30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (2466)

141. mál, afnám tekjuskatts

Frsm. meiri hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ef gerður er samanburður á fjárl. nú og fyrir 10–15 árum, þá er það ljóst, að inni á fjárl. er mikið af útgjaldaliðum og það af háum útgjöldum, sem ekki var til á þeim í þann tíð. Kröfur til ríkisins hafa farið mjög ört vaxandi, bæði um það, að ríkið aðstoðaði menn og hreppa með tryggingum og veitti þeim margs konar þjónustu. Þessi stefna hefur leitt til þess, að ríkið hefur og orðið að sækja til þegnanna þær tekjur, sem þarf til þess að standa straum af þessum útgjöldum. En þegar sú leið hefur verið farin, hefur og komið önnur krafa, og hún er sú að létta nú af þegnunum aftur þeim álögum, sem á þá hafa verið lagðar, og m.a. er á ferðinni hér ein till., sem gengur í þá átt, um það að afnema tekjuskattinn.

Á þskj. 278 er till. til þál. um afnám tekjuskatts. Sú till. gerir að vísu ráð fyrir því, að það séu athugaðir möguleikar á því, að þetta sé gert. En það kom fram í 1. umr. þessa máls hér á hv. Alþ., að hugsað var, að þetta væri framkvæmanleg leið.

Fyrir því, að farið er fram á það eða hugsað er til þess að hverfa að því ráði, að tekjuskattur verði afnuminn, voru aðallega fjögur atriði, sem fram voru talin í fyrstunni: Í fyrsta lagi, að tekjuskatturinn hefði ekki reynzt sá skattstofn, sem hugsað hafði verið, þegar hann var á lagður, framtöl manna væru ekki eins rétt og þyrfti að vera, til þess að þeir bæru byrðarnar í hlutfalli við tekjur sínar, eins og hugsað væri, mikil vinna væri samhliða því að leggja skattinn á og sumir menn hættu störfum, vegna þess að laun þeirra væru orðin það há, að skatturinn tæki mikinn hluta af þeim.

Um fyrsta atriðið er það að segja, að enda þótt tekjuskatturinn sé ef til vill ekki eins mikill hluti af ríkistekjunum og gert var ráð fyrir í fyrstu, þá er hann þó rösklega áttundi hluti af þeim samkvæmt núgildandi fjárl., og ég hygg, að hann verði kannske rúmlega það.

Það er rétt, að framtölin eru ekki sem skyldi. En ég tel, að það sé varasöm stefna, þegar þannig er ástatt, að þegnarnir bregðast því, sem til er ætlazt, að leysa þá, þá af hólmi með því að afnema lögin — í þessu tilfelli skattinn vegna þeirra, sem hafa svikið hann. Ég held, að það væri betra að reyna að koma þeim málum fyrir á þann veg, að menn fölsuðu ekki eins skattframtöl sín og nú er reiknað með að gert verði.

Fjvn., sem fékk þetta mál til athugunar, fékk skattstjórann í Reykjavík á sinn fund. M.a. var þar rætt um það, hversu mikil vinna væri samhliða skattframtölum. Það kom í ljós, sem vitað var, að þó að ríkið hætti að innheimta tekjuskatt, þá mundi verða að láta fram fara skattframtöl, þar sem bæjar- og sveitarfélög yrðu að byggja sína tekjuöflun á þeim. Þess vegna var það að dómi skattstjórans í Reykjavík ekki víst, að hér yrði um mikinn mun að ræða á vinnu, þó að ríkið hætti að innheimta tekjuskatt. Það er þá líka til staðar möguleiki til þess að reyna að falsa sitt framtal, þar sem bæirnir héldu áfram að leggja sín útsvör á samkvæmt framtölum manna.

Það virðist vera eðlileg leið til þess að forða frá því, að menn hætti að vinna vegna tekjuskattsins, að tekjuskattinum væri breytt frá því, sem nú er, og það er mín persónulega skoðun, að það ætti að gera. Það er t.d. mjög óeðlilegt að leggja tekjuskatt á þurftarlaun manna, og ég held, að með persónufrádrættinum hafi það verið hugsað, að svo væri ekki gert.

Ég hef drepið á þau helztu atriði, sem mér virðast hafa verið dregin fram þessu máli til stuðnings.

Eins og fram kemur á þskj. 573 og 590, var fjvn. ekki á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Minni hl. vildi samþ. till. óbreytta, en við, sem meiri hl. skipum, teljum það ekki rétt og viljum vísa málinu til ríkisstj. Við álitum, að það sé ekki hægt að órannsökuðu máli að leggja til, að tekjuskatturinn verði felldur niður, án þess að vitað sé, hvernig ætti að brúa það bil, sem ríkið mundi missa í tekjum sínum með því. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkið hefur heldur vantað tekjur heldur en hitt, og við sjáum ekki, að það mundi finnast heppilegri leið til tekjuöflunar fyrir ríkið, heldur en þó tekjuskatturinn, þótt gallaður sé vegna framkvæmdanna.

Það er líka skoðun meiri hl., að það sé eðlilegt, að ríkisstj, marki á hverjum tíma stefnu um það, á hvern hátt eigi að afla þess fjár, sem þarf til þess að annast ríkisreksturinn, og a.m.k. eigi ríkisstj. að hafa forustu um það, ef eigi að hverfa frá fyrri stefnu um tekjuöflunina.

Samkvæmt framansögðu leggjum við í meiri hl, til, að þessari till. verði vísað til ríkisstj.