16.12.1957
Neðri deild: 41. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

73. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 163, er um breyt. á l. nr. 7 1942, um kosningar til Alþ., en þau l. gilda að miklu leyti einnig um kosningar til sveitarstjórna, þ. á m. til bæjarstjórna. Frv. er stjórnarfrv., komið frá hv. Ed.

Breytingarnar, sem frv., eins og það er nú, hefur í för með sér, ef að lögum verður, eru á 70., 76., 97., 103., 105., 139., 146., 147., 148. og 149. gr. núgildandi kosningalaga.

Breytingin á 70. gr. laganna varðar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Í frv. er svo fyrir mælt, að kjósandi, sem greiðir atkv. utan kjörfundar, þ.e.a.s. fyrir kjördag, skuli skýra kjörstjóra frá ástæðum til þess, að hann óskar að neyta atkvæðisréttar síns fyrir kjördag, og gera sem nákvæmasta grein fyrir því, hvar hann muni vera staddur á kjördegi. Þessar upplýsingar kjósandans á svo að færa í löggilta bók, sem frambjóðendur og umboðsmenn eiga aðgang að.

Breytingin á 76. gr. er um það, að kjörfundur skuli hefjast kl. 9 árdegis í stað kl. 10, eins og nú er, ef yfirkjörstjórn ákveður, að svo skuli vera, en utan kaupstaða eiga kjörfundir að hefjast eigi síðar en kl. 12 á hádegi samkvæmt gildandi lögum, og verður það óbreytt samkvæmt frv.

Breytingin á 97. gr. er um það, að slíta skuli kjörfundi eigi síðar en kl. 11 að kvöldi, þó þannig, að kjósendur, sem hafa gefið sig fram fyrir þann tíma, eigi rétt á að greiða atkv. Í gildandi l. er tilsvarandi ákvæði á þá leið, að kjörfundi megi slíta, þegar hann hefur staðið í 12 klukkustundir, en þó eigi fyrr en fjórðungur stundar er liðinn frá því, að kjósandi gaf sig síðast fram. Þetta ákvæði hefur sums staðar verið túlkað á þá leið, að halda beri áfram kjörfundi eftir miðnætti, þ.e.a.s. eftir að hinn lögboðni kjördagur er liðinn, og munu þess dæmi, að kosning hafi staðið nokkuð langt fram eftir aðfaranótt, næsta dags. Þessi túlkun ákvæðisins getur að sjálfsögðu reynzt mjög svo varhugaverð, ef langt er gengið í því að skipuleggja komu kjósenda á fimmtán mínútna fresti, og geta þá komið til meðferðar ný vandamál, t.d. hvort þeir skuli hafa kosningarrétt, sem verða 21 árs daginn eftir hinn lögboðna kjördag. Nú er úr þessu skorið, ef frv. verður að lögum. Eftir kl. 11 kjósa þá þeir einir, sem hafa gefið sig fram fyrir þann tíma. Má þá telja tryggt, að kosningu sé lokið kl. 12 á miðnætti, eða í lok hins lögboðna kjördags. Kjósendur í kaupstöðum eiga þess þá kost að greiða atkvæði frá kl. 9 að morgni til kl. 11 eða rúmlega það að kvöldi, ef yfirkjörstjórn notar heimild 2. gr. frv. um að setja kjörfund kl. 9 í stað kl. 10 fyrir hádegi. Þá getur kosning staðið yfir í rúmlega fjórtán klukkustundir. En í þessu sambandi er rétt að nefna það, sem fram hefur komið í sambandi við meðferð þessa máls, að annars staðar á Norðurlöndum virðast kjörfundir yfirleitt ekki vera eins langir og gert er ráð fyrir í þessu frv., hefjast ekki fyrr en kl. 9 að morgni og er slitið eigi síðar, en kl. 9 að kvöldi.

Í 103. gr. gildandi l. er frambjóðendum og umboðsmönnum áskilinn réttur til að gæta þess, að kjörstjórn og kjósendur hagi sér lögum samkvæmt við kosningaathöfnina, og er gert ráð fyrir, að slíkir aðilar séu viðstaddir, þar sem kosning fer fram, ef þeir óska þess. Það er nú farið að tíðkast, a.m.k. allvíða, að umboðsmenn frá kosningaskrifstofum hafi með sér merktar kjörskrár og skrifi á blöð nöfn þeirra, sem kjósa, en sendi síðan þessi blöð kosningaskrifstofum sínum. Á þennan hátt geta kosningaskrifstofur vitað, hverjir kosið hafa á hverjum tíma, og munu nota þessa vitneskju til að ganga eftir því, að þeir kjósi, sem heima sitja, eða einhverjir þeirra. Með breytingunni á 103. gr. l., ef að lögum verður, er þessi starfsemi umboðsmanna bönnuð, enda hefur hún áreiðanlega mælzt misjafnlega fyrir, a.m.k. hjá þeim, sem ekki vilja láta aðra hafa afskipti af því, hvort þeir neyta atkvæðisréttar síns eða ekki.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að bætt sé við 105. gr. l. ákvæði, sem á að tryggja það, að hin merktu kjörskráreintök undirkjörstjórna komist þegar í hendur réttra aðila, yfirkjörstjórnar og hlutaðeigandi yfirvalds. Með þessu á að koma í veg fyrir, að óviðkomandi fái vitneskju um það eftir á, hverjir hafa kosið og hverjir ekki, og er með þessu aukin sú leynd, sem yfir kosningunni hvílir.

Í 19. gr. núgildandi kosningalaga er fjallað um óleyfilegan kosningaáróður og kosningaspjöll. Samkvæmt þeirri gr. l. er nú m.a. bannað að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða skrifuðum ávörpum eða auglýsingum á sjálfum kjörstaðnum, þ.e., eins og það er orðað í l., í kjörfundarstofu, kjörklefa eða annars staðar í eða á þeim húsakynnum, þar sem kosning fer fram, svo og í næsta nágrenni. Hér er því bætt við í frv. skv. 6. gr. þess, að sama gildi um flokksmerki, merki lista eða önnur auðkenni, enda er þar um eins konar auglýsingar að ræða. Enn fremur eru orð laganna „næsta nágrenni“ í frv. skilgreind svo, að þar skuli teljast um að ræða næstu hús að utanverðu og aðliggjandi götur. Hin bannaða áróðursstarfsemi skv. þessu ákvæði má þá ekki eiga sér stað á næstu húsum eða í aðliggjandi götum.

Þá er í frv. í 7. gr. viðauki við sömu gr., þ.e. 139. gr. l., þar sem bannað er að hafa flokksmerki, merki lista eða önnur auðkenni á bifreiðum, meðan kosning stendur yfir, og enn fremur bannað að nota gjallarhorn til áróðurs á sama tíma. Er með þessu nokkuð úr því dregið, að áróðurs- og auglýsingastarfsemi setji svip sinn á daginn, en kosningadagurinn er, eins og kunnugt er, skv. lögum sunnudagur.

Þær breytingar, sem enn eru ótaldar, þ.e.a.s. á 146., 147., 148. og 149 gr. l., eru allar sama efnis og fela í sér hækkun sekta fyrir brot gegn ákvæðum kosningalaga, en í því sambandi er þess að geta, að núgildandi sektarákvæði eru frá 1942 og því eðlilegt, að þeim sé breytt.

Eins og í nál. stendur á þskj. 170, hefur allshn. athugað þetta frv., en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. telur það til bóta á gildandi kosningalögum og leggur til, að það verði samþ.