02.06.1958
Sameinað þing: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (2516)

190. mál, endurkaup seðlabankans

Flm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er borin fram á þskj. 548, miðast við það, að hið háa Alþingi slái föstum réttindum og þýðingu íslenzks iðnaðar til jafns við landbúnað og sjávarútveg og feli hæstv. ríkisstj. framkvæmd þeirra mála, eins og segir í till., að seðlabankinn endurkaupi framleiðslu- og hráefnisvíxla iðnaðarfyrirtækja með svipuðu sniði og framleiðsluvíxla sjávarútvegs og landbúnaðar.

Til þess að finna rök þeirri nauðsyn, sem felst í þáltill. þessari, er ástæða til að vekja athygli á þeirri stóru atvinnubyltingu, sem orðið hefur hér á landi síðustu ár, og afleiðingum hennar. Á fyrstu áratugum þessarar aldar, þegar nágrannar okkar voru af kappi að undirbyggja breytta atvinnuhætti með tæknilegum framkvæmdum, lifðum við hér í fátækt, og var álit margra, að Íslendingar væru dæmdir til fátæktar vegna vöntunar á hráefnum í landinu, fólksfæðar og harðbýlis landsins.

Þótt ekki sé hægt að reikna hér á landi með málmum í jörðu og skóglendi sé eytt í bili, þá er jarðhitinn, vatnsorkan, auðæfi hafsins og kjarnmikið fólk, sem vegur þyngra á metaskálunum. Með tækniþróun síðustu áratugina er brotið blað í atvinnusögu þjóðarinnar. Skortur á tæknimenntuðum mönnum hefur að vísu háð þeirri þróun, enda voru t.d. aðeins 30 íslenzkir verkfræðingar starfandi hér árið 1930, en munu nú líklega nær tífalt fleiri. Um fjölgun annarra tæknimenntaðra manna og um fjölgun iðnstéttanna er svipað að segja, allt hefur þetta margfaldazt á síðustu árum.

Eftirfarandi tölur sýna atvinnuskiptingu þjóðarinnar. T.d. árið 1860 er talið, að landbúnað stundi 73.2% landsmanna, sjávarútveg 12%, en handverk og iðnað aðeins 2.1%.

Árið 1930 hefur iðnaður og handverk fært sig upp í 18.9% og 1950 upp í 31%, á sama tíma sem stórfækkað hefur í hinum atvinnugreinunum. Síðan 1950 hefur hallað enn í sömu átt, og þar með er iðnaðurinn orðinn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar.

Það lætur líka nærri, að lífskjörin hafi jafnan batnað í beinu hlutfalli við vöxt iðnaðarins og tæknikunnáttu þjóðarinnar.

Sú gamla röksemd á móti íslenzkum iðnaði, að hér séu ekki hráefni fyrir hendi í landinu til iðnaðarframleiðslu, heyrist nú vart lengur. Efnivörur iðnaðarins þarf að vísu flestar að flytja til landsins, en aðeins í frumstæðu ásigkomulagi, og þetta er sama og margar aðrar þjóðir þurfa einnig að gera. Danir t.d. eru viðurkenndir dugmikil þjóð með iðnað á háu stigi og verða þó að flytja inn allt sitt hráefni og alla orku í formi olíu og kola. Við Íslendingar höfum hins vegar orkulindir, sem ekki eiga sinn líka hjá nágrönnum okkar.

Þáltill. sú, sem hér er borin fram, er vissulega ekki dægurmál. Hér er um að ræða velfarnaðarmál, sem komið er fram vegna breyttra atvinnuhátta landsmanna, mál, sem undanfarin ár hefur verið eitt aðaláhugamál þeirra samtaka og aðila, sem að iðnaðarframleiðslu vinna og hafa gert sér grein fyrir, hvers virði iðnaður er íslenzku atvinnulífi. Ef litið er í skýrslur Landsbankans fyrir s.l. ár, má sjá, að á sama tíma og viðskiptabankarnir eiga ekki möguleika til endursölu á iðnaðarvíxlum í seðlabankanum, aukast afurðavíxlakaup vegna landbúnaðar um nær 45 millj, kr., og í skýrslu bankastjórans segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Útlánaaukning seðlabankans á síðasta ári stafaði að miklu leyti af endurkaupum afurðavíxla. Þessi tegund útlána hefur aukizt mjög að mikilvægi á undanförnum árum vegna þeirrar nauðsynjar að tryggja höfuðatvinnuvegunum rekstrarfé á tímum verðbólgu.“

Endurkeyptir framleiðsluvíxlar seðlabankans um síðustu áramót námu 457 millj. kr., en ekki er getið í skýrslunni, á hvern hátt þetta skiptist á milli landbúnaðar og sjávarútvegs eða hvort iðnaður á hér hlut að máli nema áburðarverksmiðjan, sem vitað er að fær fyrirgreiðslu bankans.

