sé eingöngu það, að það eru verndartollarnir, sem verða að falla niður, en fjáröflunartollar ríkisvaldsins eru jafnfrjálsir og áður, aðeins ef vara, sem framleidd er innanlands, lendir í jafnháum tolli og sú, sem inn er flutt. Þetta er náttúrlega allt annað, en að afnema tollana.

Ég er alveg samþykkur hv. þm. um það, að nefskattar eru óbilgjörnustu skattar, sem hægt er að hugsa sér og að þá beri að afnema. En ég held, að réttlátasta tekjuöflun, sem hægt er að hugsa sér, sé sú, að neyzluvörurnar verði tollaðar stighækkandi eftir því, hvað þær eru metnar þarfar eða óþarfar. Ef mögulegt er að gera „systemið“ þannig úr garði, að aðalneyzluvörurnar eða brýnustu neyzluvörurnar verði lágt eða ekkert tollaðar og síðan lagðir á vörurnar hærri og hærri skattar, eftir því sem telja verður þær ónauðsynlegri, og allra hæstir á þær, sem kannske eru taldar skaðlegar, eins og áfengi og tóbak og annað þess háttar, þá væri það æskilegast frá mínu sjónarmiði. Þá borga menn fyrir það, sem þeir njóta eða neyta, og öll ágizkun eða vanmat eða rangmat á greiðslugetu manna hlýtur þá að hverfa, því að þá kemur gjaldið í ríkissjóðinn beinlínis af þeirri neyzlu, sem menn veita sér, og þá geta menn eingöngu kennt sjálfum sér um eða þakkað sér, — hvernig sem maður orðar það, — hver greiðslan í ríkissjóðinn verður, því að þá verður hún í hlutfalli við það, sem þeir eyða. Ég er ekki að segja, að þetta verði nú kannske niðurstaða nefndarinnar, heldur er hér aðeins um mína persónulegu skoðun að ræða.

Ég vona, að hv. alþm. verði mér sammála um að láta þetta fara í athugun og að sú n. eða þeir aðilar, sem málið fá til athugunar, eyði í þetta góðum tíma og taki málið upp á kannske enn víðari grundvelli en till. gerir ráð fyrir. Það mætti að einhverju leyti verða til þess, að þeir gætu komið inn á tekjuöflun ríkisins almennt í sambandi við þetta, og mundi ég telja það vel og sem sagt vonast til, að málið fái að ganga fram á þeim grundvelli.