26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (2472)

129. mál, brúargerð yfir Borgarfjörð

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Fá mál hafa vakið meiri almennan áhuga á landi hér, en samgöngumálin. Það er heldur ekki undarlegt, því að þjóð, sem býr í strjálbýlu landi, þarf mikið á samgöngum að halda. Íslendingar hafa líka á síðari árum miðað búskap sinn við viðskiptabúskap, og hefur því samgöngukerfið og þróun í þeim málum verið þeim gleðiefni.

Á síðari árum hefur verið gert meira átak í samgöngumálum, en menn hafði áður grunað. Það, sem að dómi manna þá var talið ókleift, er nú talið smámunir einir, og við höfum náð meiri árangri í samgöngumálum, en við létum okkur detta í hug í þann tíð.

Þegar við erum nú búnir að ná fyrstu áföngunum í samgöngumálum á landleiðum, ber að stefna að því leysa annan áfanga, sem verður að stytta leiðir milli héraða og annað það, sem má verða til þess að draga úr flutningskostnaði á landleiðum.

Það er alkunna, að aðflutningar á landleiðum hafa mjög færzt í aukana á síðari árum, og mun svo verða um næstu framtíð. Það er nokkuð síðan kom upp sú hugmynd, að hyggilegast væri að brúa Borgarfjörð. Mun Sigurður Guðbrandsson mjólkurbússtjóri í Borgarnesi vera upphafsmaður að þeirri hugmynd, en síðar hefur henni verið hreyft á prenti og m.a. af Gunnari Bjarnasyni kennara að Hvanneyri.

Þegar þessi hugmynd kom fyrst fram, fannst mönnum, að hér væri um nokkuð mikinn glannaskap að ræða, sem ekki væri hyggilegt að líta á á næstunni. Almennt var talið, að hér væri um draum að ræða, sem ekki mundi rætast. Margt hefur gerzt þó á seinni árum, sem bendir til þess, að nauðsyn beri til að athuga þessa leið með kostgæfni.

Nú er unnið að því að gera tvo vegi á Vesturlandi, Heydalsveg vestur á Skógarströnd um Dali og svo veginn af Barðastrandarvegi til Vestfjarða og þar með landleiðina til Ísafjarðar. Þegar þessir vegir eru komnir í samband, mun aðalumferðin til Vesturlands liggja um Borgarnes og vestur Mýrar. Á þessu ári er gert ráð fyrir, að sementsverksmiðjan á Akranesi taki til starfa. Mun starfsemi hennar þess valdandi, að flutningar á landleiðum aukast mjög verulega. Það er því orðið tímabært að stytta leiðina til Vesturlands svo sem tök eru á, og þess vegna er þessi till. fram komin til þess að athuga möguleika á því, hvort ekki er hér um færa leið að ræða.

Eins og fram er tekið í grg, þessarar till., er hér um að ræða vegalengd, sem er 1.8 til 2 km. Það mun ljóst vera, að ef horfið yrði að því að brúa Borgarfjörð, mundi brúin verða mun styttri eða sennilega innan við kílómetra. Um lágsjávað er þarna mikið útfiri, og er lítill hluti fjarðarins þá sævi eða vatni flotinn. Megnið af honum er þá þurrar fjörur, svo að það er allgott að vinna að þessu verki. Hins vegar má vel vera, að hér reynist um að ræða það dýra framkvæmd, að þess vegna verði ekki horfið að því ráði, en nauðsyn ber til, að það verði athugað.

Ég vil líka segja, að þó að mönnum finnist hér nokkuð mikið í ráðizt, og það er það, þá er ég ekki viss um, að það sé um meira að ræða, þegar tillit er tekið til þekkingar okkar í dag og möguleika til þess að framkvæma verk, heldur en mörg þau atriði, sem við höfum leyst í samgöngumálum okkar á síðustu árum. Hvað sem úr verður um framkvæmd þessa verks, þá er hitt nauðsynlegt, að athuga þá möguleika, sem þarna eru til staðar, og mælir margt með því, að það verði gert. M.a. er það, að Borgarnes hefur frá upphafi verið það kauptún á landi hér, sem einna mesta þjónustu hefur veitt ferðamönnum. Þetta litla kauptún hefur byggt mjög myndarlegt hótel núna á síðustu árum og gert það með meiri myndarskap, en almennt er gert hér á landi. Ég hygg, að Hótel Borgarnes sé eitthvert myndarlegasta hótel hér á landi, og það sýnir, að Borgnesingar leggja sig mjög fram um að veita gestum góða þjónustu. Það er áríðandi fyrir fólk, sem þarf að fara á fjallvegi eða kemur af þeim, að njóta mikillar og góðrar fyrirgreiðslu, en þess mundi það njóta með ferð sinni um Borgarnes.

Það er margt fleira, sem mætti tína hér til, en ég mun nú ekki þylja það að sinni, enda er flest af því fram tekið í grg. En ég vil endurtaka, að það verður stefna okkar á næstunni að reyna að stytta landleiðir, svo sem tök eru á, og leita eftir þeim möguleikum, sem þar eru til, og það er líka mín skoðun, að það verði ekki mjög langur tími, þangað til þetta mál þykir ekki nema myndarleg aðgerð, en ekki neitt glannafyrirtæki.

Svo legg ég til að, að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr, og til fjvn.