Það er fróðlegt að gera sér grein fyrir, á hvern hátt fram borin þáltill. mundi verka í framkvæmd. Með framkvæmd till. mundi skapast hér myndarleg fjöldaframleiðsla á mörgum hlutum. Framleiðendur mundu selja viðskiptabönkum sínum efnis- og framleiðsluvíxla, en viðskiptabankinn endurselja þá eftir þeim reglum, sem seðlabankinn mundi setja í samráði við hæstv. ríkisstj. Hvað mundi svo þetta leiða af sér? Framleiðandinn hefði bolmagn til hagkvæmari innkaupa á efnivöru. Í stað þess að framleiða vöru á dýran hátt í smáum stíl mundi hann að sjálfsögðu framleiða slíka vöru í fjöldaframleiðslu og útkoman verða ódýrari vara, meiri framleiðsla, betri afkoma almennings. Sama má segja um verksmiðjuiðnaðinn almennt. Hann mundi hér fá möguleika til hagkvæmari rekstrar, fjölbreyttari framleiðslu, betri skipulagningar og jafnframt ódýrari framleiðslu. Sem sagt: stefnt í rétta átt til hagsældar fyrir alla. Þannig er hægt að taka dæmin víðs vegar úr íslenzkum iðnaði. Í dag takmarkast tæknin vegna fjárskorts.

Þessi tilhögun mundi einnig geta haft stórkostlega þýðingu fyrir nýjar atvinnugreinar. Hún mundi t.d. leggja varanlegan grundvöll að þýðingarmiklum þætti íslenzks sjávarútvegs, smíði stálskipa á Íslandi. Ég fullyrði, að með réttri skráningu erlends gjaldmiðils, sem nú miðar að, þótt í uppbótarformi sé, er með íslenzkum fagmönnum hægt að byggja hér á landi ekki aðeins fiskibáta úr stáli, heldur allan þann togaraflota, sem íslenzka þjóðin þarfnast. Skapast mundu t.d. strax möguleikar til þess að smíða hér á landi tvo af þeim fimmtán togurum, sem hæstv. ríkisstj. leitar nú eftir að fá smíðaða erlendis, en samkvæmt lögum, samþ. 18. des. 1958, er einmitt heimild til að leita eftir smíðinni hérlendis, og þar segir: „Heimilt er að bjóða út smíði á einum til tveimur þessara togara innanlands og láta smíða þá í landinu, ef byggingarkostnaður þeirra telst viðunandi.“

Ég vænti, að hæstv. ríkisstj, notfæri sér þennan rétt. Þá hefur náðst áfangi til handa íslenzkum iðnaði, íslenzkum sjávarútvegi og þjóðinni í heild, ef skipabyggingar almennt geta flutzt inn í landið,

Eins og nú er háttað viðskiptum Íslendinga með vörukaupasamningum við aðalviðskiptalönd okkar, er m.a. gengið út frá því, að meginhluti efnis til iðnaðar sé keyptur frá þessum löndum. Það er beinlínis háð kaupum og þrýst enn meir á frjálsan gjaldeyri, hversu innkaup í smáum stíl eru erfið frá þessum svokölluðu „clearing“-löndum. Stór efniskaup, gerð frá „clearing“-löndunum, gera nauðsynlegt, að bankarnir aðstoði og létti undir innflytjendum, svo að þeir þrýsti minna á frjálsan gjaldeyri til slíkra kaupa.

Ef athuguð eru fjárfestingarlán atvinnuveganna, kemur í ljós, að iðnaður er þar mjög afskiptur. Stofnlánasjóðir iðnaðarins eru nær engir. Í árslok 1956 eru útlán iðnlánasjóðs 4.3 millj. kr. Á sama tíma eru útlán úr sjóðum landbúnaðarins 135 millj. og úr sjóðum sjávarútvegsins yfir 200 millj.

Með stofnun Iðnaðarbanka Íslands í október 1952 hefst raunverulega nýtt tímabil í sögu iðnaðar hér á landi. Bankinn hóf starfsemi sína vorið 1953 með 61/2 millj. kr. hlutafé. Þar af á ríkissjóður 3 millj., en iðnaðarmenn og iðnsamtökin 31/2 millj., en 15 millj. kr., sem fyrrv. ríkisstj. átti að leggja bankanum til sem lánsfé, hafa aldrei fengizt. En frá stofnun hefur bankinn hins vegar lagt til lánakerfis húsnæðismála og rafvæðingar yfir 4 millj. Þannig hefur ríkið raunverulega endurheimt það fjármagn, sem bankanum var lagt í formi hlutafjár. Bankinn hefur sífellt verið að sækja á og iðnaðarmenn sýnt honum verðskuldaðan áhuga og tiltrú. Skv. reikningum bankans um s.l. áramót eru innstæður yfir 70 millj. kr.

till., sem hér er borin fram, mundi verða þessari stofnun ómetanlegur stuðningur.

