12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (2461)

141. mál, afnám tekjuskatts

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hér hafa ýmsar merkar upplýsingar komið fram, sem mikilsvert er að menn geri sér grein fyrir, þ. á m. ekki sízt sú yfirlýsing hv. 1. þm. Eyf., sem er einn aðalráðamaður í stjórnarliðinu, forseti Ed. og formaður fjhn. þar, að það vanti 200 millj, kr. upp á fjárlög og útflutningssjóð, til þess að ríkið og útflutningssjóður verði hallalaus á þessu ári. Þetta er mjög mikilsvert, að þessi upplýsing skuli gefin.

Þá er það einnig mjög mikilsvert, að hv. þm. spyr 1. flm, að því, hvernig hann ætli að ná þeim 100 millj. kr., sem þurfi til að bæta upp tekjuskattinn til viðbótar þessum 200 millj. kr.

Þeirri spurningu er auðvitað ekki hægt að svara, fyrr en skýrt er frá því, hvernig þessum 200 millj, kr. eigi að ná. Nú segir að vísu hæstv. forseti Sþ., annar aðalráðamaður stjórnarliðsins, að hvorugur þeirra viti neitt, hvernig þessa fjár eigi að afla, og er þó komið fram í miðjan marz og tekjurnar eiga að notast á þessu ári, og er svo að skilja sem hér sé um algeran leyndardóm að ræða. Af orðum hv. 1. þm. Eyf. verður aftur á móti ekki skilið annað en hann viti, hvernig teknanna eigi að afla, og vildi ég því ekki láta það tækifæri ónotað að biðja hann um að gefa okkur upplýsingar um svo mikilsvert mál.