30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (2495)

192. mál, Síldarbræðslan hf Seyðisfirði

Flm. (Björgvin Jónsson):

Herra forseti. Þáltill. á þskj. 560, sem hér er til umr., skýrir sig að mestu með grg. þeirri, er henni fylgir. Ég get því verið stuttorður, en vil þó reyna að draga fram enn skýrari mynd af nauðsyn málsins, en fram kemur í grg.

Það er álit Austfirðinga og flestra sjómanna, sem síldveiðar stunda að sumri, að verksmiðjuskortur sunnan Langaness hafi á undanförnum árum valdið þjóðarbúinu tugmilljónatjóni. Hv. Alþ. og hæstv. ríkisstj. sýndu það í verki á s.l. vori, að fullur vilji var á að leysa úr þessum vanda. Á s.l. sumri var reist á Seyðisfirði 2.500–3.000 mála síldarverksmiðja. Þegar á fyrstu sólarhringunum, eftir að nokkur möguleiki var á, að verksmiðjan gæti unnið síld, var allt orðið fullt af hráefni, og mátti segja, að frá því og til loka síldarvertíðar sæi verksmiðjan ekki fram úr verkefnum sínum.

Sökum fjárskorts í fyrra, var þó ekki hægt að ljúka að fullu endurbyggingu verksmiðjunnar, og dró það mjög úr afköstum hennar og varð síldarflotanum til mikils tjóns. Mjölhús er ekkert með verksmiðjunni og lýsisgeymar aðeins fyrir ca. þriðja hluta þess magns, sem varlega er áætlað að geti til hennar borizt í meðalsíldarvertíð. Einnig vantar mjög tilfinnanlega þrær við verksmiðjuna.

Forráðamenn hennar hafa nú tryggt sér efni til þess að geta hafizt handa um þessar nauðsynlegu framkvæmdir. Það er hér eins og víðar, að það stendur á fjármagni. Telja forráðamenn verksmiðjunnar nauðsynlegt að fá ríkisábyrgð fyrir 1.8 millj. kr., til þess að þessar framkvæmdir séu mögulegar.

Hv. Alþingi hefur fyrr á þessu þingi sýnt vilja sinn í því að leysa úr hinum tilfinnanlega verksmiðjuskorti sunnan Langaness með því að veita Vopnafjarðarhreppi og Neskaupstað verulegar ríkisábyrgðir til að byggja síldarverksmiðjur þar. Eins og ég tók fram áðan, fékk Seyðisfjarðarkaupstaður ríkisábyrgð til sams konar bygginga á síðasta þingi. Ég veit, að hv. alþm. skilja hina brýnu nauðsyn, sem er á því, að unnt verði að ljúka við síldarverksmiðjuna á Seyðisfirði fyrir næstu síldarvertíð. Það getur munað millj. króna í gjaldeyristapi og minnkað verulega afkastamöguleika síldarflotans og verkað þannig sem tekjumissir fyrir íslenzka fiskimenn, ef ekki verður hér úr bætt.

Ég leyfi mér svo að lokum að gera það að till. minni, að till. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjvn.