12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (2463)

141. mál, afnám tekjuskatts

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er ljóst, að hv. 1. þm. Eyf, hefur hér ljóstrað upp leyndarmáli, sem ekki átti að komast upp á þessu stigi málsins, og hann vill nú mjög draga úr yfirlýsingu sinni áðan. Þingheimur heyrði það glögglega, að hv. þm. sagði, að það væri varlega áætlað — varlega áætlað — að ef 100 millj. þyrfti að afla í staðinn fyrir tekjuskattinn, þá þyrfti að afla 300 millj, kr. alls. Þetta heyrði þingheimur allur, og þetta var einnig sú tala, sem hæstv. forseti Sþ. notaði, þegar hann svaraði þm. áðan. (BSt: Þetta er tilbúningur.) Ja, það er tilbúningur, sem hv. þm. getur þá lesið í þingræðunni, þegar þar að kemur. Ég skal lúta þeim dómi, en treysti því þá, að hv. þm. breyti ekki því, sem hann sagði, En látum það vera, að hann segi, að menn greini á um það, hvort það þurfi 100 millj. eða 200 millj. En ekki er óeðlilegt, að þingmenn spyrji og þjóðin með, þegar komið er fram í marz og þegar hv. formaður fjhn. Ed., forseti þeirrar göfugu, varfærnu deildar, gerir þetta mál að umræðuefni, þá segi hann okkur sína eigin skoðun, láti ekki nægja að segja, að sumir segi 200 millj. og aðrir segi 100 millj. Hverjir eru þessir sumir, sem segja 100 millj., og hverjir eru þessir sumir, sem segja 200 millj.? Það er ekki alveg óeðlilegt, að þegar fjármálastjórn ríkisins er með þessum hætti og það er svo á reiki um miðjan marzmánuð þess árs, þegar teknanna á að afla, að menn vilji fá nokkru gleggri grein fyrir því, hvernig ástandið er. Hitt má segja, að ef þeir eru ekki komnir lengra en það, að enn er deilt um, hvort það séu 200 millj. eða 100 millj., sem vanti, þá sé öllu óvissara, hvernig eigi að afla fjárins. En ég verð þó eftir sem áður að halda mér að því, að hv. 1. þm. Eyf. hefur ekki rétt til þess, að aðrir svari þeirri spurningu, hvernig eigi að afla 100 millj. kr. til viðbótar, fyrr en hann sjálfur segir okkur, hvernig hann ætli að afla peninganna til þeirra 100 eða 200 millj. kr., sem hann viðurkennir að vanti á nú þegar. Ég tel víst, að fylgjendur þessarar till., en ég er einn þeirra, þó að ég sé ekki upphafsmaður hennar hér, séu reiðubúnir til þess að svara seinni spurningunni, þegar hv. 1. þm. Eyf. er búinn að gera grein fyrir því, sem fjmrh. átti að svara strax í október, þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fyrir.