03.06.1958
Sameinað þing: 52. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (2526)

190. mál, endurkaup seðlabankans

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til þess að spyrja um, hvort hv. frsm., hv. 5. landsk. (BG), hafi hér talað fyrir hönd n. eða fyrir eigin hönd. Efni máls hans var, eftir því sem ég gat bezt skilið, vítur á flm. fyrir, hvernig hann flytur málið, og vítur á flokkinn, sem ber ábyrgð á þessum hroðalega flm., fyrir, að hann skuli hafa stutt málið. Þetta hefði auðvitað átt að koma löngu fyrr, segir hann, helzt í þingbyrjun, svo að hann hefði getað haft átta eða níu mánuði til að athuga, hvort ætti að halda fund, eins og tíðkast í þingnefndum, eða ekki.

Ég leyfi mér nú að leiða athygli að því, að það eru aðeins örfáir dagar síðan hv. flm., sem er, eins og allir vita, einn af oddamönnum iðnaðarins í landinu, tók sæti á Alþingi. Og ég dreg í efa, að þessi mikilvirki þm., sem var að tala hér, hafi, þegar hann hafði átt ekki lengri þingsetu, en hv. flm., verið búinn að bera fram veigameira mál en þessi hv. þm. hefur gert. Ég leyfi mér jafnvel að efa, að hann muni nokkru sinni gera það.

Samt sem áður, þrátt fyrir víturnar til flm. fyrir að leyfa sér að bera þetta fram svona seint og að hann skyldi ekki heldur bera það fram löngu áður, en hann kom á þing, þá segir hv. frsm.: Ég legg nú samt til, að við samþykkjum þetta í dálítið breyttu formi. Það er að vísu ekki einn einasti eyrir til að lána, því að hann verður að taka frá einhverjum öðrum, og það getur verið stórhættulegt, og það eru að sönnu ekki nema nokkrir mánuðir, þangað til nýtt þing kemur saman, svo að okkur geti gefizt ágætt tækifæri til að athuga þetta gaumgæfilega og afgr. það með þeim hætti, sem við viljum. En þrátt fyrir þetta legg ég nú samt til, að við skorum á ríkisstj. að gera það, sem henni var falið. — Þetta segir hv. þm, Ég skal ekkert hafa á móti því orðalagi, sem hann óskar eftir, það er kannske kurteisara, þinglegra og eðlilegra. Ég held ég muni nú samt fordæmi þess, að ríkisstj, sé falið að gera svona hluti. Það er svo annað mál, hvort ríkisstj, hefur þetta vald yfir bankanum. Það er þó, eins og hér hefur verið mjög mikið um rætt í umr. um efnahagsmálin, að ríkisstj. verður alltaf að geta ráðið ákaflega miklu um höfuðstefnu seðlabankans í lánveitingamálum, og hvort sem það er samkvæmt bókstaf laga, þá er það mjög nærri að vera samkvæmt bókstaf þarfarinnar á hverjum tíma. Og ég man eftir, að þjóðkunnur bankastjóri sagði það svona sem hálfgert spaugsyrði: Já, hvenær hef ég verið á móti ríkisstj.? — Þessi maður var mjög vitur maður. Hugsun hans var þessi: „Ég er með þeirri ríkisstj., sem á hverjum tíma fer með völdin í landinu, að svo miklu leyti sem samvizka mín leyfir mér, því að ég tel, að það þurfi að vera það samstarf á milli þjóðbanka og ríkisstj., að þjóðbankinn reyni alltaf að laga sig eftir óskum og vilja ríkisstj.“ Og þetta á sannarlega mikið til síns máls.

Ég hef orð hv. flm. fyrir því, að hann telur vel farið, að málið fái þessa afgreiðslu, sem n. mælir með. En ég felli mig ekki við rökstuðninginn fyrir álitinu, og ég spyr um það, m.a. af því, að mikilhæfir forustumenn Sjálfstfl. eru í þessari n., hvort þetta sé talað fyrir hönd nefndarinnar. Ef það er ekki, þá tel ég hv. ræðumann, hv. 5. landsk., vítaverðan fyrir sína framsögu. Hitt er honum um megn, að ófrægja þm., sem er nýsetztur á bekkinn og hefur unnið það afrek að flytja þetta mái inn á þingið og að beygja þessa menn, sem eru það hræddir við hans málflutning. Þeir þora ekki að snúast gegn honum, en geta þó ekki leynt óánægju sinni yfir að þurfa að veita iðnaðinum þennan stuðning.

Það, sem hv. frsm. sagði, var í raun og veru þetta: „Þó að ég sé óánægður og þó að Sjálfstfl. undir handleiðslu hv. þm. hafi nú neytt mig til að sýna iðnaðinum stuðning, þá tek ég það nærri mér að þurfa að gera það, og ég gat ekki leynt mínum innra manni.“ Svona verð ég að skilja þennan tón, sem er hér viðhafður. Ef það væri vilji þessa manns, sem hér flutti ræðuna, að veita iðnaðinum þann stuðning, sem hér er farið fram á og er þjóðnauðsynjamál, þá hefði hann áreiðanlega hagað sínum orðum allt öðruvísi, áreiðanlega sagt: Ég kann því betur, að hér sé sagt: Það er ósk til ríkisstj., en það er ekki valdboð til hennar, að hún „feli“ aðila, sem er hæpið að hún hafi vald til að stjórna. — Þetta var kjarni og efni hans máls, og við það get ég ágætlega sætt mig, ekkert við því að segja. Það getur verið álitamál, hvernig menn vilja orða þá hugsun. En mér fannst innri maðurinn koma þarna fram í því að reyna, um leið og hann skorti kjark til að rísa gegn óskum iðnaðarins, að finna einhvern ágalla á hætti hv. flm., sem er þó búinn á þessum stutta þingtíma að vinna afrek, sem vel getur orðið merkara, en öll þau afrek, sem þessi hv. þm. enn hefur borið gæfu til að vinna í sinni þingsögu.

Ég óska eftir, að það upplýsist, hvort hér er talað f.h. nefndarinnar eða ekki. Ég hefði að sönnu getað gengið á milli nefndarmanna og spurt: Er þetta mælt fyrir ykkar munn. — En málið kom fyrir, fyrir einum eða tveimur dögum, fer í n., kemur aftur hérna. Þetta eru síðustu forvöð að afgr. það, og ég hef kosið þennan hátt, herra forseti, til að fá upplýst, í hvers umboði þessi — ja, hvað á ég að segja — ekki allt of velviljuðu orð voru mælt.