02.06.1958
Sameinað þing: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2517)

190. mál, endurkaup seðlabankans

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég álít, að það væri mjög eðlilegt, að Alþingi léti mál eins og þessi nokkru meira til sín taka, en það hefur gert fram að þessu. Í þeim umr., sem fram fóru í deildum þingsins um efnahagsmálin, gerði ég það nokkuð að umtalsefni, að mér þættu ekki nægar tryggingar fyrir því, að í samræmi við afgreiðsluna á þeim málum, sem þar var verið að afgr., væri tryggt, að lán seðlabankans til viðskiptabankanna væru aukin í réttu hlutfalli við þær álögur, sem yrðu lagðar á sérstaklega sjávarútveginn og rekstrarvörur hans í sambandi við þær ráðstafanir, sem þar voru gerðar. Og ég er ákaflega hræddur um, að það sé nauðsynlegt, að Alþingi geri sér ljóst, að það þurfi að skipta sér af þessum málum, hvernig seðlabankinn hagar sér gagnvart viðskiptabönkunum.

Hvað snertir iðnaðinn, sem hér er sérstaklega farið fram á að athuga, er alveg rétt, að hann hefur verið mjög út undan í þessum efnum. Það er engum efa bundið, að það er nauðsynlegt að leiðrétta það og breyta þarna til. Alveg sérstaklega vil ég undirstrika það, að fyrir Reykjavík er nauðsyn á því, að þetta sé gert, vegna þeirrar miklu þýðingar, sem iðnaðurinn hefur alveg sérstaklega fyrir Reykjavík. Og vegna þess að margt af því, sem Reykjavík og Reykvíkingar þurfa á að halda, hefur setið á hakanum undanfarið, er nauðsynlegt, að tekið sé tillit til þessa.

Ég er því mjög meðmæltur, að fram fari endurskoðun á þeim reglum, sem yfirleitt hafa gilt um þessa hluti, eins og ég gerði allýtarlega grein fyrir við umræðurnar um efnahagsmálin, og skil vel, að það sé ekki óeðlilegt, að kröfur komi fram einmitt viðvíkjandi iðnaðinum í því sambandi. Ég vil aðeins taka fram, að ég álit, að okkur beri að taka með skilningi á þessum hlutum, um leið og unnið sé að því að endurskoða það, sem fyrir er.