Það er reyndar annað, sem ég vil einnig minnast lítillega á máli mínu til stuðnings. Nýlega hafa verið samþ. af hæstv. Alþingi lög um mánaðar uppsagnarfrest daglaunamanna. Allir geta glaðzt yfir því, að daglaunamaðurinn fái atvinnuöryggi á borð við aðra þegna þjóðfélagsins. En svo gæti farið, að þessi lög án annarra ráðstafana auki hættu á atvinnuleysi hjá þeim aðilum, sem hér er einmitt verið að vernda. Atvinnuveitandinn t.d. í iðnaði verður, eftir að þessi lög tóku gildi, að hafa vissu fyrir því lengra fram í tímann en áður, að sala á framleiðsluvörum hans stöðvist ekki. Hann verður að hafa stöðugan markað fyrir framleiðslu sína eða aðgang að fjármagni til þess að geta tekið sölusveiflum eða mætt árstíðarmarkaði, eins og hann hefur sýnt sig að vera hér í mörgum iðngreinum.

Samkvæmt upplýsingum hæstv. félmrh. er atvinnuleysistryggingasjóður nú um 90 millj. kr., og mun hann hafa lánað til atvinnutækja í fjárfestingu víðs vegar um landið, og er það að sjálfsögðu lofsvert. Nú mun hins vegar seðlabankinn hafa fryst tekjur þessa sjóðs, svo að hann verður ekki fær um á næstunni að hlaupa undir bagga til styrktar atvinnulífi þeirra byggðarlaga, þar sem þess gerist mest þörf, á sama hátt og hann hefur gert hingað til. Það er ekki nóg að staðsetja og stofna fyrirtæki til atvinnujöfnunar. Það þarf einnig að reka þau, og reksturinn kostar fjármagn. Það hefur oft gleymzt, að útþynning krónunnar kallar á fleiri krónur í reksturinn. Að ráða bót á þessu er án efa ekki síður aðkallandi, en uppbygging á nýjum atvinnutækjum.

Till. mín getur á viðunandi hátt bætt hér úr og skapað jafnvægi einnig á þessu sviði, auk þess sem hún er að mínum dómi sú raunverulega lækning á árstíðabundnu atvinnuleysi í velflestum greinum iðnaðarframleiðslunnar víðs vegar um landið.

Ef svo mætti verða, að þessi till. yrði til þess, að landsmenn mættu búa við meira atvinnuöryggi almennt, þá lít ég svo til, að till. hafi náð tilgangi sínum. Í þeim iðnrekstri, þar sem ég þekki bezt, járniðnaði, er mesti annatiminn t.d. hér í Reykjavík að jafnaði frá því snemma að vori og fram á haust. Þegar veður versna og útivinna leggst niður, vill oft svo fara, að erfiðleikar skapist með nægilega atvinnu. Þetta endurtekur sig ár frá ári. Á dauða tímabilinu er að sjálfsögðu reynt eftir megni að halda uppi atvinnu með margs konar nýsmíði, en þetta er hægt í miklu stærri stíl, skapist möguleikar til eðlilegrar bankastarfsemi fyrir iðnaðinn.

Eins og ég hef nú bent á, er ástandið þannig, að brýn þörf er, að þetta mál fái afgreiðslu nú, og þar sem komið er nálægt þingslitum, vænti ég, að hæstv. alþm. geti fallizt á, að till, sé nú tekin til endanlegrar afgreiðslu.

Iðnaðurinn veitir í dag sem næst 1/3 landsmanna atvinnu. Ég vil vekja athygli hæstv. alþm. á því, að hinar tvær höfuðgreinar atvinnulífsins, landbúnaður og sjávarútvegur, hafa árum saman notið þessa réttar, sem hér er farið fram á fyrir iðnaðinn. Samtímis hefur Iðnaðarbankinn raunverulega ekkert fjármagn fengið frá ríkinu, eins og ég hef fært rök að, auk þess ekki verið staðið við þær 15 millj., sem til hans var lofað. Hér er ekki aðeins um réttlætismál að ræða, heldur þjóðþrifamál, sem leiða mun til stóraukinnar og bættrar framleiðslu og velmegunar fyrir landsmenn og leggja mun grundvöll að útflutningi á iðnaðarvörum frá Íslandi.