02.06.1958
Sameinað þing: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (2519)

190. mál, endurkaup seðlabankans

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti, Ég er samþykkur því, að þetta mál sé stórt, og því miður er það ekki fyrr fram komið, en hér má sjá. Á hinn bóginn vita allir, að það er liðið langt á þingtímann og mjög hæpið, að sé þessu máli vísað — ég tala nú ekki um til allshn., þá sé það sama sem að vísa því frá. Ég lýsi því yfir, að ég hef þá skoðun á þessu, að það sé hætta. Ég er ekki að saka hæstv. ráðh. um það, að hann hafi meint það með því að leggja til, að tili. fari í nefnd, en mín reynsla af því að setja mál í allshn. er nú slík.

Á hinn bóginn er hér um svo þýðingarmikið velferðarmál að ræða fyrir þann hluta þjóðarinnar, sem er talinn vera hvorki meira né minna, en einn þriðji partur af þjóðinni, að iðnaðurinn geti fengið sama aðgang með að selja sína víxla í gegnum viðskiptabanka sína og að seðlabankinn varðveiti þá sölu með því að lána út á framleiðsluvíxla iðnaðarins og verzlunarvíxla, að ég álít, að það megi ekki hika í þessu máli. Ég er sammála hv. 3. þm. Reykv. um þá stóru þýðingu, sem þetta mál hefur fyrir iðnaðinn og þjóðina í heild sinni, og ég er enn fremur sammála hv. 3. þm. Reykv. um það, að Alþ. þarf að láta sig skipta stjórn seðlabankans meira en Alþ. gerir nú. Þess vegna er ég mjög hvetjandi þess, að þetta mál fái afgreiðslu, og mótfallinn því, að það sé tafið í nefnd, eftir atvikum að dæma.