12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (2460)

141. mál, afnám tekjuskatts

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. í sambandi við þær tölur, sem ég nefndi í fyrri ræðu minni og hér hafa dálítið verið ræddar, m.a. í sambandi við aths., sem hv. 1. þm. Eyf. gerði í sambandi við það mál. Það, sem hér var um að ræða, er það, að Hagstofa Íslands hefur um alllangt skeið gert upp þjóðartekjurnar á grundvelli skattframtala. Þar eru einnig taldar þær tekjur í skattframtölum, sem skattur hefur ekki verið lagður á, og áætlað í eyðurnar, eftir því sem unnt er. Hin aðferðin er sú að gera þjóðartekjurnar upp eftir verðmæti framleiðslunnar, svo sem gert hefur verið eftir stríðið. Þegar þetta tvennt hefur svo verið borið saman, hefur það komið í ljós, að þjóðartekjurnar skv. skattframtölum voru um 20–25% lægri, en ef gert var upp eftir hinni aðferðinni, þannig að þetta skýrist ekki með því, að tekjur, sem ekki eru skattskyldar, séu ekki taldar með. Annað mál er það náttúrlega, að það getur verið einhver hluti af þessum tekjum, sem ekki kemur fram, og má telja víst, að einhver hluti af þeim muni ekki vera skattskyldur. En telja verður víst, að það sé ekki nema lítill hluti, m.a. af því, að ástæða er til þess að ætla, að þeir, sem hvort sem er koma ekki til að greiða í skatt, telji samvizkusamlegar fram en hinir. — Ég vildi aðeins að gefnu tilefni upplýsa þetta.